Jólafrí og upphaf vorannar

Í dag lýkur starfi haustannar formlega og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Þá er líka komið jólafrí í skólanum sem er örugglega kærkomið hjá flestum.

Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 6. janúar klukkan 8:30 en þá eiga nemendur að mæta hjá umsjónarkennurum sínum. Klukkan 9:00 verður kennt eftir hraðtöflu þar sem verður farið yfir skipulag annarinnar í hverjum áfanga. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 7. janúar.

Starfsfólk FAS sendir nemendum sínum sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðileg jól og vonar að nýtt ár verði farsælt og gefandi.

Námskeið í landvörslu í FAS

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á námskeið í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir.

FAS fékk hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þetta námskeið. Námið byggir á námskrá Umhverfisstofnunar (UST) og spannar 110 kennslustundir og verður blanda af fjarnámi og staðnámi. Bóklegi hluti námsins fer fram í fjarnámi í formi fyrirlestra og erinda frá sérfræðingum á ýmsum sviðum sem snerta náttúruvernd og landvörslu. Verklegi hluti námsins fer fram í staðnámi dagana 3. – 7. apríl á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs (VJÞ), þ.e. í  Skaftafelli og hjá Jökulsárlóni.

Hér er hægt að nálgast nánari uppýsingar um námskeiðið og einnig að sækja um. Það er Íris Ragnarsdóttir Pedersen sem verður umsjónarkennari námskeiðsins og hún tekur við öllum spurningum á netfanginu irispedersen@fas.is

Meðfylgjandi mynd sýnir landvörð kanna aðstæður í einum af íshellum Vatnajökulsþjóðgarðs.

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Þjálfarar yngri landsliða Íslands hafa tilkynnt fyrstu æfingahópa sína fyrir komandi verkefni. Meðal þeirra sem fengu kallið í æfingahóp U18 drengja er Hilmar Óli Jóhannsson, nemandi á afreksíþróttasviði Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Hilmar Óli er í 11. flokki Sindra í körfubolta og spilar einnig með meistaraflokki.

Æfingar hópsins fara fram rétt fyrir jól og eru mikilvægt skref í undirbúningi landsliðsins fyrir komandi keppnistímabil. Þetta er frábær viðurkenning á hæfileikum og vinnusemi Hilmars Óla, sem hefur lagt hart að sér bæði á körfuboltavellinum og í námi á afreksíþróttasviðinu í FAS.

Við óskum Hilmari Óla innilega til hamingju með valið og hlökkum til að fylgjast með honum á komandi æfingum og verkefnum með landsliðinu!

Jólamatur í FAS

Nú stendur yfir síðasta heila kennsluvika haustannarinnar. Í FAS hefur skapast sú hefð að bjóða nemendum og starfsfólki í sameiginlega jólamáltíð í lok annar. Það var því margt um manninn á Nýtorgi í dag þar sem var boðið upp á hangikét og meðlæti. Margir matargestanna klæddust jólalegum fatnaði og einhverjir fundu aðra leið til minna á að jólin séu að nálgast.

Matnum voru gerð góð skil og allir áttu notalega stund saman. Framundan er svo lokatörnin þar sem nemendur eru að skila námsgögnum og fara í lokamatsviðtöl.

Skyndihjálparnámskeið hjá fjallamennskunemendum

Síðasta áfanganum hjá öðru árinu í fjallamennskunámi FAS lauk núna í lok nóvember. Áfanginn sem var kenndur á Höfn kallast Fyrsta hjálp í óbyggðum og er 8 daga fagnámskeið í fyrstu hjálp sem býr nemendur undir það að geta metið og sinnt bráðum tilfellum í óbyggðum og tekið ákvörðun um hvort um neyðarflutning sé að ræða.

Áfanginn er byggður upp af verklegum tilfellaæfingum, vinnustofum og fræðilegri kennslu. Að loknum áfanganum fengu nemendur heimild til að beita ákveðnum vinnureglum í óbyggðarsamhengi eins og að setja fólk aftur í axlarlið, hreinsa sár, bregðast við bráðaofnæmi og alvarlegu astmakasti með lyfjagjöf.

Kennslan fór bæði fram inni í kennslustofunni á Höfn og nágrenni en einnig var farin vettvangsferð í Hvanngil í Lóni þar sem reynt var á hæfni nemenda til að kljást við fjölbreytt verkefni eins og beinbrot og bráð veikindi en sögusvið æfingar var háfjallaskíðaferð. Nemendur enduðu áfangann á skriflegu og verklegu prófi sem allir stóðust með prýði.

Kennarar í áfanganum voru: Gunnar Agnar Vilhjálmsson og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson.

Skuggakosningar í Sveitarfélaginu Hornafirði

Það hefur líklegast ekki farið fram hjá mörgum að um næstu helgi á að kjósa til Alþingis. Allir þeir sem eru orðnir 18 ára og hafa íslenskt ríkisfang mega kjósa. Margir væntanlegir kjósendur eru þó farnir að velta fyrir sér hvar þeirra pólitísku áherslur liggi og myndu kjósa ef þeir mættu. Til að bregðast við þessu hefur nokkrum sinnum verið efnt til svonefndra skuggakosninga þar sem krakkar sem eru fæddir á bilinu 2006 – 2011 fá að kjósa.

Í dag stóðu fulltrúar í ungmennaráði sveitarfélagsins fyrir kynningarfundi í Nýheimum og var fundurinn fyrir nemendur í 8.  – 10. bekk grunnskólans og nemendur FAS. Þar mættu ýmist frambjóðendur eða fulltrúar flestra þeirra framboða sem bjóða fram til Alþingis að þessu sinni. Hvert framboð fékk 2 mínútur til að kynna sín helstu stefnumál og í lokin gafst fundargestum tækifæri til að spyrja spurninga. Fulltrúar framboða voru ýmist í sal eða á fjarfundi í Teams.

Skuggakosningarnar verða haldnar 28. og 29. nóvember og kjörstaðir verða þrír í sveitarfélaginu; þ.e. í Heppuskóla, FAS og í Þrykkjunni. Það eru fulltrúar ungmennaráðs sem sjá um framkvæmd kosninganna. Að sjálfsögðu hvetjum við alla nemendur til að kynna sér stefnumál flokkanna og kjósa í kjölfarið. Það verður spennandi að sjá úrslit skuggakosninganna.