Á Kennsluvef skólans er að finna námsefni, kennslumyndbönd, talglærur og annað sem nemendur þurfa á að halda. Þar eru verkefni sett fyrir og námsmat fer þar einnig fram. Að auki nota kennarar margvíslegar aðferðir til að vera í sambandi við nemendur og einnig er áhersla á samskipti milli nemenda og fjarnemenda á vefnum. Í sérgreinum á starfsbrautum sem kenndar í samvinnu við aðra skóla, fer námið fram í námslotum til skiptis í FAS og viðkomandi skóla. Nám í fjallaleiðsögn fer einnig fram með lotukennslu, þ.e. kennt er í bóklegum lotum í skólastofu og verklegum úti í náttúrunni. Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu skapar nemendum og kennurum gott vinnuumhverfi og leggur áherslu á jákvæð og uppbyggileg samskipti og persónulega þjónustu með það að markmiði að efla námsgleði og vinnuanda nemenda.

Löng hefð er fyrir erlendu samstarfi í FAS. Árlega fara fram nemendaskipti við skóla í Evrópu og sömuleiðis taka nemendur þátt í erlendum samstarfsverkefnum og samkeppnum af ýmsu tagi. Eitt meginmarkmiðið með erlendum samskiptum er að víkka sjóndeildarhring nemenda og gefa þeim færi á að kynnast jafnöldrum sínum í öðrum samfélögum. Þátttaka nemenda í félagslífi er snar þáttur í námi þeirra við skólan en það eykur félags- og samskiptahæfni þeirra, borgaravitund og hæfni í lýðræðislegum samskiptum á jafnréttisgrunni.