Stefna skólans hvað varðar skipulag og stjórnun er sú að allar ákvarðanir séu teknar á lýðræðislegan, málefnalegan og gagnsæjan hátt. Allir starfsmenn heyra beint undir skólameistara og starfsmenn stýra vinnu nemenda. Hver starfsmaður, nefnd, fundur og ráð tekur ákvarðanir á sínu starfssviði.
Í 3. gr. laga um framhaldsskóla frá 2008 segir að menntamálaráðherra fari með yfirstjórn framhaldsskóla hvað varðar almenna stefnumótun, aðalnámskrá, eftirlit, stuðning við þróunarstarf og meðferð upplýsinga. Í lögunum er stjórnun einnig til umfjöllunar í greinum um skólanefndir, skólameistara, skólaráð, starfsfólk framhaldsskóla, skólafundi, kennarafundi, starfsgreinaráð, nemendafélög og foreldraráð. Auk þess tengist samstarfsnefnd sem starfar samkvæmt ákvæðum kjarasamninga stjórnun skólans.
Skipulag skólaársins er sett fram í skóladagatali sem gengið er frá á kennarafundi og birt á vef skólans. Hér verður gerð stutt grein fyrir skipulagi og stjórnun en að öðru leyti er vísað á vef skólans, gildandi reglugerðir og kjarasamninga.