10. bekkur heimsækir FAS

Væntanlegir útskriftarnemendur úr Grunnskóla Hornafjarðar komu í FAS í gær og var þetta í annað skiptið sem þeim er boðið hingað. Tilefni heimsóknarinnar var að kynna fyrir þeim námsframboð skólans sem hefur verið endurskipulagt á þessu skólaári. Krakkarnir sýndu kynningunni áhuga og vita vonandi meira núna um það sem skólinn hefur upp á að bjóða. Eftir kynninguna var boðið upp á hádegismat á Nýtorgi þar sem Sigrún töfraði fram kræsingar.

Seinni partinn í gær var svo foreldrum og forráðamönnum boðið til sams konar kynningar. Þar var farið yfir námsframboð, skipulag og þau stuðningsúrræði sem er boðið upp á. Nú ættu nemendur 10. bekkjar og foreldrar þeirra að vita mun meira um FAS og geti saman átt samtal um næstu skref í skólagöngu ungmennanna.

Vakni einhverjar frekari spurningar er bæði nemendum og foreldrum bent á að hafa samband við námsráðgjafas skólans hana Fríði og hún er með netfangið fridur@fas.is

Þrammað með Mikka

Á opnum dögum var einn af fyrirhugðum viðburðum gönguferð með Mikka. Það varð þó ekkert úr þeirri göngu þá vegna slæmsku í fæti hjá hvutta. Nemendur á starfsbraut njóta reglulega útiveru og hafa nefnt að það væri gaman ef það væri hægt fá Mikka á staðinn og fara með honum í smárölt.

Og í dag var komið að gönguferðinni. Það hefði varla verið hægt að velja betri tíma. Veðrið í dag er frábært; logn og blíða. Vorið er líka sannarlega farið að minna á sig með fuglasöng sem sjaldan heyrist að vetri. Allir komu kátir til baka – bæði menn og hundur.

Opnum dögum lýkur í dag

Í dag er þriðji og síðasti dagur opinna daga í FAS. Eins og fyrri tvo dagana hefur verið nóg að gera; léttar morgunæfingar, spilamennska, kaffispjall á kennarastofunni og prjónastund svo eitthvað sé nefnt. Fyrir hádegi var einnig spilaður Hornafjarðarmanni og það var sjálfur útbreiðslustjórinn Albert Eymundsson sem stjórnaði spilinu af sinni alkunnu snilld. Eftir fyrstu umferð var komið að undanúrslitum þar sem níu efstu tóku þátt. Þegar komið var að úrslitum spiluðu þær Emilía Alís Sumarrós, Lilja Rós og Þorgerður María. Það var Emilía sem stóð uppi sem sigurvegari og er hún því framhaldsskólameistari í Hornafjarðarmanna árið 2025. Hún fekk að launum miða á árshátíðina. Þorgerður María var í öðru sæti og Lilja Rós í því þriðja og hlutu þær gjafabréf frá Hafnarbúðinni fyrir frammistöðu sína.

Eftir hádegi var komið að fleiri leikjum. Nú voru það leikirnir „Borg og land“ og „Hengimann“. Í kjölfarið var svo farið yfir hvað gekk vel á opnum dögum og hvað mætti betur fara. Í lok dags mun hópurinn svo taka á móti forseta Íslands, frú Höllu Tómasdóttur en hún er í opinberri heimsókn í sveitarfélaginu í dag og á morgun. Það var gaman að sjá hversu margir mættu til að taka á móti forsetahjónunum.

Á morgun er hefðbundin kennsla í FAS en annað kvöld verður svo árshátíð skólans. Þar mæta vonandi sem flestir nemendur og kennarar og hafa gaman saman.

 

Áfram halda opnir dagar

Það hefur verið nóg um að vera á öðrum degi opinna daga í FAS. Líkt og í gær hófst dagurinn á nokkrum léttum morgunæfingum. Nemendur hafa síðan getað valið um ýmsa atburði og má þar t.d. nefna tölvuleiki, karokí, spil og pússl, snyrtibuddugerð, leiki í íþróttahúsi svo eitthvað sé nefnt. Í lok dags voru bakaðar vöfflur og voru þeim gerð góð skil. Hér má sjá nokkrar myndir frá verkefnum dagsins.

Opnir dagar í FAS

Í morgun hófust opnir dagar í FAS og þeir standa yfir í þrjá daga. Þessa daga er ekki hefðbundin kennsla en margt annað í boði.

Kristján áfangastjóri hefur veg og vanda að skipulagi opinna daga og kennarar eru honum til aðstoðar. Dagskráin í dag hófst með léttum morgunæfingum og eftir þær voru ýmsir viðburðir í boði. Þar má t.d. nefna alls kyns spilamennsku, kaffispjall með kennurum, gönguferð um Höfn, æfingar í golfhermi, snyrtibuddugerð og snjóboltastríð.

Hápunktur dagskrárinnar í dag var þó heimsókn Háskólalestarinnar í Nýheima en þar voru mættir fulltrúar allra háskóla landsins til að kynna sitt fjölbreytta námsframboð. Það var sérstaklega gaman að sjá nokkra fyrrum nemendur FAS sem nú stunda nám í mismunandi háskólum vera með í kynningunum og veita upplýsingar.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá deginum.

Opnir dagar í næstu viku

Áfram flýgur tíminn. Nú er orðið bjart þegar við mætum í skólann og jafnvel má sjá ummerki um að vorið sé í nánd. Í þessari viku hafa staðið yfir miðannarviðtöl og í næstu viku verða opnir dagar en þá er hefðbundið nám sett til hliðar og nemendur fást við eitthvað allt annað.

Í vinnustund í dag var kynning á viðburðum á opnum dögum og sá Kristján áfangastjóri um þá kynningu. Opnir dagar hefjast á mánudag og eins og undanfarin ár standa þeir yfir í þrjá daga. Nemendur fá einingu fyrir þátttöku og virkni. Það er mikið af spennandi viðburðum í boði og líklega verður vandi fyrir einhverja að velja hvað á að taka. Það eru þó þrír atburðir sem allir taka þátt í sameiginlega. Á mánudag verður Háskólalestin í Nýheimum og mun kynna möguleika á námsframboði að loknu stúdentsprófi. Á miðvikudag fyrir hádegi verður spilaður Hornafjarðarmanni þar sem allir eiga að taka þátt. Síðar sama dag mun svo Halla Tómasdóttir forseti Íslands heimsækja skólann en hún er að koma í opinbera heimsókn í Sveitarfélagið Hornafjörð í næstu viku.

Árshátíð skólans verður svo haldin fimmtudaginn 13. mars en við segjum nánar frá því síðar.