Skólasetning FAS

20160818_100238Í morgun hófst skólastarf með formlegum hætti í FAS.
Eyjólfur skólameistari setti skólann og kynnti starfsemi og skipulag annarinnar.
Selma sá svo um að kynna klúbbastarfið ásamt Björk varaforseta nemendafélagsins. Nemendur skráðu sig í klúbba fyrir önnina og enduðu daginn á umsjónafundi með sínum umsjónarkennurum.
Á morgun hefst síðan kennsla samkvæmt stundaskrá.
Enn er tekið við skráningum og hvetjum við alla sem eru að hugsa um nám til að skrá sig fyrir 25. ágúst.
Námsframboð má sjá á heimasíðu skólans.

Sumarfrí og upphaf haustannar

SANYO DIGITAL CAMERA

Skrifstofa skólans verður lokuð frá og með 17. júní vegna sumarleyfa. Opnað verður aftur miðvikudaginn 3. ágúst. Þeir sem eru að huga að námi geta skoðað námsframboð á vef skólans. Þar er jafnframt hægt að skrá sig en þeim umsóknum sem berast í sumar verður svarað í byrjun ágúst þegar skrifstofan opnar að nýju. Tekið verður við umsóknum til 25. ágúst en þá lýkur áfangaskráningu. Það er samt best að skrá sig sem fyrst.

Skólastarf haustannar byrjar formlega fimmtudaginn 18. ágúst en þá verður skólinn settur klukkan 10 og þar á eftir verða umsjónarfundir. Kennsla hefst svo föstudaginn 19. ágúst samkvæmt stundaskrá.

Starfsfólk FAS vonar að allir eigi ánægjulegt sumar.

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS 21. maí 2016. Á myndina vantar nokkra útskriftarnemendur.

Útskrift frá FAS 21. maí 2016. Á myndina vantar nokkra útskriftarnemendur.

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni voru útskrifaðir 20 stúdentar, átta nemendur af framhaldsskólabraut, tveir nemendur af fjallamennskubraut og úr starfsnámi útskrifast einn af vélvirkjabraut og einn af A-stigi vélstjórnar.

Nýstúdentar eru: Agnar Ólafsson, Arnar Freyr Valgeirsson, Auður Lóa Gunnarsdóttir, Ármann Örn Friðriksson, Birkir Þór Hauksson, Björgvin Konráð Andrésson, Guðrún Ósk Gunnarsdóttir, Hallmar Hallsson, Inga Kristín Aðalsteinsdóttir, Ingólfur Waage Jónsson, Ívar Örn Valgeirsson, Maria Selma Haseta, Marteinn Eiríksson, Šejla Zahirović, Sóley Þrastardóttir, Sunneva Dröfn Jónsdóttir, Sædís Harpa Stefánsdóttir, Vigdís María Borgarsdóttir, Þorkell Ragnar Grétarsson og Þorsteinn Geirsson.

Af framhaldsskólabraut útskriftast: Bryndís Arna Halldórsdóttir, Egill Jón Hannesson, Hákon Guðröður Bjarnason, Helgi Ernir Helgason, Kristófer Örvar Ögmundsson, Patrycja Rutkowska, Viktor Örn Einarsson og Yrsa Ír Scheving.
Af fjallamennskubraut útskrifast: Emilía Blöndal og Kristín Jóna Hilmarsdóttir. Jens Olsen útskrifast af vélvirkjabraut og vélstjóri af A-stigi er Kristján Björn Skúlason.
Bestum árangri á stúdentsprófi  að þessu sinni náði Ármann Örn Friðriksson.

Starfsfólk FAS óskar útskriftarnemendum til hamingju með áfangann og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Útskrift á laugardag

SANYO DIGITAL CAMERA

Nú er prófum að ljúka í FAS en síðasti prófadagurinn er miðvikudagurinn 18. maí.  Prófsýning verður fimmtudaginn 19. maí. Nemendur eru hvattir til að koma og skoða prófin sín.

Laugardaginn 21. maí kl. 14:00 er svo komið að útskrift frá FAS. Að þessu sinni verða útskrifaðir nemendur af framhaldsskólabraut, fjallamennskubraut, vélstjórnarbraut, vélvirkjabraut og svo stúdentar. Að venju fer athöfnin fram í Nýheimum og hefst klukkan 14:00. Allir eru velkomnir á meðan að húsrúm leyfir.

Mælingar á Fláajökli

IMG_4207

Jökuljaðar Fláajökuls hnitsettur.

Nemendur í FAS hafa komið að jöklamælingum í rúma tvo áratugi. Þar hefur oftast berið beitt svokölluðum þríhyrningsmælingum til að mæla jökulsporða sem ganga fram í jökullón. Í nokkurn tíma hefur verið rætt um það í skólanum að gaman væri að prófa nýjar aðferðir sem myndu gefa nákvæmari niðurstöður.
Í gær fóru nemendur í land- og jarðfræði ásamt kennurum sínum og Snævarri Guðmundssyni frá Náttúrustofu Suðausturlands upp að vestanverðum Fláajökli til að mæla jökulinn. Aðgengi að jöklinum þar er fremur gott og oft hægt að komast alveg að jaðrinum. Tilgangur ferðarinnar var tvíþættur. Annars vegar að nýta stafrænan fjarlægðamæli til að finna út vegalengd að jökli þar sem vatn liggur fyrir framan hann. Hins vegar að ganga meðfram jökulröndinni og taka GPS punkta á allmörgum stöðum. Á milli nokkurra GPS punkta var tækið síðan notað til að varða jökuljaðarinn.
Áður en farið var í þessa ferð höfðu nemendur fræðst um meðferð GPS tækja og hvernig tengja megi upplýsingar úr þeim við GIS gagnagrunninn sem er stafrænt landfræðilegt upplýsingakerfi sem m.a. vinnur út frá gögnum frá gervihnöttum. Þá höfðu krakkarnir notað mynd af Fláajökli frá 2010 til að teikna upp jökuljaðarinn eins og hann var þá og tengja við GPS hnit. Næstu daga verða upplýsingarnar sem var safnað í gær notaðar til að teikna nýja mynd af jökuljaðrinum. Þannig að á að fást mun nákvæmara yfirlit yfir breytingarnar á þessum sex árum heldur en með þeim aðferðum sem hingað til hafa verið notaðar. Það verður spennandi að bera myndirnar saman þegar vinnunni er lokið.
Ferðin í gær gekk ljómandi vel. Það var nokkuð kalt en bjart og stillt uppi við jökulinn. Hægt er að skoða myndir úr ferðinni á fésbókarsíðu skólans.

Nemendafundur og nýr forseti

NemendafundurÍ þessari viku höfum við í FAS gefið okkur smá tíma fyrir félagslíf nemenda.
Á síðasta vetrardag var hefðbundin kennsla lögð niður í 2 tíma og nemendafundur haldinn. Þar var nemendum skólans skipt upp í hópa. Hver hópur fékk ákveðin fyrirmæli sem snérust um félagslíf og hvers vegna það væri mikilvægt. Einnig átti koma með hugmyndir um hvað hægt væri að gera til að efla félagslífið. Margar flottar hugmyndir komu frá hópunum og munu þær verða teknar fyrir af nemendaráði næsta haust. Það er jú undir nemendum komið að skipuleggja sitt félagslíf.
Sama dag voru kosningar í fullum gangi og nemendur kusu sér nýjan forseta og varaforseta nemendafélagsins. Í framboði voru fjórar glæsilegar stúlkur. Það voru þær Adisa Mesetovic, Björk Davíðsdóttir, Hafdís Lára Sigurðardóttir og Sigrún Birna Steinarsdóttir.
Það kom í ljós að ekki mátti minna muna á tveimur efstu frambjóðendunum en það munaði ekki nema einu atkvæði á milli þeirra. Það var hún Adisa sem hlaut flest atkvæði og verður þar með forseti nemendafélagsins á næsta ári og með henni verður Björk sem hlaut næstflest atkvæði. Við viljum óska þeim innilega til hamingju og á sama tíma vonum við innilega að Hafdís og Sigrún taki fullan þátt í nemendaráði næsta vetur líka enda mikill fengur að hafa þær.