Sigurlið Sindra

Körfuboltalið Sindra. Mynd frá Þorvarði Árnasyni.

Það eru margir í FAS sem hafa fylgst með leikjum hjá meistarfaflokki Sindra í körfubolta í vetur. Ástæðan er einföld. Margir í liðinu eru nemendur í FAS núna eða hafa verið í FAS. Liðinu hefur gengið ljómandi vel og hefur unnið hvern leikinn á fætur öðrum.
Síðasta laugardag spilaði liðið sinn mikilvægasta leik til þessa en það var hreinn úrslitaleikur um það hvort liðið kæmist upp í 1. deild en þá lék liðið við KV. Leikurinn var æsispennandi þar sem Sindri hafði þó yfirhöndina allan tímann en gestirnir gerðu hvað þeir gátu til að ná yfirhöndinni. Þegar flautað var til leiksloka var staðan 82:77 Sindra í vil.
Körfuknattleikslið Sindra mun því spila í 1. deild á komandi hausti og við hér í FAS munum örugglega halda áfram að fylgjast með ykkur. Vel gert strákar – til hamingju.

Takk fyrir frábærar móttökur

Frá uppsetningu á Ronju ræningjadóttur.

Fyrir hönd Lista- og menningarsviðs FAS vil ég þakka Hornfirðingum og öðrum gestum fyrir frábærar móttökur á leiksýningunni Ronju ræningjadóttur sem sýnd var í leikhúsi Nýheima í mars. Uppselt var á allar sýningar og sýnir það áhuga heimamanna á starfi nemenda á listabrautum FAS. Þetta gefur góð fyrirheit um að FAS sé á réttri leið með að bjóða nemendum sínum upp á nám í listgreinum. Aðsókn í námið á skólaárinu 2017 – 2018 fór fram úr björtustu vonum.
Á næsta skólaári verður boðið upp á nám í hinum ýmsu listgreinum og er von skólans og áhersla að styðja nemendur og aðstoða hvern einstakling í að finna þá leið sem hentar hverjum og einum í gegnum námið. Listnám hefur margsannað gildi sitt auk þess sem það er bæði nærandi fyrir sálina og styrkjandi.

Fjórða iðnbyltingin svokallaða er hafin. Þar sem gervigreind vélmenna er að taka við færibandavinnu gamla tímans. Í fjórðu iðnbyltingunni er hugur manneskjunnar, frumkvæði og skapandi hugsun dýrmæti framtíðarinnar. FAS er skóli sem býður nemendum sínum nám á Lista- og menningarsviði sem leiðbeinir nemendum að takast á við sjálfstæð vinnubrögð og skapandi hugsun.
Takk kæru Hornfirðingar fyrir skólaárið sem er að líða.

Stefán Sturla
umsjónarmaður og kennari Lista- og menningarsviðs FAS

Skuggakosningar í FAS

Síðustu vikur og mánuði hefur verið nokkuð fjallað um hvort lækka eigi kosningaaldur niður í 16 ár. Lögð var fram tillaga á Alþingi þar að lútandi en hún náði ekki fram að ganga. Í komandi sveitastjórnarkosningum í maí verða það því 18 ára og eldri sem fá að kjósa.
Landssamband ungmennafélaga og Samband íslenskra framhaldsskólanema standa fyrir lýðræðisátakinu #ÉgKýs. Í því felst að efla lýðræðisvitund og hvetja ungt fólk til að kjósa eftir upplýstri ákvörðun. Liður í því er að kanna hug ungmenna til þess að kosningaaldurinn verði færður niður í 16 ár.
Í dag þann 12. apríl fara fram skuggakosningar í mörgum framhaldsskólum á landinu þar sem kosið er um lækkun á kosningaldri. Slíkt hið sama gerum við hér í FAS. Kosið er í stofu 205 og verður kjörstaður opinn til klukkan 16:00 í dag. Það eru nemendur sem eru  fæddir á árunum 1996-2001 sem hafa kosningarétt. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til þess að koma við á kjörstað og kjósa. Það verður heitt á könnunni fyrir þá sem vilja þiggja kaffisopa.

Fjallamennskunám – raunfærnimat

Fjallamennskunám í FAS

Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi býður upp á raunfærnimat í fjallamennsku í samvinnu við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu, upplýsingar um fjallamennskunámið má sjá á fas.is
Raunfærnimat gefur einstaklingum með þriggja ára starfsreynslu tækifæri á að fá reynslu og þekkingu metna til eininga. Matið er fyrir 23 ára og eldri. Matsferlið er einfalt og þátttakendum að kostnaðarlausu.
Matið tekur u.þ.b. 8 klukkustundir og fer fram núna á vorönn 2018 í Nýheimum, Höfn. Verkefnisstjórar eru starfsmenn fræðslunetsins, Sólveig R. Kristinsdóttir og Sædís Ösp Valdemarsdóttir.
Nánari upplýsingar og skráning hjá Fræðslunetinu í síma 560 2030 og hjá Sædísi í síma 842 4655
Kynntu þér málið!

Arndís Ósk vinnur ferð til Þýskalands

Arndís Ósk Magnúsdóttir

Félag þýskukennara hefur um langt árabil staðið fyrir svonefndri þýskuþraut og er það gert með stuðningi frá Þýska sendiráðinu. Tilgangurinn með þrautinni er að kynna tungumálið og möguleika á námi í Þýskalandi. Þetta er nokkurs konar próf þar sem verið er að prófa færni í tungumálanámi. Fyrst er lögð fyrir hlustun og þurfa nemendur að svara spuningum henni tengdri. Þá er nokkuð stórt lesskilningsverkefni sem þarf að vinna. Það þarf að leysa ýmis verkefni tengd málnotkun, það eru nokkrar staðreyndaspurningar og í lokin er ritunarverkefni.
Það er alls engin skylda fyrir þýskunemendur að taka þátt í þessu verkefni en þeim sem hafa áhuga stendur það til boða. Það eru alltaf nokkrir tugir nemenda víðs vegar um landið sem ákveða að vera með.
Að þessu sinni var bara einn nemandi í FAS sem ákvað að taka þátt og það er Arndís Ósk Magnúsdóttir sem er að taka síðasta áfangann í kjarna í þýsku. Það má segja að það hafi verið góð ákvörðun því Arndís gerði sér lítið fyrir og vann þrautina sem er náttúrulega frábær árangur.
Sendiráðið veitir bókaverðlaun fyrir tuttugu efstu sætin hverju sinni. En tvö efstu sætin vinna að auki mánaðardvöl í Þýskalandi. Fyrsta hálfa mánuðinn búa nemendur hjá þýskum fjölskyldum og sækja skóla þar sem er fyrst og fremst verið að fá nemendur til að æfa sig í að tala. Seinni tvær vikunar er svo ferðast vítt og breytt um Þýskaland og fá nemendur að taka þátt í alls kyns viðburðum s.s. að fara á íþróttaleiki, leikhús, sýningar og svo mætti lengi telja. Arndís mun fara utan seinni hluta júnímánaðar.
Frábært hjá þér Arndís – til hamingju.

Fjölmennt á súpufundi í FAS

Frá súpufundi í FAS.

Í hádeginu dag var boðið upp á nýbreytni í FAS en þá var nemendum, foreldrum og starfsfólki boðið upp á súpu á Nýtorgi. Þetta er liður í því að tengja betur saman heimili og skóla en um leið að gera nemendur að aðalatriðinu. Raðað var á borð á ákveðinn hátt en á hverju borði voru nemendur, fulltrúi foreldra og svo fulltrúi starfsmanna. Umræðuefnið í dag var vinna nemenda með námi en undanfarið hefur verið nokkuð um það rætt að íslensk ungmenni vinni mikið með námi sínu, bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi.
Eftir spjall í dágóða stund skilaði síðan hver hópur stuttlega af sér munnlega. Það var margt forvitnilegt sem kom fram: margir nemendur eru í vinnu með skóla en þó mismikið og eins eru ástæðurnar mjög mismunandi. Einhverjir þurfa að sjá um sig sjálfir og verða að vinna á meðan aðrir stunda einungis vinnu um helgar eða í skólafríum. Það eru samt mjög margir sem vinna regulega með náminu. Til að þetta tvennt fari saman er mikilvægt að skipuleggja sig vel og gera ráð fyrir tíma fyrir heimanám en þó um leið að gera ráð fyrir að eiga tíma fyrir sig sjálfan til að stunda félagslíf eða hitta vinina og rækta sjálfan sig.
Í lok fundar voru foreldrar sérstaklega spurðir um árangur af fundi sem þessum og voru allir sammála að þetta væri bæði gaman og gagnlegt. Því má búast við að á hverri önn verði blásið til súpufundar til að eiga stund saman og ræða það sem skiptir máli hverju sinni.