Í fréttum er þetta helst

Gestirnir okkar í síðustu viku fóru ekki varhluta af vatnsveðrinu mikla. Það þurfti að gera smávægilegar breytingar dagskránni en það kom þó ekki að sök. Í vikunni voru m.a margir frumkvöðlar heimsóttir og þökkum við þeim kærlega fyrir móttökurnar.

Leiðin frá Höfn var þó lengri en gert var ráð fyrir í upphafi því eins og allir vita eyðilagðist brúin yfir Steinavötn. Það var því ekki um annað að ræða fyrir erlendu gestina en að fara norður fyrir. Hópurinn lagði af stað klukkan 6 á laugardagsmorgun í rútu og ferðalagið tók um 14 tíma til Keflavíkur en gestirnir frá Grikklandi áttu flug heim um miðnætti.

Í þessari viku standa svo yfir miðannarviðtöl. Þá hitta nemendur kennara sína í hverju fagi og fara þeir saman yfir stöðu mála. Eins og áður eru gefnar einkunnirnar G (góður árangur), V (viðunandi árangur) og O (óviðunandi árangur). Miðannarmatið er sett í Innu og geta nemendur séð matið þar. Í næstu viku verður útprentun af miðannarmatinu sent heim til þeirra sem eru yngri en 18 ára. Við hvetjum foreldra/aðstandendur til að ræða miðannarmatið við sinn ungling því það er mikilvægt að foreldrar viti af stöðu mála og geti hvatt sitt fólk áfram.

Fjölþjóðlegt í FAS

Það má með sanni segja að þessa vikuna ríki fjölþjóðlegt yfirbragð í FAS en hér eru staddir gestir frá samstarfsskólunum í Erasmus + verkefninu „Sharing competencies in entrepreneruial learning“ sem er verkefni í frumkvöðlafræði. Það verkefni hófst haustið 2016 og taka fimm lönd þátt í því. Auk Íslands eru það Eistland, Grikkland, Ítalía og Lettland og eru bæði nemendur og kennarar í gestahópnum. Eins og í fyrri samstarfsverkefnum gista nemendur hjá okkar nemendum í FAS sem taka þátt í verkefninu.
Dagskráin er þétt skipuð á meðan gestirnir staldra við. Á morgun (miðvikudag) klukkan 10:20 kynna þeir lönd sín fyrir nemendum FAS og þá er nokkrum tíma varið í að skoða Nýheima og Vöruhúsið. Megnið af tímanum er þó tengt þema verkefnisins sem er frumkvöðlafræði. Fyrirhugað er að heimsækja nokkra frumkvöðla hér á Höfn en mestur tíminn fer þó í að vinna í hópum að ýmsum verkefnum. Það verður spennandi að fylgjast með þeirri vinnu.

Kræsingar í Nýheimum

Góðgjörðir í Nýheimum.

Í Nýheimum er fjölbreytt mannlíf og oft margt um manninn. En það er þó langt í frá að allir þekki alla eða viti við hvað íbúar hússins starfa dags daglega. Því var í haust ákveðið að efna nokkrum sinnum á önninni til kaffisamsætis þar sem fólk úr ólíkum áttum kæmi saman yfir góðgjörðum,  rabbaði saman og kynntist um leið.

Fyrsta kaffiboðið var haldið í morgun og voru það starfsmenn á háskóla- og frumkvöðlagangi sem sáu um veitingarnar og þar var ekkert skorið við nögl.

Þessu nýmæli var vel tekið og það var líf og fjör á Nýtorgi í kaffitímanum. Við erum strax farin að hlakka til næsta samsætis sem verður eftir um mánuð.

Lista- og menningarsvið í FAS

Lista- og menningarhópurinn við vinnu í Vöruhúsinu með Stefáni Sturlu.

Eflaust muna margir eftir leiksýningunni „Pilti og stúlku“ sem var sett upp á síðustu vorönn við frábærar undirtektir. Leikstjóri þar eins og svo oft áður undanfarin ár var Stefán Sturla Sigurjónsson. Í vinnunni síðasta vetur með krökkunum vaknaði sú hugmynd hjá Stefáni að gaman væri að tengja leiksýningar í skólanum við aðra áfanga í skólanum. Vel var tekið í þá hugmynd innan skólans og í kjölfarið var farið að huga að útfærslu á verkefninu. Þá strax var ákveðið að vinna með Ronju ræningjadóttur og yrði verkið jafnframt nokkurs konar kjarni í mörgum fögum innan skólans.
Á þessari önn eru 20 nemendur skráðir á lista- og menningarsvið í FAS og það er Stefán Sturla sem heldur utan um hópinn og leiðir vinnuna. Á haustönninni fer fram hugmyndavinna, skilgreiningarvinna og í lokin munu nemendur koma með hugmynd að útfærslu að listformi. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur ljúki vinnunni á haustönninni heldur haldi áfram að vinna að listsköpun sinni. Möguleg framsetning á endanlegri útfærslu gæti verið; ritlist, myndlist, sjónlist, sviðslist/leiklist, hljóðlist og vídeólist.
Þessi aðferðafræði er þekkt víða erlendis en fullvíst má telja að ekki hefur mikið verið unnið á þennan hátt hérlendis. Það verður því mjög spennandi að fylgast með þessari vinnu og sjá hvernig þróunin verður.

Fjör á bökkum Laxár

Fimmtudaginn 14. september hélt Nemendafélag FAS brennu til að heiðra komu nýrra nemenda við skólann. Brennan var haldin niður við Laxá í Nesjum, og fóru nemendur þangað með rútu. Við komu nemendanna voru grillaðar pylsur. Þegar allir voru orðnir saddir og sælir var tendrað í bálkestinum við söng Vilhjálms Magnússonar, trúbadors, sem sá um að halda uppi stuðinu það sem eftir lifði kvölds. Að sjálfsögðu voru svo grillaðir sykurpúðar á boðstólnum sem nemendur gæddu sér á undir lokin.

Það má með sanni segja að kvöldið hafi heppnast vel, stemningin var hugguleg og veðrið var okkur einstaklega í haginn. Bálið logaði vel og lengi í logninu, og hlýjan frá því varð til þess að kuldinn kom ekki að sök. Síðast en ekki síðst skemmdi það ekki fyrir að norðurljósin dönsuðu um himininn á meðan hlýtt var á, og tekið undir með söng Villa.

[modula id=“9731″]

Samstarf við Hótel Höfn

Frá undirritun samings um starfsnám.

Á miðvikudag voru undirritaðir samningar milli Hótels Hafnar, FAS og þriggja starfsmanna hótelsins. Samningurinn er um starfsnám í framreiðslu og matreiðslu sem fer fram samhliða vinnu á hótelinu en er jafnframt nám í FAS sem heitir vinnustaðanám. Samkvæmt samningnum þurfa nemendur að vinna 300 klukkustundir á önninni og hluti af þeirri vinnu felst í að leysa verkefni og eiga samskipti við umsjónarmann námsins og samstarfsfólk á hótelinu. Fyrir þetta fá nemendur 15 einingar sem teljast inn í nám nemenda. Zophonías Torfason sér um námið af hálfu FAS og Fanney Björg Sveinsdóttir, hótelstjóri fyrir hönd hótelsins.

Um er að ræða þróunarverkefni sem hefur verið að mótast undafarna mánuði í samstarfi hótelsins og FAS sem vonandi er upphafið að frekara samstarfi og eflir um leið kennslu og þjálfun í þjónustugreinum á svæðinu.