Amnesty International í FAS

01.des.2017

Það er nú ýmislegt fleira en námið sem margir nemendur okkar í FAS eru að fást við. Og oft á tíðum eru það mikilvæg málefni sem varða okkur öll.

Í síðasta fréttabréfi Amnesty International er m.a. sagt frá öflugu starfi ungliðahreyfingar Amnesty á Íslandi. Og á myndum sem fylgja má sjá kunnugleg andlit úr skólanum en síðustu ár hafa nokkrir af nemendum okkar verið virkir í starfsemi Amnesty og tekið þátt í starfsemi samtakanna. Landinu er skipt upp í nokkra hluta en Höfn fylgir Austurlandi og á því svæði er mjög öflug starfsemi. Á síðasta skólaári stóðu ungliðar úr FAS ásamt öðrum félagsmönnum á svæðinu fyrir fræðslufundi um störf Amnesty. Amnesty var sýnilegt á Humarhátíðinni síðasta sumar og voru með bás á hátíðasvæðinu. Þá tóku nokkrir félagar héðan þátt í Reykjavík Pride en þar er verið að vekja athygli á minnihlutahópum í þjóðfélaginu.

Amnesty stendur m.a. fyrir bréfamaraþoni sem er löngu orðinn árlegur viðburður þar sem er verið að vekja athygli á erfiðum aðstæðum þeirra sem láta sig mannréttindi varða og berjast fyrir réttlæti í heiminum. Um þessar mundir er bréfamaraþonið að fara af stað. Veitt eru verðlaun fyrir flestar undirskriftir annars vegar og flestar undirskriftir á höfðatölu hins vegar. Síðustu þrjú árin hefur FAS skorað hátt í maraþoninu. Í næstu viku er ætlunin að hvetja alla í FAS til að taka þátt, einnig verður hægt að taka þátt á aðventuhátíð í Nýheimum næstkomandi laugardag og á þriðjudag í næstu viku verður bréfamaraþon á opnu húsi í Heppuskóla. Það er alltaf hægt að skrifa undir rafrænt og við hvetjum alla til að taka þátt en munið eftir að merkja við FAS.

Það fer vel saman að starfa í skemmtilegum félagsskap og um leið að láta gott af sér leiða. Að sjálfsögðu er þetta allt sjálfboðavinna sem er svo mikilvægur þáttur í hverju samfélagi.

 

[modula id=“9739″]

 

Aðrar fréttir

Hájöklaferð í fjallanáminu

Hájöklaferð í fjallanáminu

Þann 21. apríl lagði grunnnámshópur fjallanámsins af stað í leiðangur upp á Hrútsfjallstinda. Nemendur voru fimmtán talsins auk þriggja kennara  og var veðurspá með besta móti og stóð til að gista upp frá í þrjár nætur. Það þýddi að bakpokar voru þungir en samt sem...

Umhverfisdagur Nýheima

Umhverfisdagur Nýheima

Það er vel við hæfi á síðasta degi vetrar að taka til hendinni og hreinsa og tína drasl sem hefur fallið til í vetur. Eins og svo oft áður efndu íbúar Nýheima til hreinsunardags þar sem allir sem geta leggja hönd á plóg. Það er búið að tína rusl, sópa, hreinsa á milli...

Fjallanámið áfram í FAS

Fjallanámið áfram í FAS

Það er okkur sannarlega mikið gleðiefni að flytja nýjustu tíðindi af stöðu náms í fjallamennsku í FAS.  Næsta vetur mun námið verða í boði með svipuðu sniði og undanfarin ár. Það ár mun verða notað til að finna náminu farveg til framtíðar. Við höfum verið í erfiðum...