Í morgun hófust í FAS opnir dagar en ganga líka undir nafninu fardagar. Þeir framhaldsskólar sem eiga hlut að Fjarmenntaskólanum bjóða upp á fardaga og geta nemendur sem það vilja farið í heimsókn í einhvern skólanna og tekið þátt í viðburðum sem eru í boði þar. Að þessu sinni fóru fjórir nemendur í heimsókn í ME og taka þátt í dagskránni þar.
Hér í FAS eru nokkrir hópar að störfum og eru viðfangsefnin margvísleg. Það er t.d. verið að vinna að því að gefa út skólablað og undirbúa árshátíð sem þó verður ekki haldin fyrr en eftir páska. Einhverjir hópar vinna að listum þessa dagana og eru t.d. að taka ljósmyndir eða vinna í Vöruhúsinu. Leiklistarhópurinn er með sýningar á Ronju ræningjadóttur.
Einn hópurinn tók að sér að breyta einni kennslustofunni og gera hana vistlegri. Þá hefur hópur unnið að dagskrárgerð fyrir útvarp og verður sent út á morgun milli 10 og 16 og á föstudag frá 10 – 14. Hér er hægt að hlusta á Útvarp FAS.
Á föstudag munu svo hóparnir kynna afrakstur vinnunnar. – Hér eru nokkrar myndir frá því í dag.
[modula id=“9745″]
Vífill á hugarflugi.
Á yfirstandandi önn er kenndur framhaldsáfangi í myndlist og þar er sérstaklega verið að beina sjónum að náttúrusýn. Í upphafi annar fengu nemendur kynningu á skissubókum og fyrirlestra um náttúrusýn í myndlist út frá sýningum sem kennari hefur sett upp.
Dagana 22. – 25. febrúar kom hingað til okkar Einar Garibaldi kennari í Myndlistaskólanum og var með innlegg í kennsluna. Verkefnið kallaðist Leiðin heim og var unnið í nokkrum þáttum. Fyrsta daginn voru teknir niður minnispunktar um allt það sem vakti athygli á heimleið úr kennslustund. Verkefnið felur í sér að finna, greina og setja í samhengi öll þau merkingarbæru fyrirbæri sem finna má í umhverfi okkar. Næsta dag voru teknar ljósmyndir af því sem vakti athygli á leið að heiman og í kennslustund. Valdar voru saman þrjár til fimm ljósmyndir og unnið hugarkort út frá þeim. Það átti að tengja saman þær fjölbreyttu hugrenningar og upplifanir, jafnt þær augljósu sem hinar fjarstæðukenndustu.
Síðasta daginn var farið yfir það efni sem að nemendur voru komnir með og þeim gert að halda skissubók um ferðir sínar úr og í skóla/vinnu næstu vikurnar sem sýnir fram á þróun í hugrenningartengslum (skissubók, dagbók, hugarkort, skókassa, blogg, o.s.frv.).
Markmiðið er að nemendur tileinki sér ólíkar vinnureglur og kanni fjölbreyttar nálgunaraðferðir sem leið til að gera drög að sjálfstæðu verkefni í teikningu.
Það sem eftir lifir annar halda nemendur áfram að vinna og það verður spennandi að sjá útkomuna í vor.
Í þessari viku var farið í aðra fuglatalningu vetrarins í Ósland. Þó aðalerindið sé að telja fugla er reynt að beina sjónum að því sem sést hverju sinni. Auk fuglanna mátti t.d. sjá nokkra seli sem svömluðu skammt frá landi og þá var hreindýr á vappi við Óslandstjörnina en þetta dýr er búið að vera í Óslandi síðustu vikurnar.
Á röltinu í Óslandinu komumst við að því að fyrstu farfuglarnir eru farnir að birtast og hafa bæði sílamávur og álftir sést hér nýverið. Nokkrir tjaldar spókuðu sig í fjörunni í leit að æti en það eru mjög líklega fuglar sem hafa haft hér vetursetu en það eru alltaf nokkrir fuglar sem fara ekki á haustin. Þá mátti sjá að loðvíðirinn er farinn að lifna aðeins við.
Það er alltaf ánægjulegt þegar vorboðar fara að láta á sér kræla. Nú er líka orðið bjart þegar skóli hefst á morgnana og sólin farin að verma. Allt eru þetta merki um að vorið sé í nánd.
[modula id=“9746″]
Unnið að uppsetningu á Ronju.
Þeir sem hafa lagt leið sína í Nýheima síðustu daga og vikur hafa eflaust tekið eftir breytingum á Nýtorgi. Það eru nemendur á lista- og menningarsviði FAS í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar og Tónskólann sem hafa verið að breyta Nýheimum í leikhús.
Allt frá því í haust hafa nemendur verið að vinna með verkefnið Ronja ræningjadóttir og hafa unnið m.a. nýja leikgerð sem verður frumsýnd laugardaginn 3. mars næst komandi.
Allt frá byrjun febrúar hefur verið unnið ötullega að því að hanna og smíða leikmynd, sauma búninga og æfa tónlist fyrir sýninguna. Í tengslum við þessa sýningu hafa fleiri svið lista og menningar skólans unnið að verkefnum tengdum sýningunni. Þannig hafa nemendur í fatasaum séð um að hanna og sauma búninga, nemendur í ljósmyndun hafa séð um myndatöku fyrir leikskrá og nemendur í myndlist hafa gert þær grímur sem eru notaðar í sýningunni. Það er Stefán Sturla sem stýrir lista- og menningarsviði FAS og leikstýrir sýningunni og Jóhann Morávek er tónlistarstjóri sýningarinnar.
Ronja verður frumsýnd 3. mars og er uppselt á þá sýningu. Leikritið verður einnig sýnt sunnudaginn 4. mars, miðvikudaginn 7. mars og föstudaginn 9. mars. Allar sýningarnar hefjast klukkan 20. Aðstandendur sýningarinnar mæla ekki með að áhorfendur séu yngri en sex ára. Ragnheiður Rafnsdóttir tekur á móti miðapöntunum í síma 8929707.
Pælt í förðun og hárgreiðslu.
Fæðsla um flokkun.
Í áfanganum umhverfis- og auðlindafræði er meðal annars verið að fræðast um allt ruslið sem mannfólkið lætur frá sér en rusl og förgun þessa er víða mikið vandamál. Ruslið er líka „misgott“ því sumt er hægt að endurvinna á meðan annað rusl eyðist seint eða illa eins og til dæmis plastið. Til að minnka ruslið skiptir miklu máli að hver og einn leggi sitt af mörkum og tileinki sér lífsstíl sem miðar að því að minnka rusl.
Nemendur áfangans fóru í heimsókn í Gáruna í dag til að kynna sér flokkun og fræðast um það hvað verður um ruslið. Það kom mörgum á óvart að heyra að það séu mikil verðmæti fólgin í sorpi og að best sé að vanda flokkunina til að ágóði verði sem mestur.
Við skoðuðum sérstaklega gáminn með lífræna úrganginum og það vakti eftirtekt að það var nánast engin lykt. Einnig fengum við að sjá jarðveg sem hefur verið búinn til úr kurluðu timbri og lífrænum úrgangi en það verður að næringarríkri mold.
Við lífræna sorpið.
Síðustu daga hefur nemendafélagið í FAS staðið fyrir vinadögum. Allir sem vildu gátu tekið þátt og var þátttaka góð. Það hefur mátt sjá marga nemendur vera að laumupokast með snotra pinkla og hafa jafnvel kennarar verið notaðir til að koma pökkunum til skila.
Í gær var svo komið að því að ljóstra upp um leynivinina. Af því tilefni voru bakaðar kökur á Kaffi horninu og nemendafélagið fékk að skreyta litla salinn. Það var ágætlega mætt og voru veitingum gerðar góð skil.
Þetta er frábært framtak hjá nemendafélaginu og góð tilbreyting. Vonandi eru vinadagar komnir til að vera.
[modula id=“9743″]