Erasmus+ verkefnið ADVENT sem FAS er í forsvari fyrir snýr að því að efla nám og nýsköpun í afþreyingarferðaþjónustu.
Fyrsta námskeiðið af níu sem hönnuð verða var prufukeyrt í Fort William í Skotlandi 8. – 10. október síðastliðinn. Á námskeiðinu kynntust þátttakendur því hvernig markvisst er hægt að nýta útivist og þær áskoranir sem þar er hægt að finna til að bæta andlega og félagslega líðan. Þrír þátttakendur frá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum tóku þátt og átta frá samstarfsþjóðunum Finnlandi og Skotlandi.
Þátttakendur upplifðu hin margvíslegustu ævintýri á námskeiðinu auk þess að fá innsýn í fræði “Adventure Therapy”. M.a. var farið í sjósund, fjallgöngu, gist var í afskekktum fjallakofa og gengið yfir „vírabrú“.
Í kjölfar námskeiðsins fjölgaði í íslenska hópnum sem tók þátt í verkefnafundi og fjölmennri ráðstefnu um útivist og leiðir til að auka almenna vellíðan, “Adventure Therapy”. Á ráðstefnunni var vefsíða verkefnisins formlega opnuð.
Næstu námskeið ADVENT verð haldin í Finnlandi í nóvember og á Íslandi í janúar. Þar og á næstu mánuðum verða spennandi tækifæri fyrir aðila í afþreyingarferðaþjónustu til að prófa nýjar leiðir og sinna endurmenntun innan fyrirtækjanna.
[modula id=“9761″]