FAS keppir í Gettu betur á fimmtudag

Enn og aftur er spurningkeppnin Gettu betur farin af stað og að sjálfsögðu tekur FAS þátt. Í ár taka 29 skólar þátt í keppninni. Þegar lið voru dregin saman kom í ljós að mótherji FAS í fyrstu umferð er MH.

Lið FAS skipa þau Anna Lára Grétarsdóttir, Selma Ýr Ívarsdóttir og Sævar Rafn Gunnlaugsson. Til vara eru Almar Páll Lárusson, Aníta Aðalsteinsdóttir og Stígur Aðalsteinsson. Það er fyrrum keppandi í Gettu betur fyrir FAS sem þjálfar liðið en við erum auðvitað að tala um Sigurð Óskar Jónsson.

Viðureign FAS og MH verður fimmtudaginn 13. janúar. Hægt er að fylgjast með viðureigninni í beinu hljóðstreymi frá RÚV á þessari slóð og hefst viðureignin um 19:40. Að þessu sinni eru engir áhorfendur leyfðir og það er auðvitað vegna COVID.

Við óskum okkar fólki góðs gengis og hvetjum alla til að hlusta á viðureignina.

 

Skólastarf vorannar hafið

Skólastarf vorannar í FAS hófst formlega í morgun þegar skólinn var settur. Í máli skólameistara kom fram að reynt verði eftir fremsta megni að hafa skólastarf sem eðlilegast þó að mikið sé um smit af völdum kórónuveirunnar núna. Jafnframt minnti hann á mikilvægi þess að hver og einn gæti sem best að sóttvörnum til að minnka líkur á smiti. En komi upp smit þurfi að bregðast við því.
Eftir skólasetningu voru umsjónarfundir þar sem farið var yfir helstu áherslur annarinnar.

Kennsla hefst svo á morgun, 5. janúar, samkvæmt stundaskrá. Nemendur geta séð bæði stundatöflu og bókalista í Innu. Ef það eru einhverjir sem eru að velta fyrir sér breytingu á áfangaskráningu er best að drífa í því hið fyrsta því lok áfangaskráningar eru fimmtudaginn 6. janúar.

Við skulum ganga jákvæð og glöð mót hækkandi sól og vonum að dagar veiruskammarinnar verði senn taldir.

 

Stjórnarskipti í NemFAS

Skólaárið sem nú er að líða undir lok hefur alls ekki verið með hefðbundnum hætti hjá nemendafélaginu vegna COVID-19. Það voru margar áskoranir í sambandi við félagslífið en það náðist að vinna nokkuð vel.  Það var haldin árshátíð, það voru nokkrir viðburðir og seldar gullfallegar peysur merktar skólanum. Fjárhagur nemendafélagsins er nokkuð góður og eru sjóðir félagsins í plús.

Nú er kominn tími til þess að rétta keflið áfram til næstu stjórnar en á aðalfundi nemendafélagsins í síðustu viku var ljóst hverjir munu sinna ábyrgðarstörfum í NemFAS á næsta skólaári. Tómas Nói Hauksson og Sævar Rafn Gunnlaugsson verða forsetar og hagsmunafulltrúi nemendafélagsins verður Selma Ýr Ívarsdóttir.

Við þökkum núverandi stjórn fyrir starfið í vetur og hlökkum til að sjá starfið á næsta skólaári.

 

Staðkennsla aftur heimil

Kennsla hefst þriðjudaginn 6. apríl samkvæmt stundaskrá og staðkennsla verður með sama hætti og hún var fram að lokun þann 25. mars.

Samkvæmt reglugerð um skólahald sem gildir frá 1. – 15. apríl þá er miðað við að hámarksfjöldi í rými sé 30 manns og blöndun heimil.

Framhaldsskólar:

  • Hámarksfjöldi nemenda og starfsmanna í rými er 30.
  • Halda skal 2 metra nálægðartakmörkun milli nemenda og starfsfólks en nota grímu ella.
  • Blöndun nemenda milli hópa er heimil og starfsfólk má fara milli rýma.
  • Um viðburði tengda starfi eða félagslífi í framhaldsskóla fer eftir ákvæði um sviðslistir í reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Rg%20um%20takm%c3%b6rkun%20%c3%a1%20sk%c3%b3lastarfi%20vegna%20fars%c3%b3ttar_hreint%20lokaskjal.pdf

Breytt skólahald í FAS

Á miðnætti taka gildi nýjar sóttvarnarreglur sem fela það í sér að ekkert staðnám verður næstu tvo daga, þ.e. fimmtudaginn 25. mars og föstudaginn 26. mars sem er síðasti kennsludagur fyrir páskafrí.
Eftirfarandi gildir:
– Tekin verður upp fjarkennsla þar sem því verður við komið.
– Núverandi stundatafla gildir þessa tvo daga.
– Nánari útfærsla á námi og kennslu er í höndum hvers kennara og munu kennarar senda upplýsingar um fyrirkomulag til sinna hópa.

Nauðsynlegt er að allir nemendur fylgist vel með vef skólans, tölvupósti, Námsvef og Teams.  Eins og áður er mikilvægt að allir fylgi settum sóttvarnarreglum svo við komumst í skólann eftir páska.

Við vitum að það er krefjandi að vera komin aftur í þessar aðstæður en við vonum að þetta gangi fljótt yfir.

Endurmenntun og efling í ævintýraferðaþjónustu

FAS og aðrar stofnanir í Nýheimum eru, og hafa á undanförnum misserum verið að vinna að verkefnum sem veitt geta fyrirtækjum innan ævintýraferðaþjónustunnar stuðning til nýsköpunar og full þörf er á slíkum stuðningi á tímum Covid-19. Ekki þarf að fjölyrða um þau gríðarlegu áhrif sem heimsfaraldurinn hefur haft á ferðaþjónustuna um allan heim og World Travel and Tourism Council (WTTC) hefur bent á að það gæti tekið ferðaiðnaðinn tíu mánuði að jafna sig eftir áfallið sem faraldurinn hefur valdið.  

Þau verkefni sem unnið hefur verið að í Nýheimum snúa að því að kynna fyrir fyrirtækjum í ævintýraferðaþjónustu leiðir til að styrkja stöðu sína á margvíslegan máta, auka vöruframboð sitt eða ná til nýrra neytenda og styrkja þannig samkeppnisforskot sitt.  

Nýlega lauk vinnu við verkefnin ADVENT og SUSTAIN IT þar sem stofnanir innan Nýheima tóku þátt. Í þessum verkefnum voru þróaðar leiðir til að auðvelda fyrirtækjunum aðgengi að endurmenntun í tengslum við ævintýraferðamennsku og til að styrkja stöðu fyrirtækjanna varðandi sjálfbærni. Önnur verkefni sem eru í gangi í Nýheimum núna eru SCITOUR þar sem leitast er við að þróa og kynna leiðir til að efla vísindatengda ferðaþjónustu, NICHE þar sem þróaðar eru leiðir og námsefni til að vinna með óáþreifanlegan menningararf sem leið til nýsköpunar í ferðaþjónustu og DETOUR en þar er verið að þróa og kynna stuðnings- og námsefni sem nýst getur til að þróa vöru fyrir ört stækkandi hóp ferðalanga sem leita eftir heilsueflandi ferðaþjónustuframboði. 

Þessi verkefni eru öll unnin í alþjóðlegu samstarfi og eru þau styrkt af Menntaáætlun Erasmus+ og/eða Northern Periphery and Arctic Programme. 

Það er von allra sem að þessum verkefnum standa að ferðaþjónustuaðilar kynni sér þá möguleika sem í þessum verkefnum felast. Hér fyrir neðan eru slóðir inn á verkefnin fyrir áhugasama til að kynna sér það sem þar er í boði:   

SUSTAIN IT – http://www.sustainit.eu 
ADVENT
 – https://adventureedu.eu  
SCITOUR
– https://scitour.interreg-npa.eu 
NICHE
 – https://www.nicheproject.eu 
DETOUR
 – https://www.detourproject.eu