Útskrift frá FAS næsta laugardag

Laugardaginn 27. maí næst komandi verða útskrifaðir stúdentar og nemendur af framhaldsskólabraut og vélstjórnarbraut frá FAS. Athöfnin verður í Nýheimum og hefst klukkan 14:00. Þeir sem eiga útskriftarafmæli eru sérstaklega velkomnir.

Allir eru velkomnir á athöfnina á meðan húsrúm leyfir.

Nýir forsetar í FAS

Arndís Ósk og Sóley Lóa forsetar næsta skólaárs.

Þó svo að skóla sé að ljúka á næstu vikum þarf strax að fara að huga að starfi næsta skólaárs. Eitt af því sem þarf að liggja fyrir eru hverjir gegna ábyrgðarstöðum í nemendafélaginu. Þar eru störf forseta og varaforseta mikilvægust því þeir leiða félagsstarf nemenda.

Í þessari viku voru forseti og varaforseti fyrir komandi skólaár kjörnir. Það eru þær Arndís Ósk Magnúsdóttir og Sóley Lóa Eymundsdóttir sem hlutu kosningu og mun Arndís taka að sér embætti forseta og Sóley Lóa mun standa henni við hlið sem varaforseti nemendafélagisns.

Við í FAS óskum þeim til hamingju með kosninguna og hlökkum til að fylgjast með störfum þeirra næsta vetur.

Kynningar í verkefnaáfanga á fimmtudag

Yfirstandandi vika er síðasta kennsluvikan á vorönninni. Þá er jafnan í mörg horn að líta. Einn þeirra áfanga sem er í boði er svokallaður verkefnaáfangi þar sem nemendur sem eru komnir langt í námi vinna verkefni tengt þeim námslínum sem þeir leggja áherslu á í stúdentsprófi sínu. Verkefnin sem eru unnin í þessum áfanga eiga að vera á þriðja til fjórða hæfniþrepi og vera sambærileg verkefnum sem eru unnin við upphaf háskólanáms.

Fimmtudaginn 11. maí munu nemendur kynna lokaverkefni sín. Kynningarnar fara fram í fyrirlestrasal Nýheima og hefjast klukkan 9:05. Verkefnin eru fjölbreytt enda eru óvenju margir í áfanganum að þessu sinni. Kynningarnar eru öllum opnar og við hvetjum fólk til að koma og kynna sér verkefni unga fólksins okkar.

Pöndubirnir á vappi

Nú í morgunsárið mátti sjá nokkra pöndubirni skunda í skólann. Hér voru á ferðinni nokkrir af væntanlegum útskriftarnemendum í FAS sem þó ætla ekki að nema fræðin í dag heldur aðeins að sprella í tilefni þess að nú er farið að hilla í hvítu kollana. Reyndar laumuðust nokkrir nemendur í skólann í gærkveldi og forfærðu aðeins húsgögnum til að stríða samnemendum sínum.
Þegar pöndurnar komu í FAS í morgun beið þeirra morgunmatur sem kennarar höfðu undirbúið en undanfarin ár hefur sú hefð skapast að kennarar bjóði til morgunverðar þegar nemendur dimmitera.
Við vonum að pöndurnar eigi góðan dag og óskum þeim góðs gengis í náminu.

Frumkvöðlaverkefni í Grikklandi

Í Trikala á Grikklandi.

Löng hefð er fyrir erlendu samstarfi í FAS og eitt eða fleiri verkefni hafa verið í gangi hverju sinni undanfarin ár. Í vetur eru fjögur slík verkefni í gangi og þessa viku er sex manna hópur frá FAS í Trikala í Grikklandi. Hópurinn tekur þar þátt í fjölþjóðlegu frumkvöðlaverkefni ásamt nemendum frá Ítalíu, Eistlandi, Lettlandi og Grikklandi.  Verkefnið stendur yfir í tvö ár og fyrr á önninni fór hópur frá FAS til Ítalíu.  Næsta haust er von á ríflega 20 manna hópi til Hafnar og verkefninu lýkur í Lettlandi vorið 2018.

Í verkefninu vinna nemendur frá þátttökulöndunum í sex hópum að því að hanna og framleiða einhverja vöru eða þjónustu.  Auk þessa frumkvöðlastarfs fá þátttakendur mikilvæga reynslu í að vinna saman, yfirstíga tungumálaerfiðleika og brúa þann menningarmun sem er á milli þjóða í Norður- og Suður-Evrópu. Það er því margs konar ávinningur af verkefnum sem þessum og mjög lærdómsríkt fyrir alla þá sem taka þátt.

Á myndinni eru Ástrós Aníta, Hafsteinn, Ragnar og Bjarmi við veisluborð sem útbúið var með mat frá löndunum fimm og að sjálfsögðu buðu Íslendingarnir upp á harðfisk.

Umhverfisdagur í Nýheimum

Hildur, Kristín og Adisa stóðu sig vel í innkaupapokagerðinni.

Í dag tóku nemendur FAS og starfsfólk Nýheima saman höndum og vörðu hluta úr deginum til að fegra og bæta umhverfið.
Hugrún Harpa var með kynningu á því fyrir nemendur hvernig eigi að standa að flokkun á efri hæðinni en þar er hægt að gera betur.
Klukkan 11 hófst vinnan við að fegra og bæta. Unnið var í nokkrum hópum bæði innanhúss og utan. Það er ótrúlega mikið drasl sem safnast saman þegar að er gáð. Utanhúss bar mest á sígarettustubbum, rakettudrasli og plasti. Þá vann einn hópur í því að hreinsa upp tyggjóklessur utandyra en margir hafa þann leiða ávana að spýta tuggunum út úr sér þar sem þeir eru. Tyggjóklessurnar liggja síðan á gangstéttum og eru til lítillar prýði. Það voru líka einhverjir sem mættu með saumavélur og bjuggu til poka úr gömlum bolum fyrir pokastöðina í Nettó. Það var orðin dágóð hrúga af pokum sem voru gerðir í þetta sinn.
Að lokinni vinnunni var síðan boðið upp á hamborgara sem runnu ljúflega niður.
Það má með sanni segja að í dag hafi máltækið „margar hendur vinna létt verk“ sannað gildi sitt og ávinningurinn er hreinna og um leið fallegra umhverfi. Myndir frá deginum má sjá á fésbókarsíðu skólans.