Landvarðanám í FAS

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á nám í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Námið er blanda af fjarnámi og staðnámi. Bóklegi hluti námsins fer fram í fjarnámi í formi fyrirlestra og erinda frá sérfræðingum á ýmsum sviðum sem snerta náttúruvernd og landvörslu. Verklegi hluti námsins fer fram í staðnámi dagana 3.-7. apríl á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs (VJÞ), þ.e. Skaftafelli og Jökulsárlóni.

Námið byggir á námskrá Umhverfisstofnunar (UST) og spannar 110 kennslustundir. FAS hefur yfirumsjón með áfanganum en aðrir kennarar eru sérfræðingar í náttúruvernd og landvörslu og koma frá stofnunum sem sinna þeim málaflokkum á landinu. FAS vinnur náið með Vatnajökulsþjóðgarði og koma sérfræðingar og landverðir frá VJÞ að kennslu í áfanganum.

Þau sem ljúka áfanganum öðlast rétt til að starfa sem landverðir á Íslandi en námslok eru þó ekki trygging þess að hljóta vinnu sem landvörður.

Bóklegi hluti námsins fer fram á Námsvef FAS og er í formi fyrirlestra og erinda ásamt heimaverkefna. Búast má við rauntímaþátttöku í einstaka fyrirlestrum. Í staðlotunni verður lögð áhersla á að nýta þekkingu sem nemendur hafa öðlast og þekkingin sett í raunverulegar aðstæður og verklegar æfingar. Nemendur eiga að gera ráð fyrir útiveru í öllum veðrum í staðlotunni.

Öll sem hafa áhuga á náttúru, náttúruvernd, fjallamennsku og útivist eru hvött til að sækja um en umsækjendur verða metnir inn á námskeiðið eftir hæfni. Stór hluti starfsins sem landverðir sinna felst í samskiptum við fólk og því er mikilvægt að umsækjendur hafi ánægju af að vinna með fólki. Nemendur verða að hafa náð 18 ára aldri og hafa gild fyrstu hjálpar skírteini.

Áfanginn verður kenndur á íslensku og ensku sem ræðst af samsetningu umsækjenda. Nemendur hafa val um að skila verkefnum á ensku ef þeir kjósa svo.

Verð fyrir námið er 135.000 kr. fyrir nemendur sem ekki stunda nám í Fjallanámi FAS.

Íris Ragnarsdóttir Pedersen er umsjónarkennari áfangans og tekur við öllum spurningum á netfanginu irispedersen@fas.is

Athugið: Áfanginn verður einungis kenndur ef nægjanlegur fjöldi nemenda skráir sig. Skólinn áskilur sér rétt til að fella niður áfangann ef ekki næst tilskilinn lágmarksfjöldi þátttakenda. Umsóknarfrestur rennur út 18. desember.

Umsókn um nám í landvörslu *

Umsókn um nám í landvörslu

Umsækjandi

Umsækjandi
reCAPTCHA is required.