Í síðustu viku voru þrír fulltrúar frá FAS á námskeiði í Finnlandi. Þetta voru þau Hulda Laxdal Hauksdóttir, Sigurður Ragnarsson kennarar og Brynja Sóley Plaggenborg nemandi í fjallamennskunámi skólans.
Námskeiðið var á vegum ADVENT menntaverkefnisins sem FAS er í ásamt Ríki Vatnajökuls, Rannsóknarsetri Hí og skólum, rannsóknarstofnunum og ferðaþjónustuklösum í Skotlandi og Finnlandi.
Ferðinni var heitið til Kuusamo í norðaustur Finnlandi en sá bær er í nágrenni við Ruka sem er risavaxið skíðasvæði og eitt það vinsælasta í Evrópu, enda er þar að meðaltali hægt að renna sér á skíðum í 200 daga á ári.
Námskeiðið var tilraunanámskeið, eitt af níu, sem prufukeyrt verður í ADVENT verkefninu. Verkmenntaskólinn í Kuusamo vann að þessu námskeiði sem snérist um staðarþekkingu og hvernig þjálfa má starfandi ferðaþjónustuaðila og nemendur í ferðamála- og útivistarnámi í að nýta slíka þekkingu í störfum sínum. Kuusamo-Ruka svæðið var vel fallið til þessarar prufukeyrslu þar sem svæðið fær um milljón gesta á ári hverju.
Auk Íslendinganna þriggja voru þrír ferðaþjónustuaðilar frá Skotlandi, tveir frá Finnlandi auk 10 nemenda verkmenntaskólans í Kuusamo þátttakendur í námskeiðinu.
Sambærilegt námskeið verður í framhaldinu hægt að keyra á Íslandi eða í Skotlandi, með svipuðum áherslum nema lagað að því svæði sem um ræðir í hverju landi fyrir sig.
Námskeiðið stóð í fimm daga og hófst mánudaginn 12. nóvember í svokölluðu Wilderness lodge út í skógi sem er kannski best lýst sem viðarskála sem er nokkurs konar salur sem hægt er að leigja fyrir veislur og þar fékk hópurinn glæsilegar móttökur með fræðslu og góðum mat sem nemendur á matreiðslubraut verkmenntaskólans höfðu útbúið fyrir þátttakendur.
Þriðjudagur og miðvikudagur voru fræðsludagar um hinar ýmsu staðreyndir um svæðið og ferðamannaiðnaðinn á svæðinu. Fyrra kvöldið var svo Husky hundabúgarður heimsóttur. Þar eru um 150 hundar sem notaðir eru í hundasleðaferðir með ferðamenn á veturna og seinna kvöldið var farið í heimsókn á hreindýrabúgarð. Þar hefur verið stundaður hreindýrabúskapur af sömu fjölskyldu í um 150 ár. Auk þess að stunda búskap er ferðamönnum boðið upp á hinar ýmsu ferðir, á veturna eru það mestmegnis sleðaferðir þar sem hreindýr draga sleðann og á sumrin bjóða þeir fólki m.a. að koma að vinna með sér í búskapnum part úr degi eða allt upp í eina viku.
Fimmtudagurinn fór svo í að heimsækja fyrirtæki á svæðinu, farið var í skoðunarferð á skíðasvæðið í Ruka, Oluanka þjóðgarðinn, og dagurinn endaði svo á heimsókn í fyrirtæki sem býður fólki m.a. að fara í 3 mismunandi tegundir af alvöru finnsku gufubaði og í heimagerðan mat. Gufubað er alls ekki það sama og gufubað í Finnlandi en þess má geta að um 330.000 gufuböð eru skráð í Finnlandi en einungis um 270.000 bílar. Hópurinn fékk ítarlega kynningu á gufubaðsmenningunni og leiðsögn í gufubaðinu sjálfu. Að því loknu borðaði hópurinn svo mat sem veiddur var í nágrenni við sveitabæinn.
Föstudagurinn fór svo í próf og uppgjör á námskeiðinu en að því loknu um 10:00 hófst ferðalagið heim til Íslands.
Næsta námskeið í ADVENT verkefninu verður haldið á Íslandi í janúar og þá stendur til að prufukeyra námskeið um íshella og jöklaferðir. Nánar má lesa um ADVENT verkefnið á www.adventureedu.eu
[modula id=“9771″]