Góðir gestir frá Póllandi

Health hópurinn 2016 – 2017

Fyrr í þessum mánuði komu góðir gestir í FAS. Það voru 17 nemendur og tveir kennarar frá Wroclaw Póllandi í samstarfsverkefninu „Your Health is Your Wealth“ en það er undir merkjum Erasmus+ áætlunarinnar. Þessi heimsókn er liður í tveggja ára verkefni sem lýkur formlega í haust. Verkefnið er byggt á hugmynd um heilsueflandi framhaldsskóla þar sem hugað er að andlegri sem líkamlegri líðan og hvernig megi ná sem bestum árangri í leik og starfi. Það er gert með fjölbreyttri verkefnavinnu og skólaheimsóknum. Hægt er að skoða verkefnið á http://health.fas.is/
Á síðasta skólaári tóku rúmlega 30 nemendur þátt í verkefninu og í ár voru 17 nemendur í hvoru landi sem tóku þátt í ferðunum. Það eru því um 70 nemendur sem hafa tekið beinan þátt í verkefninu. Þá eru ótaldir allir þeir sem kynnast verkefninu á annan hátt.
Í heimsóknum er miðað að því að þátttakendur kynnist eins og kostur er landi og þjóð. Það er m.a. gert með því að nemendur búa hjá gestafjölskyldum á meðan á dvöl stendur. Þá er farið í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir til að gefa sem besta mynd af lífinu á staðnum. Gestirnir okkar urðu margs fróðari um sögu staðarins og líf í sjávarþorpi eftir heimsóknina hingað. Það er mikils virði fyrir okkur í FAS hversu margir eru tilbúnir að aðstoða við að taka á móti gestunum. Það á við bæði um gestafjölskyldur og ekki síður þá sem opna dyr sínar, segja frá starfseminni og jafnvel leysa gestina út með gjöfum. Öllum þeim sem komu að móttöku gestanna eru hér með færðar bestu þakkir.
Í júní verður svo síðari fundur verkefnastjóra þar sem m.a. er hugað að skýrslugerð. Sá fundur verður haldinn í Póllandi. Það eru þó ekki bara umsjónarmenn verkefnisins sem mæta á þann fund heldur ætlar lunginn af starfsliði FAS með í þá för og þá á jafnframt að skoða fleiri skóla.

Fiskvinnslunám og smáskipapróf

Í vetur hafa tíu starfsmenn Skinneyjar-Þinganess verið í námi á fiskvinnslubraut í FAS.  Námið hefur verið skipulagt í samvinnu við Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi og Fisktækniskóla Íslands.
Síðasta vor fóru þau í gegnum raunfærnimat og á næstu tveimur skólaárum fá þau tækifæri til að taka þá áfanga sem útaf standa á brautinni.
Á haustönn var boðið upp á upplýsingatækni og íslensku.  Á vorönn hafa þau verið í stærðfræði og ensku ásamt smáskipanáminu sem þau voru að ljúka núna um helgina.
Á myndinni eru sex af þeim átta sem luku smáskipaprófinu ásamt Gunnlaugi Dan kennara og Stefáni prófdómara.

Kynning á FAS í Laugardalshöll.

Fulltrúar FAS kynna skólann í Laugardalshöllinni dagana 16-18. mars 2017.
Hér fyrir neðan má sjá auglýsingu fráþessum flotta viðburði.

Mín framtíð – Íslandsmót verk- og iðngreina 2017
& Framhaldskólakynning

Framhaldsskólakynning verður haldin dagana 16. – 18. mars 2017 í Laugardalshöllinni. Þarna gefst einstakt tækifæri til að kynna sér fjölbreytt námsframboð framhaldsskóla landsin en starfsfólk og nemendur 26 skóla munu miðla upplýsingum og fróðleik um námið, félagslífið og framtíðarmöguleikana.
Á sama tíma fer fram í Höllinni Íslandsmót iðn- og verkgreina. Um 150 keppendur munu taka þátt í Íslandsmótinu og keppt verði í 21 iðngrein. Nokkrar greinar til viðbótar verða með kynningu á störfum en alls taka 27 iðn- og verkgreinar þátt í ár. Fagreinarnar bjóða einnig upp á „Prófaðu“ svæði þar sem gestir fá að fikta, smakka og upplifa.

Von er á um 8 þúsund grunnskólanemendum í 9. – 10. bekk alls staðar af landinu í Höllina til að kynna sér námsmöguleika og fjölbreytni iðngreina. Þessi heimsókn er hugsuð sem liður í náms- og starfsfræðslu þessara nemenda og einn liður í að styrkja nemendur í að taka upplýsta ákvörðun um náms- og starfsval.
Á laugardeginum eru fjölskyldur sérstaklega velkomnar. Gefst þá einstakt tækifæri til að snerta og upplifa ýmislegt skemmtilegt sem snertir nám og störf í iðn- og verkgreinum. Team Spark kynnir rafmagnsbíl og einnig verður í boði að smakka upp á kræsingar sem útbúnar hafa verið í keppninni.

Mótið fer fram í Laugardalshöll og er opið fyrir gesti sem hér segir:
• Fimmtudaginn 16. mars kl. 9 – 16
• Föstudaginn 17. mars kl. 9 – 16
• Laugardaginn 18. mars kl. 10 – 14
o Laugardagurinn er fjölskyldudagur, fræðsla og fjör

Allir velkomnir – enginn aðgangseyrir!

Opnir dagar

Þessa dagana, 8. – 10. mars eru opnir dagar í FAS.
Opnir dagar er áfangi þar sem nemendur vinna að verkefnum sem þeir skapa sjálfir og sýna þau og kynna í lok vikunnar.
Nemendur hafa valið sig í hina ýmsu hópa til að vinna í þessa daga og má nefna hópa eins og skólablað, útvarp, myndlist, ljósmyndir og árshátíðarhóp sem sér um að skipuleggja og framkvæma árshátíðina sem haldin verður þann 10. mars og kennarar og nemendur skemmta sér saman eina kvöldstund.
Skemmtileg hefð sem hefur tengst opnu dögunum er sú að nemendur og einstaka kennarar spila saman Hornafjarðarmanna undir leiðsögn frá Alberti Eymundssyni. Á því var engin breyting þetta árið og var spilað á 14 borðum til að byrja með en til úrslita spiluðu þeir Ísar Karl Arnfinnsson, Sigurður Guðni Hallsson og Auðunn Hafdal. Það var Auðunn sem bar sigur úr býtum og hlutu þeir sem spiluðu til úrslita pizzuveislu frá Hótel Höfn í verðlaun.
Það er alltaf ákveðin stemning sem fylgir opnum dögum enda skemmtileg breyting frá hefðbundnu skólastarfi.

Óvænt söguheimsókn

Af og til detta inn til okkar óvæntir gestir og nýlega kom til okkar franskur ferðalangur sem segir sögur og spilar á hljóðfæri.
Hann Samuel hefur ferðast um í mörg ár með ekkert nema bakpokann og líruna og kynnt fyrir öllum sem vilja hlusta, söguarfinn frá Bretagne í Frakklandi, þaðan sem hann er ættaður í tónum og sögum.
Samuel er nýbúinn að eiga leið um Höfn og kom við hjá okkur í FAS og fékk að fara inn í tíma og segja nemendum nokkrar af þessum sögum. Nemendur tóku mjög vel á móti honum og kunnu vel að meta þessa óvæntu heimsókn.

Menningarverðlaun Hornafjarðar

Menningarverðlaun Hornafjarðar voru veitt í gær þar sem fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök hlutu styrki og viðurkenningar.
FAS átti fulltrúa á svæðinu því nemendafélagið hlaut styrk fyrir verkefni sem það er að vinna að í samstarfi við Þekkingasetur Nýheima og Menningarmiðstöð Hornafjarðar og mun afrakstur þess verkefnis verða sýnilegur í vor. Formaður nemendafélagsins Adisa Mesetovic tók við styrknum fyrir hönd nemendafélagsins.
Á hverju ári er valinn einstaklingur eða félagasamtök sem hlýtur sérstaka viðurkenningu fyrir framlag sitt til menningar hérna í Hornafirði og að þessu sinni var það einn úr kennarahópi okkar í FAS. Hann Sigurður Mar Halldórsson hlaut þessa viðurkenningu fyrir ljósmyndabók sína sem heitir Sögur en hann opnaði einnig ljósmyndasýningu með myndunum úr bókinni síðastliðið haust.
Við erum ofboðslega stolt af öllu okkar fólki og óskum Sigurði sérstaklega til hamingju með sína viðurkenningu.