Geðfræðsla á vegum Hugrúnar

Nýnemadagur 2017.

Mánudaginn 9. apríl mun Geðverndarfélagið Hugrún vera með fræðslu og umræður um geðheilbrigði við nemendur FAS.  Þessi fræðsla er liður í heilsueflingu framhaldsskólans.  Reiknað er með um 60 – 90 mínútum svo allir ættu að geta gefið sér tíma í þetta mikilvæga málefni sem varðar okkur öll.
Hugrún var stofnað vorið 2016 af nemendum í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði við Háskóla Íslands. Síðan þá hafa fjölmargir aðilar komið að starfi félagsins úr ýmsum greinum háskólans og víðar. Félagið hefur það að markmiði að fræða ungt fólk um geðheilbrigði, geðsjúkdóma og úrræði, sem og að auka samfélagslega vitund.
Undanfarið hefur mikið verið rætt um mikilvægi þess að hægt sé að leita sér hjálpar þegar geðrænir erfiðleikar steðja að. Það er því frábært að nemendum FAS gefist kostur á þessari fræðslu. Við hvetjum alla til að koma og kynna sér málið.
Fræðslan í FAS verður á Nýtorgi og hefst klukkan 14:00.

Vel heppnuð árshátíð

Þessi hlutu viðurkenningar ýmissa hluta vegna.

Árshátíð Nemendafélags FAS var haldin í gær á Hafinu. Hátíðin tókst mjög vel og þeir sem mættu skemmtu sér konunglega.  Matarföng komu frá Kaffi Horninu og eftir borðhald og skemmtun spiluðu Birnir og Herra Hnetusmjör ásamt fleirum.
Nemendaráð og viðburðaklúbbur FAS sáu um allan undirbúning og óhætt er að hrósa því fólki fyrir sína vinnu því allt skipulag og framkvæmd var til fyrirmyndar. Einnig voru nokkrir foreldrar og kennarar í gæslu og lögðu þannig  hönd á plóginn við að efla félagslíf nemenda skólans.
Yfirbragð árshátíðar og ballsins var með þeim hætti að gleði og metnaður standa upp úr.  Okkur er að takast að þróa skemmtanamenningu ungmenna í samfélaginu í góða átt með góðri samvinnu nemenda, foreldra og skóla.

Takk öll og til hamingju.

[modula id=“9752″]

Árshátíð FAS á morgun

Loksins er komið að árshátíð FAS en hún verður haldin á morgun, fimmtudag 5. apríl á Hafinu hér á Höfn. Húsið opnar klukkan 19:30 og borðhald hefst klukkan 20. Í boði er gómsætt lambakjöt og súkkulaðikaka í eftirrétt.
Eftir borðhald hefst skemmtidagskrá þar sem m.a. verður litið á helstu viðburði vetrarins. Kynnir verður Anna Birna Elvarsdóttir sem útskrifaðist frá FAS síðasta vor.
Að skemmtidagskrá lokinni byrjar ballið og það verða Herra Hnetusmjör & Birnir sem þeyta skífum fram eftir kvöldi.
Það er mikilvægt að skrá þátttöku, sérstaklega í tengslum við matinn. Endilega skoðið fésbókarsíðu Nemendafélagsins og drífið ykkur svo af stað 🙂

Páskafrí á næsta leiti

Selir að njóta lífsins á Arfaskersnaggi.

Þegar kennslu lýkur í dag er komið páskafrí. Það má með sanni segja að það byrji vel því úti er rjómablíða og vor í lofti. Selirnir á Arfaskersnaggi sem sjást vel frá kennarastofu FAS leika á als oddi og hoppa og skoppa við skerið.
Kennsla hefst aftur miðvikudaginn 4. apríl samkvæmt stundaskrá.
Við vonum að þið eigið ánægjulegt páskafrí og komið endurnærð í lokatörn annarinnar.

Álftatalning í Lóni

Hópurinn við stórgrýtið.

Í dag fóru nemendur í umhverfis- og auðlindafræði í ferð upp í Lón. Aðaltilgangurinn var að telja álftir á Lónsfirði en einnig að skoða urðunarstað sveitarfélagsins. Með í för voru Björn Gísli frá Fuglaathugunarstöðinni og Kristín Hermannsdóttir frá Náttúrustofunni.  Veður var ljómandi gott og ákjósanlegt til útivistar.
Álftatalning hefur verið árlegur viðburður frá árinu 2010 og er þetta eitt af vöktunarverkefnum hjá FAS þar sem upplýsingum er safnað sem svo er hægt að vinna nánar úr. Reynt er að fara á svipuðum tíma á hverju ári til að niðurstöður verði sambærilegar frá ári til árs. Auk þess að telja fuglana skoðum við náttúruna og umhverfið. Þar leynist ýmislegt ef að er gáð. Þá röltir hópurinn frá útsýnisstaðnum vestan við Hvalnes langleiðina að Vík. Á leiðinni er horft eftir því sem vekur athygli. Síðustu ár hefur allt rusl verið tínt á leiðinni en það er að stærstum hluta plast.
Á leiðinni til baka var stoppað á urðunarstað sveitarfélagsins. Þar tók Bryndís Bjarnarson umhverfisfulltrúi sveitarfélagsins á móti hópnum. Við fengum fræðslu um hvernig urðunarstaðir þurfa að vera úr garði gerðir til að vera samþykktir af heilbrigðisyfirvöldum en þar er að mörgu að hyggja. Mestu máli skiptir þó að íbúar séu meðvitaðir um mikilvægi þess að minnka rusl og það er best gert með góðri flokkun.
Að þessu sinni voru taldar rúmlega 1700 álftir. Um síðustu helgi voru taldar þar um 1200 fuglar. Það segir okkur að fuglarnir séu á leiðinni til okkar og jafnframt að vorið sé í nánd.
Eftir ferðina vinna nemendur samantekt um álftina og ferðina í Lón. Líkt og með önnur vöktunarverkefni hjá FAS munu niðurstöður og myndir úr ferðinni birtast á https://nattura.fas.is/

[modula id=“9751″]

Lokahnykkur frumkvöðlaverkefnis

Hér skal bakað brauð.

Í síðustu viku dvöldu fjórir nemendur FAS í bænum Jelgava í Lettlandi við þátttöku í fjölþjóðlegu frumkvöðlaverkefni. Þetta var síðasta ferðin í verkefninu sem staðið hefur yfir síðan á haustönn 2016.  Áður höfðu nemendur frá FAS farið til Lioni á Ítalíu og Trikala í Grikklandi og s.l. haust kom stór hópur nemenda og kennara í heimsókn til Hafnar.
Í verkefninu stofna nemendur saman fyrirtæki, hanna vöru eða þjónustu, markaðssetja og selja á markaði sem haldinn var í Lettlandi s.l. laugardag.  Það er löng hefð fyrir nemendafyrirtækjum þar í landi og á markaðnum voru yfir 200 nemendafyrirtæki með sölubás.
Okkar fólk tók þátt í fjórum fyrirtækjum en alls voru sex fyrirtæki stofnuð innan verkefnisins.  Eitt fyrirtækið smíðaði símahátalara sem byggir á hljómburði en ekki rafeindatækni, annað setti upp vefsíðu sem sinnir atvinnumiðlun fyrir ungt fólk, eitt smíðaði skartgripaskrín sem hægt er að setja saman og taka sundur og einnig var fyrirtæki með þjóðlegt góðgæti til sölu. Í tveimur tilfellum voru vörurnar smíðaðar í FabLab smiðjunni í Vöruhúsinu.
Samstarfsskólarnir fimm eru þegar farnir að leggja drög að næsta verkefni. Að þessu sinni verður áhersla lögð á að skapa nýja list og menningu sem byggir á menningararfi þjóðanna, þ.e. Grikkja, Ítala, Letta, Eista og að sjálfsögðu Íslendinga.

[modula id=“9750″]