Nemendur á listasviði með spuna

Um nokkurra ára skeið hefur verið hægt að leggja stund á ýmis konar listir í FAS. Það nám er hluti af kjörnámsbraut við skólann. Meðal þess sem hægt er að læra eru; sjónlistir, sviðslistir, hönnun og kvikmyndagerð.

Á þessari önn eru bæði sjónlistir og sviðslistir í boði á námsframboði skólans. Nemendur í sviðslistum taka námið í svokölluðum spönnum en þá er farið hraðar yfir en hefðbundið er og á einni önn farið í efni tveggja áfanga.

Nú er komið að lokum fyrstu spannar í sviðslistum og af því tilefni buðu nemendur kennurum og starfsfólki skólans á sýningu til að sýna afrakstur vinnunnar undanfarið. Þar hefur mikið verið unnið með spuna og hafa nemendur mest verið í því að skapa efni, bæði hver og einn og eins í samvinnu við aðra í hópnum.

Það er skemmst frá því að segja að sýningin í dag gekk ljómandi vel, var skemmtileg og sýndu nemendur á sér nýja hlið. Takk fyrir skemmtilega sýningu.

Góðir gestir í heimsókn í FAS

Það er mikið um að vera þessa vikuna í FAS því við erum með heimsókn frá samstarfsskólunum í nýjasta nemendaskiptaverkefninu okkar. Það verkefni fjallar um nýtingu á náttúrulegum auðlindum og ber nafnið Natural Resources and how to utilize these in rural areas in Finland, Iceland and Norway. Þetta er tveggja ára verkefni og farið er í heimsókn til eins þátttökulands á hverri önn og var fyrsta heimsóknin til Íslands. Frá hverju landi eru 10 nemendur og samskiptamálið í verkefninu er enska.

Gestirnir komu til landsins á sunnudag og til Hafnar seinni partinn í gær. Á meðan hópurinn dvelur hér verður farið í heimsóknir og skoðunarferðir. Þá verða einnig unnin verkefni sem tengjast nýtingu náttúrulegra auðlinda í löndunum þremur.

Hópurinn fer af stað til Keflavíkur seinni partinn á fimmtudag og flýgur utan á föstudagsmorgni. Verkefnið hefur sérstaka vefsíðu og þar er sagt frá því helsta er varðar verkefnið. Meðfylgjandi mynd var tekin í morgun þegar hópurinn fór í heimsókn til Skinneyjar-Þinganes.

Gengið um Víknaslóðir

Vel lukkuðum rötunar- og útivistaráfanga í fjallanámi FAS lauk fyrr í þessum mánuði. Þar fengu nemendur að spreyta sig í undirbúningi og framkvæmd á fjögurra daga göngu í óbyggðum.

Ferðinni var heitið á Víknaslóðir þar sem gengnir voru ýmsir slóðar frá Borgarfirði til Seyðisfjarðar. Meðal námsþátta var gerð leiðarkorts, veðurathuganir, næturrötun og hópastjórnun.

Veðrið lék að mestu við hópinn en kærkomin þoka gerði þó vart við sig öðru hvoru sem reyndi á góðan undirbúning, landslagslestur og notkun á áttavita.

Kennarar voru: Tómas Eldjárn, Svanhvít Helga, Michael R. Walker, Árni Stefán og Íris Ragnarsdóttir.

Jákvæð samskipti í FAS

Þessa vikuna stendur yfir íþróttavika í sveitarfélaginu okkar. Markmiðið með íþróttavikunni er að kynna íþróttir og hreyfingu fyrir alla og er lögð áhersla á allir geti stundað einhvers konar íþróttir. Þar skiptir aldur, bakgrunnur eða líkamlegt ástand ekki máli. Það er hins vegar staðreynd að öll íþróttaiðkun er líkleg til að stuðla að bættri líðan.

Að sjálfsögðu er FAS með í íþróttavikunni og tekur þátt í viðburðum. Í dag kom til okkar Pálmar Ragnarsson fyrirlesari og körfuknattleiksþjálfari með fyrirlestur um jákvæð samskipti. Þar fjallaði hann á skemmtilegan hátt um hversu mikilivæg samskipti eru og mikilvægi þess fyrir alla að fá hrós.

Við þökkum Pálmari kærlega fyrir komuna og við förum svo sannarlega fróðari um mikilvægi jákvæðra samskipta út í daginn.

 

Jökla 2 AIMG námskeið

Þrír nemendur Fjallamennsku FAS stóðust á dögunum próf Félags Íslenskra Fjallaleiðsögumanna í Jöklaleiðsögn 2. Þetta var annað af þremur prófum sem hægt er að taka á þessu sviði og það síðasta sem boðið er upp á fyrir nemendur FAS.

Einungis þeir nemendur sem hafa þegar verið í vinnu á skriðjökli í 30 daga hið minnsta og auk þess lagt sig fram um að bæta og viðhalda tæknilegri færni eru gjaldgengir á þetta próf.

Við í FAS óskum þeim Jökli, Ástu og Maríuönnu til hamingju með áfangann.

Skólafundur í FAS

Reglulega eru haldnir svokallaðir skólafundir í FAS. Þá hittast nemendur og starfsfólk skólans og ræða mikilvæg mál er varða skólann.

Skólafundur haustannarinnar var haldinn í morgun. Lind skólameistari setti fundinn og lagði áherslu á hversu mikilvægt er að raddir nemenda sem og annarra heyrist. Fyrir fundinn hafði fundargestum verið skipt upp í hópa þar sem ræða átti ákveðin atriði undir stjórn svokallaðra málstofustjóra. Meðal þess sem var rætt var nýr áfangi í framboði skólans sem kallast „Inngangur að framhaldsskóla“. Þá var rætt um hvernig efla megi starfssemi og þátttöku í félagslífi skólans. Í einni málstofunni var verið að fara yfir helstu umgengisreglur við notkun á gervigreind og í annarri málstofu var verið að skoða hver einkunnarorð skólans ættu að vera.

Skólafundurinn gekk ljómandi vel og margar spennandi hugmyndir komu fram. Á næstunni verður farið yfir niðurstöður fundarins og þær kynntar í lok mánaðarins.