Við höfum sagt frá því áður að á þessu skólaári tekur FAS þátt í samstarfsverkefninu HeimaHöfn með Þekkingarsetri Nýheima og Sveitarfélaginu Hornafirði. Þar er verið að vinna með ungu fólki, fulltrúum úr atvinnulífinu, skólum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu. Meðal annars er verið að miðla upplýsingum um fjölbreytt tækifæri til menntunar og atvinnu á svæðinu. Og í dag var komið að því að fara í heimsókn í Skinney-Þinganes en það er stærsta fyrirtækið í sveitarfélaginu og þar vinna um 350 manns. Skinney-Þinganes er öflugt hátæknifyrirtæki sem vinnur á sjálfbæran hátt og fullvinnur allar afurðir.
Gestunum frá FAS var skipt í tvo hópa. Á meðan annar hópurinn fékk fræðslu um fyrirtækið gekk hinn hópurinn um vinnslusalina og skoðaði starfsemina. Það var sannarlega margt sem kom á óvart í þessari heimsókn. Þar má t.d. nefna öll þau fjölhæfu störf sem eru unnin í fyrirtækinu. Þar er að finna störf úr flestum greinum atvinnulífsins sem krefjast mismunandi undirbúnings og menntunar. Lögð var á það áhersla að fyrirtækið mun þurfa á fólki í fjölbreytt störf í framtíðinni sem krefjist alls konar sérhæfingar. Það var líka áhugavert að sjá alla sjálfvirknina í vinnslusölunum og hvernig vélar og róbótar vinna mörg störf sem mannshöndin sinnti áður.
Þá var nokkuð rætt um kosti þess að búa í samfélagi eins og okkar en líka rætt um mikilvægi þess að fólk kynnist öðrum svæðum og störfum. Það eykur víðsýni og reynslu sem er gott að búa að. En það er líka mikilvægt að unga fólkið okkar viti af öllum þeim tækifærum sem er að finna í heimabyggðinni. Það er þó allra best þegar fólk flytur aftur heim og finnur sér störf.
Við þökkum kærlega fyrir góðar móttökur og góða fræðslu.
Nú er skólastarfið komið á gott skrið. Hluti af skólastarfi í FAS er að hlúa að félagslífinu og það er gert með klúbbastarfi. Forsvarsmenn nemendafélagsins; þær Helga Kristey, Nína Ingibjörg og Isabella Tigist hafa undanfarið verið að undirbúa félagslíf annarinnar. Þar er stefnt að því að það verði viðburður í hverri viku. Það er stjórn klúbba í samráði við nemendafélagið sem skipuleggur viðburði. Eins og undanfarin ár eru það formenn klúbba ásamt forsvarsmönnum nemendafélagsins sem mynda nemendaráð. Þeim til aðstoðar og tengiliður við skólann er Jóhann Bergur Kiesel.
Í næstu viku verður fyrsti formlegi fundur annarinnar. Að sjálfsögðu eru allir nemendur hvattir til að taka þátt í klúbbum og viðburðum því án nemenda verður ekkert félagslíf.
Nú er skólastarf vorannarinnar óðum að taka á sig mynd. Það hófst á mánudag en þá var farið yfir áfanga vorannarinnar samkvæmt hraðtöflu. Kennsla hófst svo samkvæmt stundaskrá í gær, þriðjudag.
Ef það eru einhverjir enn að velta fyrir sér að skrá sig í fjarnám að þá er opið fyrir skráningar þar til 15. janúar. Best er að drífa í því sem fyrst svo hægt sé að komast af stað í náminu. Yfirlit yfir námsframboð er finna hér og hægt er að sækja um nám á þessum tengli.
Við í FAS tökum eftir því að daginn er aðeins tekið að lengja og fyrir flesta bætir það og kætir.
Í dag lýkur starfi haustannar formlega og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Þá er líka komið jólafrí í skólanum sem er örugglega kærkomið hjá flestum.
Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 6. janúar klukkan 8:30 en þá eiga nemendur að mæta hjá umsjónarkennurum sínum. Klukkan 9:00 verður kennt eftir hraðtöflu þar sem verður farið yfir skipulag annarinnar í hverjum áfanga. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 7. janúar.
Starfsfólk FAS sendir nemendum sínum sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðileg jól og vonar að nýtt ár verði farsælt og gefandi.
Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á námskeið í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir.
FAS fékk hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þetta námskeið. Námið byggir á námskrá Umhverfisstofnunar (UST) og spannar 110 kennslustundir og verður blanda af fjarnámi og staðnámi. Bóklegi hluti námsins fer fram í fjarnámi í formi fyrirlestra og erinda frá sérfræðingum á ýmsum sviðum sem snerta náttúruvernd og landvörslu. Verklegi hluti námsins fer fram í staðnámi dagana 3. – 7. apríl á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs (VJÞ), þ.e. í Skaftafelli og hjá Jökulsárlóni.
Hér er hægt að nálgast nánari uppýsingar um námskeiðið og einnig að sækja um. Það er Íris Ragnarsdóttir Pedersen sem verður umsjónarkennari námskeiðsins og hún tekur við öllum spurningum á netfanginu irispedersen@fas.is
Meðfylgjandi mynd sýnir landvörð kanna aðstæður í einum af íshellum Vatnajökulsþjóðgarðs.
Þjálfarar yngri landsliða Íslands hafa tilkynnt fyrstu æfingahópa sína fyrir komandi verkefni. Meðal þeirra sem fengu kallið í æfingahóp U18 drengja er Hilmar Óli Jóhannsson, nemandi á afreksíþróttasviði Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Hilmar Óli er í 11. flokki Sindra í körfubolta og spilar einnig með meistaraflokki.
Æfingar hópsins fara fram rétt fyrir jól og eru mikilvægt skref í undirbúningi landsliðsins fyrir komandi keppnistímabil. Þetta er frábær viðurkenning á hæfileikum og vinnusemi Hilmars Óla, sem hefur lagt hart að sér bæði á körfuboltavellinum og í námi á afreksíþróttasviðinu í FAS.
Við óskum Hilmari Óla innilega til hamingju með valið og hlökkum til að fylgjast með honum á komandi æfingum og verkefnum með landsliðinu!