Álftatalning í Lóni

21.mar.2018

Hópurinn við stórgrýtið.

Í dag fóru nemendur í umhverfis- og auðlindafræði í ferð upp í Lón. Aðaltilgangurinn var að telja álftir á Lónsfirði en einnig að skoða urðunarstað sveitarfélagsins. Með í för voru Björn Gísli frá Fuglaathugunarstöðinni og Kristín Hermannsdóttir frá Náttúrustofunni.  Veður var ljómandi gott og ákjósanlegt til útivistar.
Álftatalning hefur verið árlegur viðburður frá árinu 2010 og er þetta eitt af vöktunarverkefnum hjá FAS þar sem upplýsingum er safnað sem svo er hægt að vinna nánar úr. Reynt er að fara á svipuðum tíma á hverju ári til að niðurstöður verði sambærilegar frá ári til árs. Auk þess að telja fuglana skoðum við náttúruna og umhverfið. Þar leynist ýmislegt ef að er gáð. Þá röltir hópurinn frá útsýnisstaðnum vestan við Hvalnes langleiðina að Vík. Á leiðinni er horft eftir því sem vekur athygli. Síðustu ár hefur allt rusl verið tínt á leiðinni en það er að stærstum hluta plast.
Á leiðinni til baka var stoppað á urðunarstað sveitarfélagsins. Þar tók Bryndís Bjarnarson umhverfisfulltrúi sveitarfélagsins á móti hópnum. Við fengum fræðslu um hvernig urðunarstaðir þurfa að vera úr garði gerðir til að vera samþykktir af heilbrigðisyfirvöldum en þar er að mörgu að hyggja. Mestu máli skiptir þó að íbúar séu meðvitaðir um mikilvægi þess að minnka rusl og það er best gert með góðri flokkun.
Að þessu sinni voru taldar rúmlega 1700 álftir. Um síðustu helgi voru taldar þar um 1200 fuglar. Það segir okkur að fuglarnir séu á leiðinni til okkar og jafnframt að vorið sé í nánd.
Eftir ferðina vinna nemendur samantekt um álftina og ferðina í Lón. Líkt og með önnur vöktunarverkefni hjá FAS munu niðurstöður og myndir úr ferðinni birtast á https://nattura.fas.is/

[modula id=“9751″]

Aðrar fréttir

Nóg að gera í lok annar

Nóg að gera í lok annar

Nú er upp runnin síðasta heila kennsluvika annarinnar og mikið um að vera. Nemendur eru í óða önn að leggja lokahönd á vinnu sína í skólanum. Á miðvikudag munu nemendur í áfanganum Hönnun og nýsköpun kynna Graffíl listahátíð sem þau eru að vinna að ásamt fleiri...

Hájöklaferð í fjallamennskunáminu

Hájöklaferð í fjallamennskunáminu

Áfanginn hájöklaferðamennska í grunnnámi fjallamennskubrautarinnar fór fram dagana 26. apríl til 1. maí á Öræfajökli. Ákveðið var að fara aðeins aðra leið en hefur verið farin undanfarin ár og lagt af stað upp Svínafellið vestanvert, gengið upp í gegnum Skörð og þaðan...

Landvarðanám FAS

Landvarðanám FAS

Í byrjun apríl lauk áfanga í landvörslu FAS í blíðskaparveðri í Skaftafelli. Landvarðanámskeið hefur lengi verið námskeið sem skólastjórnendum í FAS hefur langað til að bæta við námsbrautirnar í fjallamennsku en það tókst síðasta haust og nú hefur FAS leyfi til að...