Lok á Erasmus+ verkefni tengdu menningararfleið

Árið 2018 hófst Eramsus+ verkefnið Cultural heritage in the context of students’ careers þar sem fjallað er um menningu ungs fólks og þeirra upplifun á eigin landi. Þetta var fimm landa verkefni og auk Íslands tóku þátt; Eistland, Grikkland, Ítalía og Lettland. Líkt og í mörgum öðrum samstarfsverkefnum var gert ráð fyrir gagnkvæmum heimsóknum til þátttökulandanna. Verkefnið gekk samkvæmt áætlun þangað til að COVID-19 skall á. Rétt áður en landamæri fóru að lokast var farið í heimsókn til Ítalíu en það var í janúar 2020. Síðasta ferðin í verkefninu átti svo að vera í apríl 2020. Vegna COVID-19 reyndist það ekki mögulegt og þá var ákveðið að sjá hvort hægt yrði að fara í heimsóknir á haustönn 2020. Erasmus+ veitti frest til loka febrúar á þessu ári til að ljúka verkefninu.

Í janúar 2021 var orðið ljóst að ekki yrði hægt að fara til Lettlands en engu að síður þurfti að ljúka við verkefnið. Þessa vikuna hafa þátttakendur skipulagt starf sitt í gegnum netið. Fyrirhugaðir gestgjafar í síðustu heimsókninni sáu um að skipuleggja vikuna. Það hefur ýmislegt verið gert, t.d. hlustað á fyrirlestra, gagnvirkir leikir spilaðir og tekið þátt í fleiri en einni spurningakeppni. Síðast en ekki síst fengu þátttakendur að spreyta sig á lettneskri matargerðarlist.

Hér á Íslandi voru í þessari síðustu lotu fimm þátttakendur sem stóðu sig með stakri prýði og eru nú reynslunni ríkari þó verkefnið hafi endað öðruvísi en lagt var af stað með. Nánar er hægt að lesa um verkefnið hér

Styrkur til námskrárskrifa

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ákveðið að veita FAS styrk til að skrifa heildstæða námskrá í ferðatengdum greinum með námslokum á þriðja hæfniþrepi. Forsaga málsins er sú að námsframboð í ferðatengdum greinum hefur þótt fremur ómarkvisst og afrakstur námsins ekki nægjanlega skýr. Atvinnulífið hefur ekki heldur metið nám í ferðatengdum greinum með fullnægjandi hætti hingað til. Ráðuneytið leitaði til framhaldsskóla um námskrárskrifin og það varð úr að FAS tæki verkefnið að sér.

Í bréfi frá ráðuneytinu kemur einnig fram að nú sé mikið atvinnuleysi í ferðaþjónustu vegna COVID-19 en vonir eru þó bundnar við að ferðaþjónusta verði aftur mikilvæg atvinnugrein á Íslandi. Ráðuneytið telur brýnt að nýta tímann nú til að skrifa heildstæða námsbrautarlýsingu fyrir atvinnugreinina. Möguleiki sé að framhaldsfræðslan geti meðal annars í samstarfi við fyrirtæki boðið upp á sveigjanlegt nám og styttri námslotur sem framhaldsskólar geti metið inn á brautina.

Ætlast er til að námskráin verði skrifuð á þessu ári og lögð er áhersla á að lýsingin sé unnin í samstarfi við aðra framhaldsskóla, framhaldsfræðsluna og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar.

FAS keppir í Gettu betur í kvöld

Eins og undanfarin ár keppir FAS í Gettu betur. Þegar lið voru dregin sama kom í ljós að FAS keppir við lið Menntaskólans í Kópavogi og verður viðureignin í kvöld, 5. janúar. Viðureigninni verður útvarpað á Rás 2 og munu liðin keppa klukkan 20:20.
Lið FAS er skipað þeim Ingunni Ósk Grétarsdóttur, Júlíusi Aroni Larssyni og Selmu Ýr Ívarsdóttur. Keppnin leggst vel í krakkana og þau hlakka til kvöldsins. Þegar spurt var um undirbúning sögðust þau hafa verið nokkuð dugleg að undirbúa sig í jólafríinu.
Vegna sóttvarnarreglna er ekki hægt að koma og horfa á viðureignina en við hvetjum alla til að stilla á Rás 2 í kvöld og fylgjast með okkar fólki og senda þeim góða strauma. Að sjálfsögðu óskum okkar fólki góðs gengis í kvöld.

Skólastarf vorannar hafið

Skólastarf vorannarinnar hófst formlega í dag með skólasetningu. Það var þó óvenjulegt að þessu sinni því það var bæði hægt að mæta í skólann og einnig að vera á Teams. Í kjölfarið voru umsjónarfundir sem bæði voru í stofu og á Teams.
Þann 1. janúar tók gildi ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar sem gildir til 28. febrúar. Þar er kveðið á um að fjöldi í hverju rými geti verið allt að 30. Ef fjarlægð á milli manna nær tveimur metrum þarf ekki að hafa grímu. Þá er blöndun á milli hópa leyfileg. Þess vegna getum við verið með skólahald með nánast hefðbundnu sniði en þó þurfa allir að gæta vel að sóttvörnum.
Kennsla hefst svo 5. janúar samkvæmt stundaskrá og við hlökkum til annarinnar og ganga mót hækkandi sól.

Jólafrí og upphaf vorannar

Síðustu daga hafa kennarar verið önnum kafnir við að taka nemendur í lokamatsviðtöl og fara yfir vinnugögn nemenda. Í dag lýkur skólastarfi haustannarinnar í FAS formlega og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Það verður eflaust kærkomið að fá jólafrí eftir krefjandi haustönn vegna COVID.

Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 4. janúar en þá verður skólinn settur klukkan 10. Umsjónarfundur verður sama dag klukkan 10:30 og er mikilvægt að nemendur mæti þar. Kennsla hefst svo þriðjudaginn 5. janúar samkvæmt stundaskrá.

Starfsfólk FAS sendir nemendum og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.

Vísindadagar í FAS

Í gær og í dag hafa árlegir vísindadagar staðið yfir í FAS. Þá leggja nemendur hefðbundið nám til hliðar og fást við annað afmarkað efni. Viðfangsefni að þessu sinni eru farsóttir og hamfarir og áhrif slíkra viðburða á samfélagið. Þó var ákveðið að það ætti ekki að fjalla um COVID-19 enda heyrum við nóg um það alla daga.
Eins og undanfarið eru nemendur í bekkjum en gátu valið hvort þeir myndu vinna í hópum eða einir. Þegar búið var að velja viðfangsefni þurfti að afmarka efni, afla heimilda og ákveða hvernig á að kynna verkefnið. Verkefnin munu birtast á vef FAS þegar þau eru tilbúin.
Vísindadögum lauk formlega í dag með kaffisamsæti þar sem Hafdís töfraði fram alls kyns kræsingar sem voru gerð góð skil.
Aðstæður undanfarnar vikur hafa verið afar krefjandi en nemendur hafa staðið sig einstaklega vel. Það hefur því verið ákveðið að það verði ekki kennsla á morgun, föstudag, en í stað þess fái allir langa helgi. Þá geta allir hvílt sig aðeins og safnað kröftum fyrir síðustu vikurnar á önninni.