Það má með sanni segja að félagslíf skólans hafi verið í miklum blóma á þessu hausti þar sem hver viðburðurinn rekur annan. Í þessari viku stendur Nemendafélag FAS fyrir röð viðburða sem krakkarnir hafa kosið að kalla Oktoberfest.
Fyrsti viðburðurinn verður í kvöld, 23. október. Það er málfundafélagið sem stendur fyrir fótboltakvöldi í Nýheimum. Húsið opnar klukkan 18:40 og klukkan 19:00 er komið að risaleik en það eru stórliðin Manchester United og Juventus sem eigast við. Hægt verður að tippa á úrslit leiksins og eru vegleg verðlaun í boði.
Miðvikudagskvöldið 24. október stendur fornbílaklúbbur FAS fyrir spurningakeppni eða bíla quiz eins og klúbburinn kallar viðburðinn sem verður í Nýheimum og hefst klukkan 20:00 og stendur yfir í tvo tíma. Boðið verður upp á kóla gosdrykk og kex og kökur.
Fimmtudagskvöldið 25. október er síðan komið að Karaoke kvöldi í umsjá viðburðaklúbbs. Sá atburður verður haldinn í Ungmennahúsi (Þrykkjunni) og stendur frá 20:00 – 22:00. Þar verður boðið upp á popp og kóla gosdrykk.
Það kostar 1000 krónur inn fyrsta kvöldið en 500 krónur hin kvöldin. Það er hægt að kaupa sig inn á alla viðburðina og fá þá 500 krónu afslátt. Miðasala er á skrifstofu Nemendaráðs.
Á laugardaginn má svo segja að það sé komið að rúsínunni í pylsuendanum en þá ætlar nemendafélagið að standa fyrir markaði og kaffihúsi í Nýheimum. Þar verður hægt að skoða föt, bækur og ýmis konar gjafavöru og einnig verður hægt að kaupa kaffi og kruðerí. Markaðurinn verður opinn á milli 13:00 og 16:00 á laugardag og vonast nemendafélagið til að sem flestir komi.