“Ég á heima hér” varð nemanda í FAS að orði í skólaheimsókn í Reykjavík í vikunni en hópur nemenda og kennara af Menningar- og listasviði FAS í tveggja daga námsferð til Reykjavíkur. Markmið ferðarinnar var að kynna nemendum þær námsleiðir sem í boði eru eftir nám í framhaldsskóla en mikill áhugi er á skapandi greinum meðal nemenda FAS um þessar mundir. Í ferðinni var farið í Kvikmyndaskóla Íslands, Ljósmyndaskólann og Listaháskóla Íslands. Auk þess var farið í skoðunarferð í Þjóðleikhúsið og á sýningu útskriftarnema Ljósmyndaskólans. Einnig var hópurinn svo heppinn að hitta á generalprufu á söngleiknum Framleiðendunum sem Nemendafélag Versló frumsýnir nú um helgina.
Hvarvetna var vel tekið á móti hópnum og góður rómur gerður að áherslu FAS á hinar skapandi greinar. Ferðin var afar lærdómsrík og skólaheimsóknirnar höfðu mikil áhrif á nemendur. Nokkur höfðu á orði að þau væru þegar staðráðin í að sækja um skólavist, svo hrifin voru þau af því sem fyrir augu bar.
[modula id=“9741″]
Við Heinabergsjökul
Um liðna helgi var undirrituð tilnefning þess efnis að Vatnajökulsþjóðgarður verði á heimsminjaskrá UNESCO. Í því samhengi hafa augu beinst að rannsóknum og námi í náttúrufræði í FAS. Frá 1990 hafa nemendur tekið virkan þátt í því að fylgjast með umhverfinu, fyrst í tengslum við jöklamælingar og síðar gróðurframvindu og fuglatalningum. Er þetta meðvitaður liður í því að fá nemendur til að skoða nærumhverfi sitt.
Í morgun var morgunþáttur Rásar eitt helgaður tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs og var rætt við þá sem að málinu komu. Einnig var rætt við Eyjólf skólameistara um nám í skólanum sem tengist þjóðgarðinum.
Fyrir þá sem ekki heyrðu er hægt að nálgast upptöku af þættinum í Sarpinum. Viðtalið við Eyjólf byrjar eftir eina klukkustund og rétt tæplega 19 mínútur.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ásamt Hildi áfangstjóra og Eyjólfi skólameistara.
Það var margt góðra gesta á Hornafirði í gær en verið var að undirrita tilnefningu um að Vatnajökulsþjóðgarður og hluti gosbeltisins verði tilnefnd á heimsminjaskrá UNESCO. Það voru Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra sem undirrituðu tilnefninguna fyrir hönd íslenska ríkisins.
Í morgun heimsótti menntamálaráðherra FAS áður en flogið var til Reykjavíkur. Hún skoðaði skólann og kynnti sér starfsemina í Nýheimum. Einnig var farið í Vöruhúsið og skoðað hvað er í gangi þar. Í kynningu um FAS var talað um hversu mikilvægt fjarnám er í starfi skólans, Fjarmenntaskólann, áhersluna á lista- og menningarnám, fjallamennskunám og vísindaferðir. Ráðherra fannst mjög áhugavert að þessi litli skóli skuli bjóða upp á jafn fjölbreytt nám og raun ber vitni.
Við hér í FAS er afar ánægð með að hún skyldi hafa gefið sér tíma til að líta inn og þökkum henni kærlega fyrir komuna.
Á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins er að finna meðfylgjandi frétt þar sem sagt frá heimsókn ráðherra í FAS.
Í gærkveldi stóð viðburðaklúbbur FAS fyrir mexíkóskri veislu á Nýtorgi. Fyrir þá sem ekki þekkja til mexíkóskrar matargerðar þá er hún litrík, með alls kyns sósum og auðvitað kitlar hún bragðlaukana.
Til veislunnar mættu tæplega tuttugu krakkar sem gæddu sér á ljúffengum mat og spjölluðu saman undir suður-amerískri tónlist. Allir voru mjög sáttir og höfðu gaman að þessari kvöldstund.
Það er mjög mikilvægt að breyta stundum til og prófa eitthvað nýtt og þessi kvöldstund í gær er ágætis dæmi um slíkt. Við hvetjum alla þá sem sátu heima núna að koma og vera með næst. Félagslífið verður skemmtilegra þegar fleiri mæta.
[modula id=“9740″]
Silja Rut skólasálfræðingur og Ragnheiður hjúkrunarfræðingur.
Í dag mættu til okkar í FAS þær Ragnheiður skólahjúkrunarfræðingur og Silja Rut sem er sálfræðingur hjá skólunum á Hornafirði á því sem við köllum uppbrot í skólastarfi.
Ragnheiður kynnti starfssvið sitt í skólanum og fjallaði einnig um mikilvægi þess að rækta sjálfan sig bæði líkamlega og andlega.
Silja lýsti algengum atriðum í kvíða og hvernig kvíði geti leitt til líkamlegra einkenna. Kvíði er upp að vissu marki eðlilegt ástand en ef kvíði varir lengi er hætta á að einstaklingur þrói með sér þunglyndi. Þunglyndi hefur farið vaxandi á heimsvísu og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO stefnir í að þunglyndi verði næst stærsta heilsufarsvandamáli í heiminum. Mikilvægur þáttur til að sporna við þunglyndi er að beita hugrænni atferlismeðferð HAM. Hér er hægt að finna upplýsingar um HAM og hvar sé hægt að leita hjálpar.
Ragnheiður leggur mikla áherslu á að hún sé hér til staðar fyrir nemendur og sé tilbúin til að hjálpa sé þess kostur. Auk þess að hafa fasta viðveru í FAS á þriðjudögum á milli 8 og 12 er alltaf hægt að senda henni póst eða skilaboð á fésbókinni. Ragnheiður sér jafnframt um að vísa málum áfram til Silju Rutar telji hún ástæðu til.
Við hvetjum alla þá sem telja til þess ástæðu að nýta sér þessa einstöku þjónustu. Það á bæði við um nemendur og foreldra.
Eins og mörgum er kunnugt um hefur verið að fækka í árgöngum í sveitarfélaginu. Til að geta haldið uppi fjölbreyttu námsframboði hefur FAS brugðið á það ráð að endurskipuleggja og bæta fjarnámið með það í huga að fjölga nemendum.
Á þessari önn eru um 90 nemendur sem stunda fjarnám í FAS og er það umtalsverð fjölgun frá síðustu önn. Um tuttugu þessara nemenda koma frá Fjarmenntaskólanum en það er samstarfsvettvangur þrettán framhaldsskóla á landsbyggðinni. Margir nemendur eru í fleiri en einum áfanga og núna hafa 14 nemendur í hyggju að ljúka stúdentsprófi frá FAS í fjarnámi. Í velflestum áföngum á stúdentsbrautum eru 5 – 10 fjarnemendur og í sumum áföngum eru fleiri í fjarnámi en mæta í stofu.
Það virðist skipta marga nemendur máli að FAS hefur tekið upp breytt fyrirkomulag á lokamati sem er samtal nemenda og kennara í stað lokaprófs. Það hefur oft komið fram að margir eru haldnir prófkvíða og hafa ekki treyst sér í nám og eru tilbúnir að prófa nýtt fyrirkomulag.