Það var föngulegur hópur sem steig upp í rútu núna í morgun og samanstóð hópurinn bæði af nemendum og kennurum. Ferðinni var heitið inn að Lindabakka en búið var að ákveða að ganga þaðan upp Krossbæjarskarð og yfir að réttinni í Laxárdal.
Tilgangur ferðarinnar var fyrst og fremst að bjóða nýnema velkomna í skólann. Á gönguferð sem þessari geta nemendur bæði eldri og yngri og svo kennarar blandað geði og kynnst á öðrum vettvangi en í skólastofunni. Ekki spillti fyrir að veður var ljómandi gott og fjörðurinn okkar skartaði sínu fegursta.
Það er skemmst frá því að segja að ferðin gekk ljómandi vel og allir sáttir. Þegar hópurinn kom til baka í Nýheima var búið að grilla hamborgara sem voru gerð góð skil enda allir orðnir svangir eftir útiveruna.
[modula id=“9758″]