Tíundi bekkur heimsækir FAS

Í dag fengum við góða gesti í heimsókn en það voru nemendur í 10. bekk grunnskólans. Þeir voru hingað komnir til að kynna sér skólann enda orðið stutt eftir af grunnskólagöngunni og kominn tími til að athuga næstu skref í leik og starfi. Krökkunum var boðið í súpu og nýbakað brauð og var nemendum FAS og kennarahópnum einnig boðið í mat. Á meðan á snæðingi stóð kynntu forsvarsmenn nemendafélagsins félagslífið í skólanum.

Eftir matinn kynnti Svala námsráðgjafi hvernig námið í FAS er byggt upp og hvað er hægt að læra hér hjá okkur. Hún fór einnig yfir það hvenær og hvernig er hægt að skrá sig í nám í framhaldsskóla.

Við þökkum krökkunum kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta hér næsta haust.

 

Tökum ábyrgð og verum græn

Í dag fengum við góðan gest til okkar til þess að ræða um umhverfismál og mikilvægi þeirra. Þetta var Guðrún Schmidt sem er sérfræðingur í menntateymi Landverndar. Hún er hingað komin til að fjalla bæði um Grænfánann og Græn skref en sífellt fleiri stofnanir tengjast þeim verkefnum.

Guðrún byrjaði á því að ræða við kennarahópinn en eftir hádegi hitti hún nemendur. Í umfjöllun sinni kom hún víða við. Hún hefur tekið eftir að FAS er að gera margt gott í því að auka umhverfisvitund nemenda og starfsfólks. Hún nefndi sérstaklega vöktunarverkefni skólans og þátttöku í verkefni sem heitir Umhverfisfréttafólk en þar hefur FAS verið með frá upphafi. Auk þess að fræða hópana talaði hún um helstu áskoranir sem alir standa frammi fyrir í tengslum við loftslagsbreytingar. Og þar skiptir svo sannarlega máli að allir verði meðvitaðir um að margt smátt geri eitt stórt. Og víst er að þar geta allir tekið sig á.

Við þökkum Guðrúnu kærlega fyrir komuna og að ræða við okkur um mikilvæg mál.

Fjölbreytt fræðsla mikilvæg

Allir eru sammála um nauðsyn þess að fræða nemendur um alls kyns mikilvæg mál. Og við hér í FAS reynum að koma fræðslu að þegar tækifæri gefst.

í þessari viku fengum við góða gesti til okkar sem áttu heldur betur við okkur erindi. Annars vegar fengum við Kára Sigurðsson og Andreu Marel með fræðslu um sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti kynjanna. Þau ræddu bæði við nemendur og starfsfólk og komu víða við. T.d. hvað það er sem hefur áhrif á okkur frá degi til dags, mikilvægi þess að sýna hvert öðru virðingu og virða mörk annarra. Þetta á að sjálfsögðu við bæði í daglegu lífi og netheimum. Þau sýndu okkur mörg dæmi þess þegar stafrænt ofbeldi fer úr böndunum á samfélagsmiðlum og hvaða áhrif það getur haft á einstaklinga.

Í seinni kynningunni var verið að kynna rafíþróttir og það var íþróttafélagið okkar Sindri sem stóð fyrir þessari kynningu. Til okkar komu Aron Ólafsson og Eva Margrét Guðnadóttir frá RÍSÍ (Rafíþróttasamband Íslands). Með þeim voru fulltrúar frá rafíþróttadeildinni hér á Höfn. Þau fjölluðu í kynningu sinni um jákvæða upplifun af tölvuleikjaspilun, hvernig samfélög geta stuðlað að jákvæðari upplifun og hvernig æskilegt sé að spila leiki á agaðan en um leið skemmtilegan hátt. Rafíþróttadeildin hér á Höfn starfar undir merkjum Sindra og þar er starfsemin vaxandi og mikil áhersla lögð á gagnkvæma virðingu og íþróttamannslega hegðun.

Við þökkum gestunum fyrir góða og mikilvæga fræðslu.

 

Fyrsta fuglatalning vetrarins

Það hefur verið fastur liður um margra ára skeið að nemendur í umhverfis- og auðlindafræði skoði fugla. Staðnemendur fara nokkrum sinnum út í Ósland til að telja en fjarnemendur geta farið á staði í sínu nærumhverfi og velt fyrir sér hvaða fuglategundir þeir sjái og reynt að slá á þá tölu. Samsetning hópsins í umhverfis- og auðlindafræði að þessu sinni er nokkuð sérstök en mun fleiri fjarnemendur eru skráðir en staðnemendur.

Í dag var komið að fyrstu fuglaskoðun annarinnar og eins og oftast áður njótum við fulltingis Björns Gísla hjá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. Auk þess að telja fugla að þá er margt annað sem er vert að velta fyrir sér eins og t.d. hvort fuglarnir séu staðfuglar eða farfuglar. Stundum sjáum við líka svokallaða umferðarfugla sem þá hafa staldrað við í einhvern tíma áður en lengra er haldið. Við erum líka að reyna að sjá mun á karlfuglum og kvenfuglum, hvort fugl sé ungur eða gamall og svo mætti lengi telja. Að sjálfsögðu spáum við líka í veðrið og hvort sé að flæða að eða út.

Það kom hópnum í dag verulega á óvart að í dag var 15 tegundir að sjá sem töldu ríflega 500 einstaklinga. Fyrir ferðina höfðu einhverjir á orði að það myndi nú örugglega ekki sjást mikið í veðri eins og í dag.

Umsjónarfundur og foreldrafundur

Nú er skólastarf vorannarinnar að komast í fullan gang og farið að skýrast hvaða áfanga nemendur ætla að taka. Það er alltaf eitthvað um það að langtímaplön nemenda breytist á milli anna. Því er mikilvægt að skoða stöðuna og breyta ef þarf. Þess vegna hafa staðnemendur verið boðaðir á umsjónarfund á morgun, fimmtudag klukkan 13:20 – 14:05.

Það er líka mikilvægt að upplýsa foreldra. Það verður foreldrafundur á morgun, fimmtudag 11. janúar. Sá fundur verður á Nýtorgi á milli 17 og 18 og verður farið yfir það markverðasta er varðar nýbyrjaða önn. Skólinn býður upp á súpu á fundinum. Við hvetjum foreldra til að mæta, fræðast og taka þátt í umræðum.

Við viljum vekja athygli á því að síðasti dagur fyrir töflubreytingar á þessari önn er föstudagurinn 12. janúar.

Hraðtafla vorannar 2024 – 5. janúar

Hægt er að sjá hraðtöflu fyrir fyrsta kennsludag 5. janúar hér fyrir neðan. Kennsla hefst kl 08:30 og hver kennslustund er 20 mínútur þar sem kennarar fara yfir helstu áherslur í áfanganum.