Framhaldsskólar á Íslandi eiga sér hagsmunafélag nemenda og heitir það félag Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF). Sér það meðal annars um sameiginlega viðburði fyrir nemendafélögin eins og t.d. MORFís og Gettu betur. Núna eiga 32 framhaldsskólar á Íslandi aðild að SÍF.
Um síðastliðna helgi fór fram aðalþing SÍF þar sem hefðbundin aðalfundarstörf fara fram eins og t.d. að kjósa í stjórnir og marka helstu áherslur. Nú var sérstaklega fjallað um aukna þörf fyrir sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum og málefni innflytjenda og nemenda með fötlun.
Héðan frá FAS fóru þrír nemendur og mun þátttaka þeirra á þinginu gagnast inn í félagsstörf skólans á komandi vetri.
Síðasta fimmtudag og föstudag var haldinn haustfundur Ungmennaráðs Suðurlands en þar á FAS einn fulltrúa. Þar var margt rætt en sérstaklega var fundargestum hugleikinn skortur á námsráðgjöfum í bæði grunn- og framhaldsskólum. Einnig var rætt um versnandi fjármælalæsi ungs fólks, jafningjafræðslu, fíkniefnavanda og kynjafræði. Á fundinn komu gestir frá SASS (Samband sunnlenskra sveitarfélaga) og munu þeir vinna áfram með niðurstöður fundarins.
Það er frábært að unga fólkið okkar skuli eiga fulltrúa á báðum þessu stöðum og hafa um leið tækifæri til að fylgjast með því helsta sem er á döfinni hverju sinni.