Nám í landvörslu við FAS

Í síðustu viku sögðum við frá því að það hefði náðst samkomulag um að halda áfram námi í fjallamennsku út skólaárið og fögnum við þeim áfanga.

Á næstu vorönn verður í boði í fjallanáminu valáfangi sem heitir „Landvarsla“. FAS fékk fyrir stuttu staðfest leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þennan áfanga. Umgjörð námsins verður með svipuðu sniði og hjá Umhverfisstofnun og þeir sem ljúka náminu öðlast starfsréttindi sem landverðir. Staðsetning skólans er mikilvæg fyrir námið, ekki síst nábýlið við Vatnajökulsþjóðgarð sem er hluti af „kennslustofu“ fjallamennskunámsins.

Nemendur í framhaldsnámi í fjallamennskunámi FAS ganga fyrir þegar kemur að innritun en allir þeir sem eru orðnir 18 ára geta sótt um námið. Umsjón með landvörslunáminu er í höndum Írisar Ragnarsdóttur Pedersen kennari í fjallamennskunámi FAS og hún mun veita nánari upplýsingar um námið fyrir þá sem vilja. Íris hefur netfangið irispedersen@fas.is.

Fréttir af fjallamennskunámi FAS

Síðustu vikur og mánuði hefur mikið verið í gangi varðandi fjallamennskunámið í FAS. Í upphafi skólaárs var staðan sú að námið var tryggt fram að áramótum en framhaldið óljóst. Mikil vinna hefur átt sér stað undanfarið sem margir hafa komið að, ekki síst fulltrúar sveitarfélagsins. Fyrsta markmiðið í þeirri vinnu var að hægt yrði að ljúka yfirstandandi skólaári með útskrift. Annað markmið og ekki síðra er að finna náminu farveg til lengri tíma þar sem hægt er að tryggja að námið verði áfram undir hatti Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu.

Í síðustu viku bárust þau ánægjulegu tíðindi að það hefur verið gengið frá því að fjallamennskunámið heldur áfram á næstu vorönn og þeir nemendur sem hófu námið í haust munu útskrifast.

Framundan er vinna til að tryggja náminu farveg til framtíðar. Sú vinna byggir á því mikla og góða starfi sem kennarar námsins hafa unnið og mótað til að koma sem best til móts við þarfir og öryggi ferðamanna í krefjandi umhverfi.

Við þökkum öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn til að tryggja námið á þessu skólaári og vonumst eftir áframhaldandi stuðningi til að halda náminu til framtíðar innan FAS.

Lesið í landið

Það hefur lengi verið lögð áhersla á ýmis konar náttúruskoðun í FAS. Í marga áratugi var sérstaklega fylgst með skriðjöklum og reynt að mæla hvort þeir væru að ganga fram eða hopa. Flestar ferðirnar með nemendur voru að Heinabergsjökli. Þá var mæld fjarlægð frá ákveðnum punktum á landi að jökuljaðrinum sem lá í lóninu og þegar heim var komið var notast við aðferðir stærðfræðinnar til að reikna út fjarlægðir. Það voru tveir mælipunktar á jökulruðningunum fyrir framan Heinabergsjökul sem var stuðst við.

Við höfum ekki farið varhluta af breytingum á náttúrunni undanfarin ár sem má að stórum hluta rekja til loftslagsbreytinga. Þær breytingar sjást mjög greinilega á Heinabergsjökli. Árið 2017 höfðu orðið svo miklar breytingar að ekki var lengur hægt að styðjast við nyrðri mælipunktinn en enn var hægt að mæla við syðri mælipunktinn en þar hafði jökullinn virst fremur stöðugur.

Árið 2020 hlaut Náttúrustofa Suðausturlands styrk frá Loftslagssjóði til þess að fljúga yfir jökla landsins og taka myndir af þeim, í því skyni að nýta til ýmissa rannsókna. Það var Snævarr Guðmundsson sem þekkir hvað best til jöklanna hér um slóðir sem fékk það hlutverk að taka myndirnar. Í flugi yfir Heinabergsjökul kom í ljós að syðri hluti Heinabergsjökuls var ekki lengur virkur hluti skriðjökulsins heldur risavaxinn ísjaki.

Þessar miklu breytingar á umhverfinu hafa kallað á breytingar á ferðinni með nemendur FAS. Nú tölum við ekki lengur um jöklamælingaferð heldur náttúruskoðunarferð þar sem við erum sérstaklega að skoða landmótun jökla og hvernig megi „lesa“ í landið og sjá hvar jökullinn hefur verið og hvernig hann hefur mótað fjöllin í grennd við jökulinn. Það er líka margt annað að skoða, t.d. hvernig landið mótast af völdum veðrunar, hvaða bergtegundir eru á svæðinu og eins veltum við fyrir okkur gróðurframvindu á svæðinu og rifjum upp í leiðinni hugtök úr ferðinni okkar á Skeiðarársand í upphafi annar.

Ferðin í gær hófst við brúna yfir Heinabergsvötn. Auk nemenda í áfanganum INGA1NR05 voru nokkrir nemendur og kennarar af starfsbraut. Það eru alltaf nokkrir í hópnum sem hafa ekki komið á þetta svæði og vita því ekki af þessari brú eða að þarna hafi þjóðvegurinn legið eitt sinn. Frá brúnni gekk hópurinn inn að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Á leiðinni er staldrað alloft við og lesið í landið. Snævarr Guðmundsson frá Náttúrustofu Suðausturlands var með í ferðinni en hann er manna fróðastur um jöklana á svæðinu. Hann fræddi hópinn um það sem fyrir augu bar.  Við vorum t.d. að skoða árfarvegi, jökulruðninga, jökulkembu, landmótun jökla uppi í fjöllum, gróðurframvindu, veðrun og mismunandi grjót og hversu vel eða illa það veðrast. Frá lóninu lá síðan leiðin fram hjá gömlu mælingarpunktunum og á bílaplanið fyrir framan Heinabergslónið þar sem rútan beið eftir okkur.

Ferðin gekk ljómandi vel. Veður var eindæma gott og allir nutu útverunnar. Næstu daga munu nemendur vinna skýrslu um ferðina.

Rafræn lokaráðstefna í ForestWell

Rafræn ráðstefna ForestWell verkefnisins sem FAS er þátttakandi í verður haldin fimmtudaginn 7. nóvember kl. 11:00 – 12:30. Á ráðstefnunni verður fjallað um opið aðgengi að rafrænu námsefni, ferðaþjónustu, heilsueflingu og síðast en ekki síst skóga.

Ráðstefnan er öllum opin og er um að gera fyrir áhugafólk að skrá sig til þátttöku HÉR.

Vel heppnaðir vísindadagar

Vísindadagar að þessu sinni heppnuðust ljómandi vel. Við höfum áður sagt frá því að þeir tengist verkefninu HeimaHöfn sem er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Nemendur unnu í smærri hópum að því að kynna sér ýmsar starfsstöðvar í Nýheimum og ráðhúsi. Í byrjun vikunnar þurfti hver hópur að afla sér upplýsinga um sína starfsstöð og búa til spurningar til að fá að vita enn meira. Á þriðjudag tóku nemendur viðtöl sem þeir tóku upp á símana sína. Í framhaldinu bjó hver hópur til stutt myndband sem er ætlað að gefa góða yfirsýn yfir viðkomandi stofnun eða starfsstöð. Lögð var áhersla á hóparnir mynda afla sér upplýsinga um hvernig unnið er á þverfaglegan hátt þar sem á sama tíma er verið að nýta ólíkar greinar til að ná sama markmiði. Þess háttar vinnan er kölluð STEAM sem stendur fyrir fræðagreinar á sviði verkfræði, stærðfræði, lista, raunvísinda og náttúruvísinda.

Í lok vísindadaga í gær voru myndböndin sýnd. Hver hópur þurfti einnig að skoða hvernig STEAM tengist í vinnu hverrar starfsstöðvar. Það var gaman að sjá skemmtileg myndbönd hjá hópunum og greinilegt krakkarnir höfðu lært margt nýtt í þessari viku.

Vísindadagar í FAS

Í morgun hófust vísindadagar í FAS en þá leggst hefðbundin kennsla af í þrjá daga og nemendur fást við önnur verkefni. Vinnan núna er framhald á verkefninu HeimaHöfn en það er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Það verkefni hófst í upphafi skólaárs og felur í sér náið samstarf með ungu fólki, fulltrúum úr atvinnulífinu, skólum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu.

Vísindadagar núna tengjast stofnunum Nýheima og starfsstöðvum ráðhússins. Nemendur eiga að kynnast þeim störfum sem unnin eru dags daglega, hvaða menntun starfsfólk þarf að hafa til að sinna vinnunni og hvaða máli starfið skiptir fyrir bæði viðkomandi stofnun og samfélagið. Vinnan á vísindadögum núna er það sem oft er kallað þverfagleg, en þá er á sama tíma verið að nýta ólíkar greinar til að ná sama markmiði. Vinnan á þennan hátt hefur verið kölluð STEAM sem  er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir fræðagreinar á sviði verkfræði, stærðfræði, lista, raunvísinda og náttúruvísinda.

Nemendur eiga í litlum hópum að afla sér þekkingar um þá stofnun eða starfsstöð sem þeir völdu. Á morgun, þriðjudag gefst nemendur kostur á að heimsækja starfstöðina og afla frekari upplýsinga. Í framhaldinu búa nemendur svo til stutt myndband sem ætlunin er að sýna í lok vísindadaga.

Það verður spennandi að sjá afrakstur vinnunnar í lok vísindadaga.