Flottir „Hellisbúar“ í þriðja sæti

Fyrir stuttu sögðum við frá því að verkefni frá FAS hefði komist í undanúrslit í samkeppni sem Landvernd stendur fyrir og kallast Ungt umhverfisfréttafólk. Tíu framhaldsskólar skiluðu inn samtals 40 verkefnum og komust sex þeirra í undanúrslit. Fyrir stuttu fengum við að vita að verkefni Hellisbúanna væri á meðal þeirra sem komust í undanúrslit. Sagt er frá þeim verkefnunum á RÚV NÚLL.

Í dag var svo komið að því að kynna þrjú efstu sætin í keppninni og var viðburðinum streymt á fésbókarsíðu verkefnisins. Í FAS var safnast saman á Nýtorgi til að fylgjast með og auðvitað var þess gætt að virða tveggja metra regluna. Okkar fólk hreppti þriðja sætið sem er frábær árangur og fær fyrir það verðlaun og viðurkenningu. Sagt var lítillega frá verkefnunum í þremur efstu sætunum. Umsögn fjölmiðladómnefndar um verkefnið er eftirfarandi: Í þriðja sæti er instagramsíðan Hellisbúarnir. Bráðnun jökla ógnar ungum kynslóðum í dag og stefnir heimkynnum okkar og lífsháttum í hættu. Hópurinn setti verkefnið fram á mjög aðgengilegan hátt fyrir ungt fólk sem var til fyrirmyndar og var í senn fræðandi og lifandi. 

Fyrir þá sem vilja er hægt að horfa á útsendingu af verðlaunaafhendingunni hér.  Og hér er slóðin á instagramsíðu Hellisbúanna.

Frábært – til hamingju með verkefnið.

 

Aftur líf á Nýtorgi

Það var ánægjulegt að sjá aftur nemendur og starfsfólk á vappi í FAS í morgun en frá og með 4. maí taka gildi reglur um rýmkun á samkomubanni. Nú er leyfilegt að koma aftur í skólann en þó þarf að uppfylla skilyrði um að fjarlægð á milli einstaklinga sé a.m.k. tveir metrar. Það er misjafnt eftir áföngum í FAS hvenær nemendur koma aftur eða í hvaða tíma en allir eiga að hafa fengið upplýsingar þar að lútandi frá sínum kennurum.
Hún Hafdís okkar var mætt í veitingasöluna í morgun og menn voru ánægðir með að geta fengið sér að borða. Að sjálfsögðu var passað upp á að allir myndu virða tveggja metra fjarlægðamörkin.

Listsköpun á gamla Sindrahúsinu

Við sögðum frá því í síðustu viku að skólinn hefði fengið leyfi til að nota gamla Sindrahúsið fyrir listsköpun. Einhverjum nemendum hafði dottið í hug að það gæti verið áhugavert að reyna að gera eitthvað nýtt og krefjandi á tímum takmörkunar á skólahaldi. Gengið var í það að útfæra hugmyndina þannig að öllum reglum um samneyti og sóttvörnum væri fylgt og var öllum nemendum boðið að koma og taka þátt. Þema verkefnisins er vorið.

Í síðustu og þessari viku hafa allmargir nemendur komið og lagt sitt af mörkum til að gæða þessar síðustu stundir hússins lífi en ætlunin er að rífa húsið eftir næstu mánaðarmót. Nú þegar er hægt að sjá afrakstur af vinnu nemenda á tveimur útveggjum en nemendur á lista- og menningarsviði hafa séð um að skapa listaverk innan veggja. Á morgun er síðasti dagurinn til að vinna að verkefnunum og hvetjum við þá nemendur sem vilja til að koma milli 14 og 16 og taka þátt.

Framgangur verksins hefur verið settur á instagramsíðu skólans. Þar munu verkin lifa þó húsið heyri brátt sögunni til.

FAS í undanúrslit í umhverfisverkefni Landverndar

Landvernd stendur fyrir alþjóðlegu verkefni á meðal skóla á Íslandi sem kallast Ungt umhverfisfréttafólk. Verkefnið kallast á ensku YRE en það stendur fyrir Young Reporters for the Environment.

Verkefninu er ætlað að valdefla ungt fólk og gefa þeim tækifæri til að hafa áhrif með því að kynna sér umhverfismál með gagnrýnum hætti og miðla upplýsingum til almennings. Nemendur geta einnig valið um að senda verkefni sín í landskeppni og bestu verkefnin taka síðan þátt í alþjóðlegri keppni.

Í FAS var ákveðið að nemendur í umhverfis- og auðlindafræði tækju þátt í verkefninu og var hafist handa fljótlega í byrjun annar. Það var orðið stutt í skilafrest þegar reglur um takmörkun á skólahaldi tóku gildi og hafði það áhrif á vinnuna. En með góðu skipulagi og þrautseigju náðu einhverjir hópar að skila inn verkefnum. Í síðustu viku barst svo ánægjulegur póstur frá Landvernd um að verkefni frá FAS hefði komist í undanúrslit í innanlandskeppninni. Þetta er instagram síða hjá hópi sem kalla sig „Hellisbúana“ og verkefnið fjallar um áhrif loftslagsbreytinga á íshella. Í póstinum frá Landvernd kemur fram að í þessari viku verður sendur póstur á nemendur sem hljóta verðlaun, en sætin (fyrsta, annað og þriðja) verða þó ekki tilkynnt fyrr en í streymi þann 6. maí.

Frábært hjá ykkur Hellisbúar og til hamingju með verkefnið ykkar! Hér má sjá stutta kynningu á hópnum og hér er slóðin á verkefnið í heild.

 

 

 

Skólinn opnar aftur 4. maí

Nú hillir undir að beytingar verði á skólastarfi og hægt verði að mæta í skólann á ný. Í gær birti Stjórnarráð Íslands auglýsingu um afléttingu takmarkana á skólastarfi frá og með 4. maí næstkomandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá verður nemendum í framhaldsskólum heimilt að að mæta í skólann en það verður að gæta þess að ekki verði fleiri en 50  í sama rými og að tveggja metra nándarreglan verði virt.

Í FAS höfum við ákveðið að kennsla færist aftur inn í skólann og það verði tímar í flestum greinum dagana 4. – 11. maí en þá er síðasti kennsludagur annarinnar. Kennarar í hverri grein munu útfæra fyrirkomulagið nánar í næstu viku og koma upplýsingum til nemenda sinna. Þá hefur verið ákveðið að staðnemendur mæti í lokamatsviðtöl í skólanum ef mögulegt er.

Við höfum fundið fyrir því að fyrirkomulag á skólastarfi síðustu vikna hefur reynt á marga. Því datt okkur í hug að gott gæti verið að hvíla námið um stund og drífa sig út og fást við eitthvað allt annað. Eins og margir vita á að rífa gamla Sindrahúsið við hliðina á Ráðhúsinu og núna standa einungis útveggir eftir. Við fengum leyfi til að nota húsið fyrir listsköpun áður en það hverfur endanlega sjónum. Ákveðið hefur verið að þema verkefnisins verði vorið og kennarar hafa útfært hvernig staðið skuli að vinnunni. Allir nemendur munu í dag fá póst þar að lútandi og við hvetjum alla að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni.

Skólastarf hafið eftir páskafrí

Í dag hófst kennsla aftur í FAS að loknu páskafríi. Eins og fyrir páska hittast nemendur og kennarar í gegnum Teams. Það var nokkuð gott hljóð í nemendum og margir ánægðir með skólinn sé byrjaður aftur.

Það hillir þó undir breytta tíma því í dag kynntu stjórnvöld breytingar um tilslakanir á samkomubanni. Frá og með 4. maí verður leyfilegt að opna framhaldsskóla með takmörkunum.  Það finnst okkur mikið gleðiefni og munum svo sannarlega gera allt sem við getum til að uppfylla skilyrði svo nemendur okkar komist í skólann. Við munum fljótlega segja frá því hvernig skipulagið verður hjá okkur í FAS.