Það hefur verið rífandi gangur hjá nemendafélagi FAS á þessari önn og hver viðburðurinn rekið annan. Og það er ýmislegt framundan.
Annað kvöld (fimmtudagskvöldið 29. nóvember) stendur spilaklúbbur fyrir viðburði í FAS. Það á að spila spil sem heitir Jackbox party pack. Þetta er ekki hefðbundið borðspil heldur spilað í gegnum síma eða tölvur. Jackbox party pack er þrautaspil þar sem 3 – 8 spila saman og markmiðið er að búa til fyndnasta orðið. Meðlimir í spilaklúbbi vonast til sjá sem flesta. Það kostar 500 krónur inn og spilarar fá popp til að maula á. Það verður byrjað að spila klukkan 20 og verður spilað í stofu 203.
Á fullveldisdaginn verður blásið til hátíðar í Nýheimum og þar lætur NemFAS sig ekki vanta. Nemendur standa fyrir kaffihúsi þar sem verður hægt að kaupa alls kyns góðgjörðir gegn vægu gjaldi. Jólamyndir fyrir smáfólkið verða sýndar í fyrirlestrasal Nýheima og þar kostar ekkert inn. Nokkrir nemendur ætla að búa til brjóstsykur og selja á staðnum. Þá mun bókaklúbbur FAS verða með óvænta uppákomu.
Við vonumst til að sjá sem flesta á laugardag. Það verður opið í Nýheimum milli 14 og 17 eins og sést á meðfylgjandi auglýsingu.