Menningarferð til Akureyrar

20.nóv.2018

Lista og menningarsvið FAS fór í námsferð til Akureyrar dagana 14. til 16. nóvember. Það voru tuttugu nemendur úr myndlista-, ljósmynda-, kvikmynda- og leiklistaráföngum sem fóru í ferðina ásamt þremur kennurum. Gist var á gistiheimilinu Akureyri Backpackers sem er í miðbæ Akureyrar.

Lagt var af stað frá FAS klukkan 8 miðvikudagsmorguninn 14. nóv. og komið til Akureyrar um klukkan 15. Fyrsta heimsóknin var síðan í Listasafn Akureyrar klukkan 16. Eftir kvöldmat var farið í fallegu kvöldveðri í gönguferð um innbæinn þar sem nemunum voru sagðar sögulegar staðreyndir um uppbyggingu eyrarinnar, sögur af fólki og einstökum húsum.

Fimmtudagsmorguninn var þétt planaður og hófst með heimsókn í Verkmenntaskóla Akureyrar. Einnig var farið í Menningarhúsið HOF, Tónlistarskólann, Samkomuhúsið þar sem LA hefur nú aftur starfsemi sína, við heimsóttum listamannakompaníið Kaktus og deginum lauk síðan á sýningunni Lína langsokkur hjá Freyvangsleikhúsinu.

Föstudagurinn, dagur íslenskrar tungu, byrjaði með heimsókn í kvikmyndaver sjónvarpsstöðvarinnar N4. Þar fengu nemendur að kynnast hvernig bein útsending fer fram með því að sjá og taka þátt í „plat“ útsendingu. Síðan lá leiðin í Minjasafn Akureyrar en þar var verið að opna hina árlegu jólasýningu safnsins. Jafnframt fékk hópurinn að skoða æskuheimili Nonna, Jóns Sveinssonar og gaman að geta þess að 16. nóvember er fæðingadagur hans. Eftir þessa heimsókn hélt hópurinn síðan heim á leið með stoppi við Goðafoss og matarpásu á Egilsstöðum.

Þessi ferð er fyrst og fremst hugsuð til að kynna nemendum hvað sé að gerast í öðrum bæjarfélögum en jafnframt til að kunna að meta og skilja hversu margir möguleikar finnast í heimabyggð.
Mottó ferðarinnar var samvinna, traust og virðing, hvert fyrir öðru og ekki síður fyrir því fólki sem tekur á móti okkur opnum örmum og kynnir fyrir hópnum starfsemi sína og hugmyndir.
Það er skemmtilegt að geta þess að alls staðar fékk hópurinn einstaklega góð meðmæli og þakkir fyrir hversu gaman hefði verið að taka á móti þeim.

Stefán Sturla
Umsjónarmaður Lista- og menningarsviðs FAS

 

[modula id=“9768″]

Aðrar fréttir

Landvarðanám í FAS

Landvarðanám í FAS

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á nám í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir. FAS fékk hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þennan áfanga. Námið byggir...

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Þjálfarar yngri landsliða Íslands hafa tilkynnt fyrstu æfingahópa sína fyrir komandi verkefni. Meðal þeirra sem fengu kallið í æfingahóp U18 drengja er Hilmar Óli Jóhannsson, nemandi á afreksíþróttasviði Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Hilmar Óli er...

Jólamatur í FAS

Jólamatur í FAS

Nú stendur yfir síðasta heila kennsluvika haustannarinnar. Í FAS hefur skapast sú hefð að bjóða nemendum og starfsfólki í sameiginlega jólamáltíð í lok annar. Það var því margt um manninn á Nýtorgi í dag þar sem var boðið upp á hangikét og meðlæti. Margir...