Snjóflóðanámskeið framhaldshópsins í fjallamennskunámi FAS var haldið á Dalvík, 21.-26. febrúar. Eins og fram hefur komið hafa snjóaðstæður á landinu verið heldur fátæklegar og snjóalög erfið. Því var meiri áhersla lögð á leiðsögn, undirbúning, veður og skipulag á þessu námskeiði og áherslan minni á snjóflóðafræðin, vegna snjóaðstæðna. Nemendur fengu þó tækifæri til þess að spreyta sig á snjóathugunum, gryfjugerð og snjóprófunum og auðvitað félagabjörgun en hana þarf að æfa reglulega. Allir morgnar byrjuðu á morgunfundi þar sem nemendur og kennarar fóru yfir snjóaðstæður, veðurspá og áætlun dagsins. Einnig fengu nemendur upprifjun á snjófræðum.
Snjóalög stýrðu algjörlega för og það var mikill lærdómur fólginn í því að hugsa um það hvar snjórinn sest til út frá veðri og vindum og velja bestu leið fyrir daginn hverju sinni. Það var áskorunin á þessu námskeiði, að finna snjóinn, lesa í veðrið og sannreyna. Hópnum tókst vel til í þessum snjó- og veðurlestri og fann góðan snjó í fínu veðri nánast alla dagana.
Námskeiðið fór fram á fjallaskíðum og tókst öllum að bæta kunnáttu og tækni, bæði á upp- og niðurleið. Að geta ferðast um á fjallaskíðum stækkar leikvöllinn töluvert og eykur ánægju en krefst þess að taka tillit til snjóflóðahættu og landslagslesturs.
Hópurinn fékk að kynnast Tröllaskaga og Eyjafirði enn betur. Farið var á fjöll í Svarfaðardal, Karlsárfjall, gengið á fjöll upp frá Hlíðarfjalli, á Illviðrishnjúk við Siglufjarðarskarð og á Kaldbak í Eyjafirði. Síðasti dagurinn var fullkomlega nýttur á Illviðrishnjúk í blíðu og dúnmjúkri lausamjöll. Frábær endir á góðu námskeiði og einn af þessum æðislegu skíðadögum sem sitja eftir.
Við kennararnir erum virkilega ánægð með námskeiðið og vonum að nemendur haldi heim með fullan poka af veganesti og innblástur til áframhaldandi fjallaskíðamennsku og snjóflóðaspeki. Markmiðið er auðvitað að smita þau af fjallaskíðabakteríunni. Það var gaman að sjá nemendur tileinka sér aðferðir og tækni yfir námskeiðið og tóku allir miklum framförum. Þetta er sterkur hópur, áhugasamur og með vilja og getu til þess að fara lengra. Við viljum hvetja þau til þess að fara út, undirbúa sig vel og nýta þessa reynslu til þess að æfa ákvarðanatöku í snjóflóðalandslagi, þetta kemur einungis með því að fara út og gera og maður heldur áfram að læra út lífið. Takk fyrir samveruna!
Kennarar voru Erla Guðný Helgadóttir og Smári Stefánsson. Greinina skrifaði Erla.
Söngleikurinn Hárið verður frumsýndur í Mánagarði næstkomandi laugardag undir leikstjórn Svandísar Dóru Einarsdóttur. Samstarf á milli Leikfélags Hornafjarðar og FAS á sér langa sögu og í gegnum tíðina hafa fjölmargir nemendur tekið þátt í uppfærslum. Þeir nemendur sem taka þátt í sýningunni fá einingar fyrir sína vinnu og gefst um leið tækifæri til að kynnast fjölbreyttu lífi leikhússins. Vinna við verkefnið hófst strax á síðustu önn en hefur verið af fullum krafti frá upphafi vorannarinnar.
Hárið er rokksöngleikur sem gerist á hippatímabilinu þegar stríð í Víetnam og fleiri löndum í Asíu var í algleymingi. Þá reis unga fólkið upp í Ameríku og krafðist frelsis og þess að geta notið lífsins. Þetta er í annað sinn sem FAS tekur þátt í uppfærslu á Hárinu.
Aðstandendur sýningarinnar núna lofa ógleymanlegri tónlist, kraftmiklu leikhúsi og einstakri upplifun. Það er uppselt á frumsýningu og töluvert selt á aðrar sýningar en gert er ráð fyrir 10 sýningum. Við hvetjum alla til að panta miða og drífa sig á frábæra skemmtun.
Veturinn hefur verið á undanhaldi þetta árið en lét þó sjá sig þá daga sem fjallaskíðanámskeiðið var haldið og nemendur fengu góðan snjó flesta dagana en það námskeið var haldið 7.-10. mars 2025. Þó að snjóþekjan væri ansi þunn í neðri hluta fjalla þá var hægt að skíða alveg frábæran snjó til fjalla. Það þurfti ekki mikið til þess að gleðja nemendur og kennara eftir snjóleysið á snjóflóðanámskeiðinu og það sýnir sig enn og aftur að það er alltaf hægt að vinna með aðstæður og gera það besta úr því sem náttúran býður upp á.
Áherslurnar á þessu námskeiði eru aðrar en á snjóflóðanámskeiðinu sem er grunnurinn og byggir fjallaskíðanámskeiðið á efninu sem farið er yfir þar. Ferðamennska á fjallaskíðum er sérstakur ferðamáti og annars eðlis en fótgangandi og það sem kennt er í öðrum áföngum. Farið er yfir uppgöngutækni á skíðum, leiðarval og landslagslestur, hvernig má velja góða niðurleið að sjálfsögðu en auðvitað líka mikilvægi undirbúnings; þar sem rýnt var í kort, veður og snjóalög til þess að undirbúa örugga og skemmtilega fjallaskíðaferð. Nemendur fengu góða kynningu á svæðinu og á fjórum dögum var skíðað vítt og breitt um Tröllaskagann. Hópurinn skíðaði saman niður Múlakollu á fyrsta degi, skíðaði dúnmjúka lausamjöll í innanverðum Svarfaðardal og Presthnjúk. Síðasti dagurinn var stuttur og fór í snjóflóðabjörgunaræfingu í Karlsárdal.
Að morgni hvers dags var farið yfir veðurspá og snjóalög ásamt áætlun dagsins og fengu nemendur að spreyta sig á því verkefni í sínum hópum sem héldust þeir sömu yfir vikuna. Það er mikilvægt að undirbúa sig vel fyrir fjallaskíðaferðir, hafa góða mynd af snjóalögum og veðurspá dagsins en einnig að þekkja landslagið vel, skoða vandlega kort og leiðir og hlaða þeim niður í tækið sitt. Þannig má taka betri ákvarðanir í feltinu.
Nemendur sýndu mikla framför á námskeiðinu, einnig þrautseigju og áhuga á námsefninu. Fjallaskíðin veita manni mikið frelsi á fjöllum og ef skíðakunnáttan samhliða snjóflóðaþekkingu, góðum undirbúningi og umhverfisvitund er til staðar þá gerist útivistin varla betri.
Alls mættu fimmtán nemendur á námskeiðið en kennarar voru þau Svanhvít Helga Jóhannsdóttir, Smári Stefánsson og Erla Guðný Helgadóttir sem skrifar greinina.
Nýlega var framhaldsnámskeið í skíðagöngu haldið í fallegum fjöllum rétt sunnan við Borgarfjörð eystri. Hópurinn hafði aðsetur í hlýlegum Húsavíkurskála, sem reyndist frábær bækistöð með viðarkyndingu og notalegu andrúmslofti. Það var ævintýri út af fyrir sig að komast að skálanum.
Alls komu átta nemendur með okkur í skálann og þaðan notuðum við dagana 15., 16., 17. og 18. mars til að fara í skíðagöngur, læra og ögra okkur sjálfum í þessu frábæra umhverfi. Við vorum heppin að njóta frábærs veðurs og góðra snjóskilyrða allan tímann.
Á kvöldin settumst við saman við ofninn, unnum að dagsplönum fyrir næsta dag, deildum góðum máltíðum og fengum meira að segja að sjá norðurljósin dansa á himninum.
Nemendur sýndu miklar framfarir, öðluðust sjálfstraust og voru allir mjög ánægðir með námskeiðið og eigin þróun. Við myndum gjarnan vilja koma aftur á þetta svæði á næsta ári!
Kennarar á námskeiðinu voru; Dan Saulite og Smári Stefánsson.
Eins og margir vita er margs konar starfsemi í Nýheimum. Auk skólans er fjöldi starfsmanna í húsinu sem vinnur við alls konar verkefni og svo er aðstaða til að læra fyrir nemendur á háskólastigi sem eru í fjarnámi. Oft hefur verið talað um mikilvægi þess að „íbúar“ hússins hittist og viti hver af öðrum. Auðveldasta leiðin til þess er að hittast á Nýtorgi og þá er ekkert betra en að bjóða upp á kaffi og meðlæti.
Í gær var komið að fyrsta sameiginlega hittingi hússins á Nýtorgi. Það var starfsfólk FAS sem sá um veitingarnar að þessu sinni. Kaffiboðið gekk ljómandi vel og veitingarnar runnu ljúflega niður. Margt var skrafað og ekki annað að sjá en allir væru saddir og sælir.
Væntanlegir útskriftarnemendur úr Grunnskóla Hornafjarðar komu í FAS í gær og var þetta í annað skiptið sem þeim er boðið hingað. Tilefni heimsóknarinnar var að kynna fyrir þeim námsframboð skólans sem hefur verið endurskipulagt á þessu skólaári. Krakkarnir sýndu kynningunni áhuga og vita vonandi meira núna um það sem skólinn hefur upp á að bjóða. Eftir kynninguna var boðið upp á hádegismat á Nýtorgi þar sem Sigrún töfraði fram kræsingar.
Seinni partinn í gær var svo foreldrum og forráðamönnum boðið til sams konar kynningar. Þar var farið yfir námsframboð, skipulag og þau stuðningsúrræði sem er boðið upp á. Nú ættu nemendur 10. bekkjar og foreldrar þeirra að vita mun meira um FAS og geti saman átt samtal um næstu skref í skólagöngu ungmennanna.
Vakni einhverjar frekari spurningar er bæði nemendum og foreldrum bent á að hafa samband við námsráðgjafas skólans hana Fríði og hún er með netfangið fridur@fas.is