Nemendur og kennarar í FAS prufukeyrðu námsefni Forestwell verkefnisins í vikunni. Þátttakendur voru tólf og fengu þeir stutta kynningu á verkefninu, tilgangi þess og afurðum. Þátttakendur kynntu sér heimasíðuna og námsumhverfið þar, m.a. AR umhverfið (Augmented Reality – viðbættur veruleiki) og fóru í „skógarferð“ innan skólans í símanum sínum. Þátttakendur voru einnig upplýstir um það til hvers væri ætlast af þeim með þátttöku sinni í prufukeyrslunni. Lögð var áhersla á að þátttakendur rýndu til gagns og myndu koma á framfæri því sem þeir teldu að betur mætti fara varðandi heimasíðuna og námsefnið þegar kæmi að því að svara könnuninni. Þátttaka í könnuninni var góð og komu þar fram gagnlegir þættir sem nýtast munu til að bæta framsetningu námsefnisins.
Næstu skref í ForestWell verkefninu verður rafræn ráðstefna sem haldin verður 7. nóvember n.k. Þar verður verkefnið kynnt fyrir bæði tengslaneti verkefnisins og öðrum áhugasömum þátttakendum. Þar verður einnig leitað eftir áliti þátttakenda á verefninu í umræðuformi og með stuttri könnun. Nánari upplýsingar varðandi ráðstefnuna fara í loftið á næstu dögum. Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar farið var í ,,skógarferð“ í símunum í gegnum forritið.
Það hefur verið mikið um að vera hjá hópnum sem lagði af stað til Finnlands síðasta föstudag. Við komum á áfangastað á laugardagskvöldi og nemendur fóru þá til gestafjölskyldna sinna. Norðmennirnir í verkefninu komu svo til Vaala á sunnudagskvöldið. Þegar allir eru komnir saman telur hópurinn um 40 manns.
Dagskrá hófst strax á mánudagsmorgni þar sem nemendur kynntu sín þátttökulönd, skoðuðu skólann og hófu hópavinnuna. Það er verið að fjalla um náttúrulegar auðlindir og nýtingu þeirra í verkefninu og við förum á nokkra staði á meðan á heimsókninni stendur til að fræðast um auðlindir í Finnlandi. Fyrsta daginn heimsóttum við stórt kúabú þar sem sjálfbærni og lágt vistspor er haft að leiðarljósi. Á þriðjudag fengum við fræðslu um sveitarfélagið og mikilvægi sveitarfélaga í því að vernda náttúrulegar auðlindir í umhverfinu. Þá fengum við fyrirlestur í gegnum netið um orkuöflun í Finnlandi, þar á meðal kjarnorku. Miðvikudeginum eyddum við í Rokua jarðvanginum þar sem við fræddumst um grunnvatn á svæðinu og hvernig það hreinsast í gegnum jarðlög á löngum tíma. Fyrri hluti fimmtudags var notaður til að rölta um Vaala og fræðast um svæðið. Þar var m.a. komið við hjá vatnsaflsvirkjun sem framleiðir rafmagn fyrir svæðið.
Þegar þessi frétt fer í loftið eru nemendahóparnir að leggja lokahönd á verkefnavinnuna og síðar í dag verður afrakstur vinnunnar kynntur. Þá lýkur formlegri dagskrá að þessu sinni. Hóparnir hittast svo aftur á Íslandi næsta vor.
Á morgun á hópurinn langa ferð fyrir höndum. Íslenski hópurinn leggur af stað fyrir hádegi og ef allt fer samkvæmt áætlun ættum við að koma heim á Höfn á miðnætti annað kvöld. Meðfylgjandi mynd var tekin í heimsókn á kúabúið á mánudag.
Um hádegisbil í dag lagði af stað hópur nemenda ásamt tveimur kennurum áleiðis til Vaala í Finnlandi. Þessi heimsókn er hluti af Nordplus Junior verkefni sem fjallar um náttúrulegar auðlindir og nýtingu þeirra. Auk Finnlands og Íslands taka nemendur frá Noregi þátt í verkefninu.
Næstu viku dvelja tæplega 40 krakkar saman í Vaala og fara bæði í nokkrar heimsóknir og vinna að ýmsum verkefnum. Auk vinnu í tengslum við verkefnið ætla hóparnir að gera ýmislegt til skemmtunar eins og að læra og spila finnskan hafnabolta og elda saman.
Nánar verður sagt frá verkefninu á vefsíðu verkefnisins https://nr.fas.is/
Síðustu daga og vikur hafa nemendur verið að skila ýmsum vinnugögnum til kennara og jafnvel að taka einhver próf. Kennarar nota svo þessi gögn til að meta stöðu nemenda og setja þær upplýsingar í INNU. Þar geta nemendur fengið einkunnirnar G (góður árangur), V (viðunandi árangur) og svo Ó (óviðunandi árangur). Í INNU er líka hægt að skoða yfirlit yfir mætingu nemenda.
Í þessari viku fara fram svokölluð miðannarsamtöl en þá hittir hver nemandi kennara í sínum námsgreinum. Saman fara þeir yfir stöðuna og ræða það sem vel er gert og eins ef það er eitthvað sem þarf að bæta. Þessi samtöl hafa lengi verið við lýði í FAS og hafa fyrir löngu sannað ágæti sitt.
Við hvetjum bæði nemendur og foreldra til að skoða saman INNU og athuga hver staðan er. Við vitum að allir foreldrar vilja það besta fyrir sín börn og eru alltaf tilbúnir til að styrkja og styðja sitt fólk. Og þá er svo mikilvægt að tala saman.
Sjö daga rötunar- og útivistaráfanga FAS lauk í september þar sem nemendur skipulögðu fimm daga ferð í óbyggðum með allt á bakinu. Áherslur áfangans voru að gera nemendur færa í að skipuleggja ferð á eigin vegum, rata með mismunandi aðferðum, hópastjórnun og tjaldbúðalíf á fjöllum.
Áfanginn gekk vel þó að hópurinn þyrfti að færa sig um stað eftir tvær nætur. Þá lá leiðin í Núpstaðaskóg þar sem gengið var í átt að Súlnatindum.
Kennarar í áfanganum voru Tómas Eldjárn, Ólafur Þór og Mike Walker.
FAS hefur í mörg ár verið þátttakandi í verkefninu heilsueflandi framhaldsskóli og fjallar reglulega um margt sem stuðlar að betri heilsu og vellíðan. Frá árinu 2016 hefur sveitarfélagið okkar verið heilsueflandi og gerir á sama hátt margt til að bæta heilsu og vellíðan íbúanna.
Dagana 23. – 30. september stendur yfir íþróttavika Evrópu og margir viðburðir í boði, bæði til að fræða og eins til að hægt sé að kynnast mismunandi íþróttagreinum.
Vinnustund í dag var helguð íþróttavikunni og fengum við fræðslu frá Margréti Láru Viðarsdóttur fyrrverandi landssliðskonu í fótbolta og Einari Erni Guðmundssyni sjúkraþjálfara. Þar var meðal annars fjallað um mikilvægi hreyfingar, réttrar næringar og slæm áhrif af neyslu orkudrykkja.
Við þökkum þeim Einari Erni og Margréti Láru kærlega fyrir komuna og mikilvægt innlegg og vonum að allir hafi haft bæði gagn og gaman af.