Það er nú ýmislegt fleira en námið sem margir nemendur okkar í FAS eru að fást við. Og oft á tíðum eru það mikilvæg málefni sem varða okkur öll.
Í síðasta fréttabréfi Amnesty International er m.a. sagt frá öflugu starfi ungliðahreyfingar Amnesty á Íslandi. Og á myndum sem fylgja má sjá kunnugleg andlit úr skólanum en síðustu ár hafa nokkrir af nemendum okkar verið virkir í starfsemi Amnesty og tekið þátt í starfsemi samtakanna. Landinu er skipt upp í nokkra hluta en Höfn fylgir Austurlandi og á því svæði er mjög öflug starfsemi. Á síðasta skólaári stóðu ungliðar úr FAS ásamt öðrum félagsmönnum á svæðinu fyrir fræðslufundi um störf Amnesty. Amnesty var sýnilegt á Humarhátíðinni síðasta sumar og voru með bás á hátíðasvæðinu. Þá tóku nokkrir félagar héðan þátt í Reykjavík Pride en þar er verið að vekja athygli á minnihlutahópum í þjóðfélaginu.
Amnesty stendur m.a. fyrir bréfamaraþoni sem er löngu orðinn árlegur viðburður þar sem er verið að vekja athygli á erfiðum aðstæðum þeirra sem láta sig mannréttindi varða og berjast fyrir réttlæti í heiminum. Um þessar mundir er bréfamaraþonið að fara af stað. Veitt eru verðlaun fyrir flestar undirskriftir annars vegar og flestar undirskriftir á höfðatölu hins vegar. Síðustu þrjú árin hefur FAS skorað hátt í maraþoninu. Í næstu viku er ætlunin að hvetja alla í FAS til að taka þátt, einnig verður hægt að taka þátt á aðventuhátíð í Nýheimum næstkomandi laugardag og á þriðjudag í næstu viku verður bréfamaraþon á opnu húsi í Heppuskóla. Það er alltaf hægt að skrifa undir rafrænt og við hvetjum alla til að taka þátt en munið eftir að merkja við FAS.
Það fer vel saman að starfa í skemmtilegum félagsskap og um leið að láta gott af sér leiða. Að sjálfsögðu er þetta allt sjálfboðavinna sem er svo mikilvægur þáttur í hverju samfélagi.
[modula id=“9739″]