Nemendur í auðlinda- og umhverfisfræði fór í vettvangsferð í Lón í gær og var aðaltilgangurin að telja álftir við Lónsfjörð. Með í för voru þau Björn Gísli frá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Kristín frá Náttúrustofunni. Á leiðinni austur var komið við á urðunarstað sveitarfélagsins í Lóni. Þar tók á móti hópnum Anna Ragnarsdóttir Pederson umhverfisfulltrúi hjá sveitarfélaginu. Hún sagði hópnum frá urðunarmálum og hvernig ganga þarf frá rusli þegar það er urðað. Einnig mikilvægi þess að allir vandi vel flokkun á rusli til að sem minnst þurfi að fara á urðunarstaðinn.
Því næst var ferðinni heitið að fjörunni neðan við Hvalnes en þar er fyrsti talningarstaður í álftatalningum. Þar voru nú engar álftir en nokkuð var af æðarfugli á lóninu. Á næsta talningarstað sem er við útsýnispallinn yfir fjörðinn var heldur engar álftir að sjá. Þaðan var svo gengið í áttina að Vík og allt rusl tínt. Mest er af alls kyns plastrusli en einnig drasl sem er greinilega hent út úr bílum. Það er ótrúlegt að fólk sem á leið hjá skuli henda drykkjarumbúðum út um gluggann og þá vöktu tvær notaðar barnableyjur ekki síður athygli hópsins.
Það var ekki fyrr en komið var á síðasta talningarstaðinn að álftir sáust og voru taldir þar 310 fuglar. Í síðustu viku var þar svipaður fjöldi fugla. Ferðin í gær gekk ljómandi vel og ekki spillti gott veður fyrir.
[modula id=“12577″]
Í dag var undirritaður samningur á milli Hestamannafélagsins Hornfirðings og FAS um aðstöðu í reiðhöllinni við Stekkhól í Nesjum fyrir verknám í hestamennsku. Nám í hestamennsku við FAS hefst í haust með bóklegum áfanga en á vorönn 2022 verða kenndir þrír áfangar, einn bóklegur og tveir verklegir. Gerð er krafa um lágmarksfjölda í náminu svo það fari af stað.
Verklega kennslan verður að mestu í reiðhöllinni við Stekkhól. Námið í hestamennsku er alls 20 einingar og er byggt á námi frá Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ (FMOS).
Hér er um tímamótasamning að ræða því þetta er í fyrsta skipti sem FAS býður upp á formlegt framhaldsskólanám í hestamennsku. Námið getur nýst eitt og sér eða sem hluti af námi á framhaldsskólabraut og einnig sem hluti af námi til stúdentsprófs. Þeir sem hyggja á nám í hestamennsku þurfa að taka alla fjóra áfangana. Þá þurfa nemendur að útvega sér hest og reiðtygi fyrir verklega námið.
Þeir sem hafa áhuga á þessu námi geta sótt um það hér . Bóklegir áfangar verða skipulagðir sem fjarnám en verklegt nám verður kennt í lotum.
Það verður spennandi að sjá viðbrögð við þessari nýjustu viðbót í námsframboði FAS.
FAS og aðrar stofnanir í Nýheimum eru, og hafa á undanförnum misserum verið að vinna að verkefnum sem veitt geta fyrirtækjum innan ævintýraferðaþjónustunnar stuðning til nýsköpunar og full þörf er á slíkum stuðningi á tímum Covid-19. Ekki þarf að fjölyrða um þau gríðarlegu áhrif sem heimsfaraldurinn hefur haft á ferðaþjónustuna um allan heim og World Travel and Tourism Council (WTTC) hefur bent á að það gæti tekið ferðaiðnaðinn tíu mánuði að jafna sig eftir áfallið sem faraldurinn hefur valdið.
Þau verkefni sem unnið hefur verið að í Nýheimum snúa að því að kynna fyrir fyrirtækjum í ævintýraferðaþjónustu leiðir til að styrkja stöðu sína á margvíslegan máta, auka vöruframboð sitt eða ná til nýrra neytenda og styrkja þannig samkeppnisforskot sitt.
Nýlega lauk vinnu við verkefnin ADVENT og SUSTAIN IT þar sem stofnanir innan Nýheima tóku þátt. Í þessum verkefnum voru þróaðar leiðir til að auðvelda fyrirtækjunum aðgengi að endurmenntun í tengslum við ævintýraferðamennsku og til að styrkja stöðu fyrirtækjanna varðandi sjálfbærni. Önnur verkefni sem eru í gangi í Nýheimum núna eru SCITOUR þar sem leitast er við að þróa og kynna leiðir til að efla vísindatengda ferðaþjónustu, NICHE þar sem þróaðar eru leiðir og námsefni til að vinna með óáþreifanlegan menningararf sem leið til nýsköpunar í ferðaþjónustu og DETOUR en þar er verið að þróa og kynna stuðnings- og námsefni sem nýst getur til að þróa vöru fyrir ört stækkandi hóp ferðalanga sem leita eftir heilsueflandi ferðaþjónustuframboði.
Þessi verkefni eru öll unnin í alþjóðlegu samstarfi og eru þau styrkt af Menntaáætlun Erasmus+ og/eða Northern Periphery and Arctic Programme.
Það er von allra sem að þessum verkefnum standa að ferðaþjónustuaðilar kynni sér þá möguleika sem í þessum verkefnum felast. Hér fyrir neðan eru slóðir inn á verkefnin fyrir áhugasama til að kynna sér það sem þar er í boði:
SUSTAIN IT – http://www.sustainit.eu
ADVENT – https://adventureedu.eu
SCITOUR – https://scitour.interreg-npa.eu
NICHE – https://www.nicheproject.eu
DETOUR – https://www.detourproject.eu

Síðasta vetur var leitað til skólans til að athuga möguleika á námi í plastbátasmíði. Þá var haft samband við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki en þar hefur verið boðið upp á slíkt nám. FNV hefur unnið að því að fá plastbátasmíði sem viðurkennt starfsnám á framhaldsskólastigi og vonir standa til að þetta nám verði fullgilt fljótlega. Þau í FNV tóku erindi okkar í FAS vel og hafa nú skipulagt fyrstu skrefin í náminu. Námið er í heildina um 60 einingar og um helming verður hægt að taka í fjarnámi en verknám fer fram í staðlotum.
Nú hefur verið ákveðið að skrá þátttöku í fyrstu tvo áfangana í plastbátasmíði. Það eru áfangar í öryggis- og efnisfræði plastbátasmíði sem kenndir verða frá FNV. Kennt verður frá 8. apríl – 3. maí á mánudögum, þriðjudögum og fimmtudögum í fjarnámi í alls níu skipti. Kennsla fer fram 17:30 – 21:30. Þegar nær dregur verða gefnar nánari upplýsingar um fyrirkomulag náms og kennslu. Hægt er að sækja um hér og er umsóknarfrestur er til 18. mars.
Við hvetjum alla sem hafa áhuga að skoða spennandi möguleika og skrá sig.
FAS er einn af heilsueflandi framhaldsskólum landsins og tekur reglulega þátt í ýmis konar áskorunum sem miða að því að auka hreyfingu allra. Á hverju ári stendur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands fyrir heilsu- og hvatningarverkefni sem kallast Lífshlaupið og er ætlað að höfða til allra aldurshópa. Og í nýliðnum febrúar var tveggja vikna átak í gangi þar sem m.a var keppni fyrir framhaldsskóla þar sem þátttakendur voru 16 ára eða eldri. Keppt var í þremur flokkum eftir fjölda nemenda í skólanum. Keppt er bæði um fjölda daga og fjölda mínútna hlutfallslega miðað við heildarfjölda nemenda í skólanum og var viðmiðið eftirfarandi; 3-399 nemendur, 400-999 nemendur og 1000 nemendur og fleiri. Hreyfing í keppninni getur verið af mörgum toga. Aðalatriðið er að hreyfa sig í a.m.k. 30 mínútur í hvert sinn.
Að þessu sinni voru nemendur og kennarar í sama liði og alls skráðu sig 33 í lið FAS; 11 starfsmenn og 22 nemendur. Þann 26. febrúar síðastliðinn hélt Íþrótta- og Ólympíusambandið uppskeruhátíð og þar kom í ljós að FAS hafnaði í öðru sæti í sínum flokki, bæði í fjölda daga og fjölda mínútna. Skólinn fékk senda verðlaunaskildi sem munu verða hengdir upp í skólanum.
Vel gert hjá okkur í FAS. Öll vitum við að hreyfing er góð fyrir alla og stuðlar að vellíðan. Höldum því áfram að hreyfa okkur reglulega.
Eins og við sögðum frá fyrr í þessari viku voru árlegir opnir dagar í FAS frá mánudegi til miðvikudags. Það var margt sem nemendur fengust við þessa daga og hér má sjá dæmi um hvað var gert.
Hér má sjá kynningu frá hóp sem vann með þemað útivist
Hér má sjá kynningu frá hóp sem vann með þemað föndur list og menning
Hér má sjá kynningu frá hóp sem vann með þemað TikTok
Hápunktur skólaársins var í gærkveldi en þá var haldin árshátíð FAS í Sindrabæ. Einn hópanna á opnum dögum hefur veg og vanda að því að skipuleggja árshátíðina og sjá um skemmtiatriði. Það má með sanni segja að vel hafi tekist til. Í byrjun gættu árshátíðargestir sér á gómsætum smáréttum frá Kaffihorninu. Þá tók við fjöldasöngur sem nokkrir nemendur stýrðu. Í lokin voru svo skemmtiatriði þar sem var farið yfir það helsta á liðnu ári og sýnt myndband með alls kyns sprelli.
Takk krakkar fyrir góðar stundir í þessari viku.