Í morgun kom til okkar góður gestur en það var Magnús Guðmundsson frá Íslandsdeild Amnesty. Erindi hans var að veita FAS viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í Bréf til bjargar lífi árið 2017. Nemendur FAS söfnuðu flestum undirskriftum miðað við nemendafjölda af öllum framhaldsskólum landsins. Samtals söfnuðu þeir 2.312 undirskriftum til stjórnvalda þar sem þrýst er á um úrbætur í mannréttindamálum. Það jafngildir því að hver nemandi í dagskóla FAS hafi safnað rúmlega 20 undirskriftum sem er frábært að sögn Magnúsar. Það er afar mikilvægt að láta sig sjálfsögð mannréttindi annarra varða og vonumst við til að nemendur og allir aðrir haldi áfram að styðja starfsemi samtakanna.
Þá má einnig geta þess að í vikunni fengu hornfirsk ungmenni viðurkenningu fyrir þátttöku í skuggakosningum sl. haust í tengslum við alþingiskosningar, en því verkefni er ætlað að vekja athygli á lýðræði og auka kjörsókn í kosningum. Nemendaráð skipulagði þær kosningar og stefna einnig á að halda skuggakosningar í tengslum við sveitarstjórnarkosningar í vor.
[modula id=“9744″]