Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS fer fram laugardaginn 25. maí í Nýheimum. Athöfnin hefst að þessu sinni klukkan 12:30. Það verða útskrifaðir stúdentar og einnig nemendur úr fjallamennskunámi FAS.

Allir eru velkomnir á meðan að húsrúm leyfir og við vonumst til að sjá sem flesta.

Nýtt nemendaráð kynnt

Það er heldur betur farið að styttast í yfirstandandi skólaári og þá er ekki seinna að vænna en að fara að huga að næsta skólaári. Undanfarin ár hefur nemendaráð verið kynnt í lok skólaárs.

Að þessu sinni kom eitt framboð og það því sjálfkjörið. Það eru þær Helga Kristey, Isabella og Nína Ingibjörg sem að bjóða fram krafta sína í þágu skólans og þær kynntu sig og sín stefnumál í löngu pásunni í morgun. Þær kalla sig „sveitalúxusjullurnar“ og eru þar að vísa til upprunans. Helga Kristey ætlar að vera forseti nemendafélagsins, Nína Inigbjörg varaforseti og Isabella verður hagsmunafulltrúi SÍF fyrir skólans hönd. Þær lofa alls kyns sprelli og fjöri en til þess að svo megi verða þurfa nemendur að vera virkir og taka þátt í félagslífi skólans.

Við óskum þeim stöllum til hamingu og hlökkum til að fylgjast með félagslífinu á næsta skólaári.

 

Klettaklifur í fjallamennskunámi FAS

Dagana 3. – 6. maí fór fram valáfangi í klettaklifri fyrir nemendur í grunnnámi fjallamennsku FAS. Að þessu sinni hittumst við á höfuðborgarsvæðinu og klifruðum á fjölbreyttum svæðum í kringum höfuðborgina en það er skemmtilegt fyrir nemendurna að kynnast fjölbreyttum klifursvæðum um allt land.

Áfanginn hófst í Miðgarði í Garðabæ en þar er frábær aðstaða til að stunda línuklifur innandyra. Þar var farið í leiðsluklifur, fallæfingar og ýmsa línuvinnu sem tengist klifri í fjölspannaleiðum. Á laugardeginum var haldið í Stardal í Mosfellsdal en svæðið má segja að sé paradís dótaklifrarans. Engir boltar eru á svæðinu og því þarf að tryggja allt með hefðbundnum tryggingum, hnetum og vinum. Þar fengu nemendur tækifæri til að leiða fjölspanna klifurleið, setja inn dótatryggingar, tryggja aðra klifrara upp til sín og reyna sig við hinar ýmsu leiðir. Á sunnudeginum héldum við út á Reykjanes í Háabjalla, þar er skjólsælt og gott að klifra og ekki skemmdi fyrir að nemendurnir mættu með grill og pyslur í hádegismat og grilluðu fyrir okkur öll. Svæðið hentar mjög vel fyrir byrjendur og er vel boltað sem gerir það að verkum að leiðsluklifrið er á færi allra. Við enduðum áfangann inni í Klifurhúsinu í Ármúla en þar fórum við yfir klifurtækni og æfingar sem gott er að vinna áfram með. Þökkum kærlega fyrir góðar móttökur þar.

Hópurinn stóð sig með prýði og mörg þeirra halda í lok mánaðarins til Lofoten í Noregi í klifurferð með FAS og eru því mjög spennt fyrir að æfa vel fyrir ferðina.  

Takk fyrir okkur, Dan, Íris og Ívar. 

 

Haus hugarþjálfun og FAS í samstarf

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu og Haus hugarþjálfun hafa gert með sér samkomulag um að nemendur á afreksíþróttasviði FAS hafi aðgang að Haus hugarþjálfunarstöð.  Þar læra nemendur að setja sér góð markmið, auka sjálfstraust og bæta einbeitingu en þetta eru allt þættir sem afreksíþróttafólk þarf að leggja áherslu á til að ná árangri í sinni íþrótt. Samstarfið tekur gildi frá og með næstu haustönn.

FAS fagnar þessu samstarfi og vonar að það muni styrkja og efla nemendur og hjálpa þeim að ná enn þá lengra í sinni íþrótt.  

Hájöklaferð í fjallanáminu

Þann 21. apríl lagði grunnnámshópur fjallanámsins af stað í leiðangur upp á Hrútsfjallstinda. Nemendur voru fimmtán talsins auk þriggja kennara  og var veðurspá með besta móti og stóð til að gista upp frá í þrjár nætur. Það þýddi að bakpokar voru þungir en samt sem áður voru allir léttir í lund.

Fyrsti dagurinn var langur og náði hópurinn undir Vesturtind, skellti þar upp tjöldum og skriðu allir í svefnpoka til að hvíla lúin bein. Annan daginn gengum við upp á Vesturtind og æfðum sprungubjörgun fyrir hádegi, hádegismatur var svo snæddur í tjaldbúðum. Eftir hádegi skipti hópurinn sér upp í fjögur teymi sem klifu Hrútsfjallstindana þrjá sem eftir voru (á eftir Vesturtindi), Hátind, Miðtind og Suðurtind í veðurblíðunni.

Þriðja daginn pakkaði hópurinn saman tjöldum og hélt í átt að Hvannadalshnjúk. Þar skelltum við upp tjaldbúðum undir vesturhlíð hnjúksins áður en við gengum skotspöl að næstu sprungu til þess að æfa sprungubjörgun þar sem fleiri en eitt teymi aðstoðaði við björgunina. Veðrið var einstaklega gott þetta kvöld svo hópurinn útbjó hringlaga útieldhús þar sem mannskapurinn naut matar, söng og dansaði.

Síðasta daginn gekk hópurinn niður Virkisjökulsleiðina í mikilli sól og hita. Við vorum ánægð að komast til byggða eftir fjóra langa en góða daga á jöklinum. Heilt yfir var ferðin ógleymanleg og heilmikið ævintýri sem bæði reyndi á líkamlegt og andlegt þol. Hópurinn stóð sig með stakri prýði og styrktist enn meira og þéttist við þessa áskorun.  

 Kennarar í ferðinni voru Íris Ragnarsdóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Ólafur Þór Kristinsson. 

Umhverfisdagur Nýheima

Það er vel við hæfi á síðasta degi vetrar að taka til hendinni og hreinsa og tína drasl sem hefur fallið til í vetur. Eins og svo oft áður efndu íbúar Nýheima til hreinsunardags þar sem allir sem geta leggja hönd á plóg. Það er búið að tína rusl, sópa, hreinsa á milli gangstéttarhellna og reita illgresi. Ekki spillir fyrir að veðrið er ljómandi gott og hentar vel til útiveru.

Eftir gott hreinsunarstarf var öllum boðið upp á grillaða hamborga og þeim voru gerð góð skil.

Við erum ánægð með afrakstur vinnunnar getum við tekið vel á móti sumardeginum fyrsta sem er á morgun. Gleðilegt sumar öll og takk fyrir veturinn.