Ferð í Haukafell 17. september

Við sögðum frá ForestWell menntaverkefninu í síðustu viku og fyrirhugaðri ferð í Haukafell í tengslum við verkefnið.

Nú hefur verið ákveðið að fara í ferðina þriðjudaginn 17. september og hafa nemendur og starfsfólk fengið póst þar að lútandi og eru allir beðnir um að lesa þann póst vel og vandlega. Ef það skyldu verða breytingar verður það tilkynnt.

 

 

ForestWell menntaverkefnið

ForestWell er eitt af þeim fjölmörgu Erasmus+ menntaverkefnum sem FAS hefur tekið þátt í. Í ForestWell verkefninu er unnið er að gerð námsefnis í samstarfi menntastofnanna og fyrirtækja á sviði markaðsmála og stafrænna lausna frá Danmörku, Finnlandi, Írlandi, Íslandi og Slóveníu.

Markmið ForestWell verkefnisins er að vinna rafræna náms- og þjálfunarpakka fyrir ferðaþjónustu-, upplifunar- og heilsueflingarfyrirtæki auk menntastofnanna.

Megininntak námsefnisins er að benda á leiðir til að nýta velferðaráhrif skógar- og kjarrlendis til heilsueflingar og atvinnusköpunar annars vegar, og stuðla að velferð skóga og gróinna svæða hins vegar. Talsvert af námsefni er nú þegar komið á heimasíðu verkefnisins og eru lesendur hvattir til að líta þar inn og t.d. prófa í snjallsímum sínum að fræðast um skóga með aðferðum AR (Augmented Reality) eða viðbætts veruleika. Rétt er þó að taka það fram að heimasíðan er enn í vinnslu og því hnökra að finna hér og þar.

Samstarf þátttökuaðila verkefnisins fer að mestu fram rafrænt en þó hafa verið haldnir verkefnafundir í raunheimum í Finnlandi, Slóveníu og Írlandi. Í byrjun júní sl. hafði verið blásið til sambærilegs fundar hér á Höfn en skemmst er frá því að segja að íslenska vorið tók á móti fundargestum á frekar kaldranalegan máta og komust þeir ekki lengra en á Selfoss þar sem öllum leiðum til Hafnar hafði verið lokað vegna veðurs. Þessi fundur fór því að hluta fram á netinu og í skólastofu á Selfossi. Finnski þátttakandinn dvaldi hér á landi í nokkra daga eftir að fundinum og vinnu í tengslum við hann lauk og hefur á síðu ForestWell birt skemmtilega grein um heimsókn sína til Íslands sem lesa má hér. Myndin sem fylgir fréttinni er einmitt frá fundinum sem halda átti á Höfn.

ForestWell verkefninu lýkur á komandi vori en nú í haust verður blásið til viðburðar þar sem nemendur og starfsfólk FAS og nemendur og kennarar 6. og 7. bekkjar í Grunnskóla Hornafjarðar auk annarra áhugasamra aðila fara í Haukafell og planta þar 100 skógarplöntum og til að njóta þess góða ræktunarstarfs sem Skógræktarfélag Austur – Skaftafellssýslu hefur unnið á liðnum árum.

Viðburður þessi verður auglýstur á miðlum FAS þegar nær dregur og eru áhugasamir hvattir til að fylgjast með og taka þátt í skemmtilegum skógardegi.

HeimaHöfn – Vinnustofur í FAS

Það er heldur betur búið að vera líflegt í FAS í dag og margt um manninn. Í dag var haldin fyrsta vinnustofan í verkefninu HeimaHöfn en það er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Verkefnið felur í sér náið samstarf með ungu fólki, fulltrúum úr atvinnulífinu, skólum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu. Meðal annars verður unnið að miðlun upplýsinga um fjölbreytt tækifæri til menntunar og atvinnu á svæðinu. Og allt miðar þetta að því að unga fólkið okkar viti hvaða möguleika og tækifæri þau hafi í framtíðinni en geti um leið valið að búa áfram í sveitarfélaginu okkar. Það eru þær stöllur Hugrún, Kristín Vala og Nejra sem stjórna för í verkefninu.

Það voru nemendur í 9. og 10 bekk grunnskólans auk staðnemenda í FAS sem tóku þátt í vinnustofunum í dag. Hópnum hafði verið skipt í sex smærri hópa og átti hver hópur að fjalla um ákveðin atriði eða leysa ákveðin verkefni enda er það mikilvægt að heyra raddir ungmennanna okkar. Vinnan hófst í morgun þar sem Kristín Vala fór yfir það sem væri fram undan og til hvers væri ætlast af þátttakendum. Í hádeginu var boðið upp á málsverð á Nýtorgi.

Það er skemmst frá því að segja að vinnan í dag tókst ljómandi vel og krakkarnir voru vel virkir og komu sínum sjónarmiðum á framfæri. Það verður gaman að fylgjast þessu verkefni á næstu vikum og mánuðum.

Burt með allt ofbeldi

Við höfum ekki farið varhluta af umræðu um aukið ofbeldi í þjóðfélaginu síðustu daga og vikur. Það er mikilvægt að allir taki höndum saman um að sporna við öllu ofbeldi. Bleikur litur er orðinn tákn þess að ofbeldi verði aldrei samþykkt.

Undanfarna daga hafa sést víðs vega myndir í fréttum og á samfélagsmiðlum sem sýna samstöðu gegn ofbeldi. Að sjálfsögðu sýnum við í FAS samstöðu og í dag mátti sjá marga skarta bleikum lit. Þeim sem voru í húsi í löngu pásunni fyrir hádegi var hóað saman til myndatöku.

Klettar og línuvinna

Veðrið gaf góðan tón í byrjun skólaárs á fyrsta námskeiði hjá glænýjum hóp í Fjallamennskunáminu. Kennurum til stórkostlegrar undrunar var þurrt alla dagana nema þann fyrsta, en það gerði ekkert til. Meira að segja júmmæfingar á Skeiðarárbrú fóru fram í sól og blíðu sem er yfirleitt geymt fyrir rigningardaga á þessu námskeiði. 

Og þegar veðrið er gott þá leikur lífið við klifrara en nemendur fengu tækifæri til þess að klifra eins og þau lysti. Nýir nemendur sýndu klifuríþróttinni mikinn áhuga og voru mörg farin að leiða allskonar leiðir á Hnappavöllum undir lok námskeiðs.  

Það var ekki bara klifrað en áfanginn leggur mesta áherslu á línuvinnu á borð við sig og júmm, uppsetningu bergtrygginga og að sjálfsögðu var lögð mikil áhersla á góða tækni þegar kemur að því að tryggja klifrara. Að kunna að síga er mikilvægt í fjallamennsku, hvort sem það er í klifri eða jöklaferðamennsku. Sigið var æft á Hnappavöllum, þá æfðu þau tæknina fyrst í brattri brekku áður en þau sigu fram af Miðskjóli á bergtryggingum sem þau smíðuðu sjálf undir handleiðslu kennara. Eins og kom fram þá spreyttu þau sig í júmmi (línuklifri) á Skeiðarárbrúnni sem nýtist vel ár hvert á þessu námskeiði þó hún nýtist ekki lengur sem brú. Línuklifrið munu þau síðan æfa enn frekar í jöklaferð sem verður haldin í október og loks í vor á AIMG Jöklaleiðsögn 1 sem hluti af sprungubjörgunarprófi. Þannig leggur þessi áfangi áherslu á helstu grunnatriði í línuvinnu sem mun gagnast þeim sem frábær grunnur inn í námskeið vetrarins.  

Hnappavellir skörtuðu sínu fegursta þessa vikuna og við kennararnir erum himinlifandi með árangurinn. Nýi hópurinn er virkilega sterkur og stemningin í hópnum frábær. Við vonum að okkur hafi tekist að vekja áhuga hjá nemendum á hinum magnaða heim klettaklifurs, að þau haldi áfram að æfa klifur í vetur og mæti fersk í klifurvaláfangann í vor. 

Við þökkum fyrir frábæra viku og samveru. Það verður gaman að kynnast öllum enn betur í vetur, þegar alvaran tekur við. Á fjöllum og jöklum í öllum veðrum, þá reynir fyrst á hópinn en jafnframt styrkjast böndin hvergi betur en á fjöllum. 

Kennarar voru Árni Stefán Haldorsen, Erla Guðný Helgadóttir, Íris Ragnarsdóttir Pedersen og Ólafur Þór Kristinsson. 

 

 

Námsferð á Skeiðarársand

Staðnemendur í inngangsáfanga að náttúruvísindum fóru á Skeiðarársand í gær, fimmtudag, til að vitja gróðurreita sem FAS hefur fylgst með frá árinu 2009. Það er reynt að fara alltaf á svipuðum árstíma til að afla gagna svo upplýsingar verði sem sambærilegastar á milli ára. Það er að mörgu að huga í ferðinni. Þannig þurfa nemendur að skoða hvaða gróður er að finna í reitunum, áætla gróðurþekju innan reitanna og samsetningu hennar, telja allar trjáplöntur og ef trjáplanta hefur náð 10 cm hæð þarf að mæla hæð hennar, finna lengsta árssprota, athuga hvort hún myndar rekkla og eins að athuga ummerki um beit eða ágang skordýra. Síðast en ekki síst þarf að skrá allar upplýsingar skýrt og skilmerkilega. Veður í gær var ákjósanlegt til útiveru og athuganir og mælingar gengu ljómandi vel. Með í för voru þær Hólmfríður og Lilja frá Náttúrustofu Suðausturlands og stjórnuðu öðrum hópnum á vettvangi.

Undanfarnar vikur og mánuði höfum við oft heyrt að sumarið hafi ekki verið mjög sérstakt og það sjáum við líka í gróðurreitunum okkar á sandinum. Mjög margar trjáplöntur virðast vera að drepast, sumar að hluta en aðrar alveg. Margar plöntur lækka jafnvel á milli ára. Þá voru margar greinar sem á síðasta ári voru laufgaðar berar og greinilega að drepast eða dauðar.

Næstu daga munu nemendar vinna skýrslu um ferðina þar sem m.a. er verið að bera saman upplýsingar á milli ára.