Líkt og undanfarin ár hefur tómstundastarf í FAS farið fram í gegnum klúbba. Einn klúbbanna sem er starfræktur kallast viðburðaklúbbur og eins og nafnið segir til um stendur hann fyrir ýmsum uppákomum.
Á miðvikudagskvöldið stóð klúbburinn fyrir bíókvöldi í skólanum. Horft var á myndina The Impossible. Áður en myndin hófst gæddu bíógestir sér á pizzum og létu síðan fara vel um sig á dýnum sem þeir fengu að láni í íþróttahúsinu. Það var ljómandi góð mæting og almenn kátína með viðburðinn. Þá voru húsverðirnir sérstaklega ánægðir með góða umgengni. (Að þessu sinni gleymdist að taka mynd en úr því verður bætt í næsta viðburði).
Í næstu viku er ætlunin að blása til dansleiks í Sindrabæ og er líklegt að Óli Geir muni „þeyta skífurnar“ og halda uppi fjörinu. Ballið mun verða auglýst nánar þegar nær dregur.