Ferð að Fláajökli

Í dag var farið í árlega mælingaferð að Fláajökli. Það er Náttúrustofa Suðausturlands sem hefur umsjón með verkefninu en fyrir fáum árum var ákveðið að nemendur í jarðfræði í FAS fái að fara með og kynnast vinnubrögðunum við jöklamælinguna. Við mælingar á jöklinum er stuðst við GPS punkta og með því má fá mun nákvæmari niðurstöður en þegar beitt er t.d. þríhyrningamælingum. Upplýsingarnar eru settar í GIS gagnagrunninn sem er stafrænt landfræðilegt upplýsingakerfi sem m.a. vinnur út frá gögnum frá gervihnöttum. Út frá þessum upplýsingum er hægt að teikna mynd af stöðu jökulsins á hverjum tíma.

Það er einstaklega fallegur dagur í Hornafirði í dag og aðstæður til mælinga hinar ákjósanlegustu. Miklar breytingar eru á svæðinu fyrir framan Fláajökul frá því að síðast var farið. Næstu daga verður svo unnið úr niðurstöðunum. Það verður spennandi að sjá samanburð frá því í fyrra.

 

[modula id=“9728″]

Vímuefnaneysla ungmenna

Miklar breytingar eiga sér stað á unglingsárunum og má segja að um eitt mesta breytingaskeið sé að ræða á lífsleiðinni.   Auk líkamlegra breytinga verður sýn unglinga á lífið annað ásamt því að væntingar annara til þeirra breytist.

Samkvæmt lögum er óheimilt að selja, veita eða afhenda ungmennum undir 20 ára aldri áfengi. Þessi lög eru sett til þess að vernda heilsu ungs fólks.  Áfengisneyslu geta fylgt ýmis vandamál, félagsleg og persónuleg sem hafa áhrif á einstaklinginn sjálfan og þá sem að honum standa.  Á árunum til tvítugs og jafnvel lengur er mikill líkamlegur þroski í gangi m.a. í heila og taugakerfi en áfengisneysla á þessum árum hefur því mjög slæm áhrif á líf og þroska ungmenna.  Neysla áfengis getur skaðað ákveðnar heilastöðvar fyrir lífstíð og því mikilvægt að fresta neyslu ungmenna á áfengi og öðrum vímugjöfum eins lengi og hægt er.

En hvernig frestum við drykkju og vímuefnaneyslu ungmenna?

Sýnt hefur verið að verndandi þættir felast  t.d. í skipulögðu félagsstarfi og íþróttum. Í skipulögðu félagsstarfi og íþróttum gefst ungmennum tækifæri á að taka virkan þátt og við það eflist sjálfsálitið og sjálfsmyndin.  Þeir unglingar sem hafa sterka sjálfsmynd eru yfirleitt hugrakkir og þora að taka góðar ákvarðanir fyrir sig, þora að segja nei við hlutum sem þau vita að eru ekki góð fyrir þau.   Þrátt fyrir að reglur  gildi um hluti eins og áfengisneyslu þá berum við sjálf að lokum alltaf ábyrgð á ákvörðunum okkar og stöndum og föllum með þeim eins og öðrum ákvörðunum sem við kunnum að taka á lífsleiðinni.

Þeir unglingar sem stunda íþróttir eða líkamsþjálfun reglulega eru líklegri til að upplifa betri líðan en öðrum jafningjum og eru þar að auki ólíklegri til að neyta áfengis og annara vímuefna en jafningjar.  Þjálfarar og leiðbeinendur eru í lykilstöðu til að hafa áhrif á ungmennin með því að leggja áherslu á forvarnir gegn vímuefnum en einnig með að sýna áhuga, gott fordæmi,  vera hvetjandi og sýna skilning. Íþróttafélögin gegna í raun mjög mikilvægu hlutverki í þessu sambandi og ættu að vera leiðandi í allri forvarnarvinnu.

Stuðningur foreldra er mjög mikilvægur og því meiri stuðning sem unglingar fá að heiman því ólíklegri eru þau til að neyta áfengis og vímuefna. Samvera unglinga við foreldra sína og fjölskyldur hefur verndandi áhrif og er mjög jákvæð. Verum ekki hrædd við að draga unglingana okkar með  út í gönguferðir, á kaffihús eða í bíltúr. Spilakvöld eru frábær samvera ásamt góðu spjalli. Gleymum ekki að við foreldrar erum fyrirmyndir og afstaða okkar skiptir máli.

Hreyfing og líkamleg þjálfun er mikilvæg fyrir alla en þátttaka í íþróttum tengist ekki bara líkamlegri heilsu heldur hefur sýnt sig að minnki líkur á þunglyndi, streitu og kvíða ásamt því að hafa áhrif á hegðun eins og minni neyslu á áfengi og fíkniefnum.

Unglingar eyða stórum hluta dagsins í skólanum og skólinn er því góður vettvangur fyrir forvarnir sem eiga við vímuefnaneyslu.  Gott samstarf milli heimila og skóla er mikilvægt til að styðja við vímuefnaforvarnir en einnig er samstarf við aðrar stofnanir samfélagsins nauðsynlegar og ber að nefna lögreglu og heilbrigðiskerfið í því samhengi.

Að þessu sögðu, langar mig að við tökum öll höndum saman og styðjum ungmennin okkar og sýnum þeim áhuga og virðingu. Við getum kannski gert lítið eitt og eitt en saman erum við öflugri. Það þarf nefnilega allt samfélagið að leggjast á eitt og það er trú mín að ef við gerum það munu þau vaxa og dafna sem best á þessu svo kallaða breytingarskeiði sem endar með fullorðinsárum.

Með þessari grein vil ég vekja athygli á vímuefnaneyslu ungmenna, forvörnum og skapa umræðugrundvöll fyrir okkur öll til að finna þessu málefni góðan farveg í allra þágu.

Ragnheiður skólahjúkrunarfræðingur
Grunnskóla Hornafjarðar og Framhaldsskólans í A-Skaftafellssýslu.

Skuggakosningar í FAS

Framboðsfundur í FAS

Eins og eflaust flestir vita á að kjósa til Alþingis laugardaginn 28. október næst komandi. Mikið hefur verið rætt um að þátttaka ungs fólks í kosningum fari minnkandi. Engu að síður er þó afskaplega mikilvægt að ungt fólk móti sér skoðanir og taki þátt í kosningum og verði þá um leið virkir þjóðfélagsþegnar. Á því byggir lýðræðið.
Í dag, miðvikudag 11. október komu nokkrir frambjóðendur til að kynna stefnu sinna flokka fyrir nemendur í FAS. Nánar er hægt að lesa um stefnumál flokkanna hér.

Á morgun, 12. október fara svo fram skuggakosningar í FAS. Þá geta nemendur kosið og munu kosningarnar fara fram í stofu 205 frá 9:00 – 16:00. Við hvetjum alla nemendur til að mæta á kjörstað og kjósa og láta þar með í ljós vilja sinn.

Rýnt í umhverfið

Það er margt í umhverfi okkar sem við veitum ekki athygli dags daglega en er þó sannarlega þess virði að eftir því sé tekið. Í dag brugðu nemendur sér á lista- og menningarsviði í FAS í vettfangsferð um Höfn með það að markmiði að veita umhverfinu athygli og jafnvel að nýta það til að veita sér innblástur.

[modula id=“9730″]

 

Spilakvöld í Nýheimum kl 20:00

Annað kvöld, fimmtudaginn 5. október, kl 20:00 mun Nýheimar þekkingasetur standa fyrir spilakvöld í Nýheimum. Albert Eymundsson ætlar að kenna fólki að spila Hornafjarðarmanna eða manna eins og margir kalla spilið. Það var töluvert spilað á árum áður en þá voru hvorki tölvur né sjónvarp til að stytta fólki stundir. Þegar Höfn fagnaði 100 ára afmæli sínu árið 1997 endurvakti Albert spilið og síðan þá hefur það verið spilað reglulega. Þannig eru haldin árlega t.d. heimsmeistaramót og Íslandsmeistaramót.
Árið 2004 var haldið fyrsta framhaldsskólamótið í Hornafjarðarmanna og auðvitað var það Albert sem kom þar við sögu. Síðan þá hefur Hornafjarðarmanni verið árlegur viðburður í opinni viku sem er á vorönninni. Nú viljum við hvetja nemendur til að nýta tækifærið og mæta í Nýheima til að læra þetta ágæta spil og um leið að undirbúa sig fyrir komandi mót í Hornafjarðarmanna sem verður spilað í mars á næsta ári.

Í fréttum er þetta helst

Gestirnir okkar í síðustu viku fóru ekki varhluta af vatnsveðrinu mikla. Það þurfti að gera smávægilegar breytingar dagskránni en það kom þó ekki að sök. Í vikunni voru m.a margir frumkvöðlar heimsóttir og þökkum við þeim kærlega fyrir móttökurnar.

Leiðin frá Höfn var þó lengri en gert var ráð fyrir í upphafi því eins og allir vita eyðilagðist brúin yfir Steinavötn. Það var því ekki um annað að ræða fyrir erlendu gestina en að fara norður fyrir. Hópurinn lagði af stað klukkan 6 á laugardagsmorgun í rútu og ferðalagið tók um 14 tíma til Keflavíkur en gestirnir frá Grikklandi áttu flug heim um miðnætti.

Í þessari viku standa svo yfir miðannarviðtöl. Þá hitta nemendur kennara sína í hverju fagi og fara þeir saman yfir stöðu mála. Eins og áður eru gefnar einkunnirnar G (góður árangur), V (viðunandi árangur) og O (óviðunandi árangur). Miðannarmatið er sett í Innu og geta nemendur séð matið þar. Í næstu viku verður útprentun af miðannarmatinu sent heim til þeirra sem eru yngri en 18 ára. Við hvetjum foreldra/aðstandendur til að ræða miðannarmatið við sinn ungling því það er mikilvægt að foreldrar viti af stöðu mála og geti hvatt sitt fólk áfram.