Úskrift frá FAS á morgun, 26. maí

Á morgun fer fram útskrift frá FAS og að venju fer hún fram í Nýheimum. Að þessu sinni er útskriftarhópurinn fjölbreyttur en auk stúdenta verða útskrifaðir nemendur af framhaldsskólabraut, úr fjallamennskunámi, tækniteiknun, vélstjórn og af sjúkraliðabraut.
Athöfnin hefst klukkan 14 og allir eru velkomnir á meðan að húsrúm leyfir.

Stjanað við útskriftarnemendur

Morgunverður fyrir útskriftarnemendur.

Þegar fólk mætti til vinnu í morgun í Nýheimum tók á móti þeim matarilmur og angan af nýuppáhelltu kaffi. Ástæðan var sú að búið var að bjóða væntanlegum útskriftarefnum í FAS í morgunverð en það hefur verið gert undanfarin ár og mælst vel fyrir. Kennarar mættu því nokkru fyrr en venjulega og steiktu beikon og eggjahræru, skáru niður ávexti, helltu upp á kaffi og röðuðu svo herlegheitunum upp.

Allir tóku vel til matar síns og við sama tækifæri var lagið tekið. Það styttist nefnilega í útskrift og þá þurfa allir að kannast við skólasöng FAS og gamlan evrópskan stúdentasöng sem er sunginn upp á bæði latínu og íslensku.
Útskrift fer fram frá FAS laugardaginn 26. maí og hefst klukkan 14 og vonumst við til að sjá sem flesta þar.

[modula id=“9756″]

 

Viðurkenningar fyrir góðan árangur í þýsku

Arndís Ósk ásamt Herbert Beck sendiherra Þýskalands og Solveigu Þórðardóttur formanni í Félagi þýskukennara.

Mánudaginn 7. maí fór fram afhending viðurkenninga fyrir þátttöku í þýskuþraut sem fram fór í lok febrúar. Við sama tækifæri voru veittar viðurkenningar fyrir stuttmyndir á þýsku. Athöfnin fór að þessu sinni fram í Menntskólanum við Sund. Það er Félag þýskukennara í samvinnu við Þýska sendiráðið sem standa fyrir bæði þrautinni og stuttmyndakeppninni.
Arndís Ósk var eini nemandinn frá FAS sem tók þátt í þýskuþrautinni að þessu sinni en það má segja að það hafi verið fyrirhafnarinnar virði því hún varð efst í þrautinni sem er stórkostlegur árangur. Hún gerði sér ferð til að vera viðstödd afhendinguna á mánudag en þangað var þeim boðið sem lentu í 16 efstu sætunum í þýskuþrautinni og eins þeim sem unnu til verðlauna í stuttmyndakeppninni.
Það voru sendiherra Þýskalands Herbert Beck og Solveig Þórðardóttir formaður Félags þýskukennara sem afhentu viðurkenningarnar. Auk bókaverðlauna fá tvö efstu sætin í þýskuþrautinni mánaðardvöl í Þýskalandi. Þar dvelja nemendur í tvær vikur hjá fjölskyldum og sækja þýska skóla þar sem er fyrst og fremst verið að sinna talþjálfun. Að því loknu ferðast þátttakendur vítt og breitt um Þýskaland þar sem markmiðið er að ferðast, fræðast og njóta lífsins í góðum hópi.
Við óskum Arndísi Ósk innilega til hamingju og vonum að hún eigi góða daga framundan en hún fer utan seinni hluta júní.

Verðlaunahafar í þýsku ásamt Solveigu formanni þýskukennarara og Herbert Bech sendiherra Þýskalands á Íslandi.

Kynningarfundur vegna skuggakosninga

Í morgun stóð ungmennaráð fyrir upplýsingafundi á Nýtorgi vegna komandi sveitarstjórnakosninga sem fara fram 26. maí næstkomandi. Þann dag fara einnig fram svokallaðar skuggakosningar en þá mega ungmenni á aldrinum 13 – 17 ára kjósa sína fulltrúa í næstu sveitarstjórn þó svo að þau atkvæði telji ekki en þær kosningar eiga þó að endurspegla vilja ungmennanna. Skuggakosningar eru haldnar til að vekja áhuga á kosningum en kosningaþátttaka ungs fólks hefur heldur dalað undanfarin ár.
Á fundinum í dag mættu fulltrúar frá þeim þremur framboðum sem bjóða fram í komandi kosningum. Fyrst fengu fulltrúarnir tíma til að kynna sig og sitt framboð og þar á eftir svöruðu þeir spurningum úr sal. Áður en þeir svöruðu voru þeir beðnir um að taka léttar upphitunaræfingar. Hér er hægt að sjá stutt brot af æfingum frambjóðendanna. Krakkarnir höfðu greinilega undirbúið sig vel fyrir fundinn og höfðu fjöldann allan af spurningum fyrir frambjóðendurna.

Takk fyrir frábært framtak ungmennaráð – og vonandi munu allir nýta rétt sinn til að taka þátt í skuggakosningunum.

[modula id=“9755″]

Aðalsteinn og Bjarmi nýir forsetar

Verðandi og fráfarandi forsetar FAS.

Síðasta fimmtudag fóru fram forsetakosningar til nemendafélagsins á næsta skólaári. Tvö teymi buðu sig fram, tvær stelpur og tveir strákar. Á uppskeruhátíðinni á föstudag var síðan kunngert hverjir hlutu kosningu.
Það voru þeir Aðalsteinn og Bjarmi sem urðu hlutskarpari og verða því forsetar nemendafélagsins á næsta ári. Á myndinni má sjá fráfarandi forseta óska Aðalsteini til hamingju sem hér veifar til fylgismanna sinna. Bjarmi gat ekki verið viðstaddur á föstudag.
Við óskum þeim til hamingju og vonum að þeim farnist vel í störfum sínum sem forsetar.

Uppskeruhátíð FAS

Uppskeruhátíð FAS

Föstudaginn 4.maí verður haldin uppskeruhátíð í FAS og verður hún haldin í Nýheimum. Það eru fyrst og fremst nemendur í list- og verkgreinum sem standa fyrir hátíðinni og ætla að sýna þar afrakstur vinnunnar í vetur. En það eru einnig verk frá nokkrum bóknámsáföngum.
Uppskeruhátíðin hefst klukkan eitt á morgun og standa kynningar á verkefnum yfir í skólastofum á efri hæð til klukkan fjögur. Á þeim tíma verður einnig tilkynnt hverjir verða forsetar nemendafélagsins næsta skólaár en kosningar fóru fram í skólanum í dag.
Við vonumst til að sjá sem flesta en fyrir þá sem ekki komast á morgun að þá verður sýningin í Nýheimum opin alla næstu viku.