Í dag var komið að síðasta sameiginlega kaffi annarinnar í Nýheimum og það voru nemendur sem sáu um kaffið að þessu sinni. Að venju voru alls kyns kræsingar í boði sem íbúar Nýheima gæddu sér á.
Bókaklúbbur FAS hefur staðið fyrir lestrarátaki á meðal nemenda og annarra sem starfa í Nýheimum á þessari önn. Átakið nefnist Bókabylting og þar eru allir hvattir til að lesa eins mikið og hægt er bæði sér til gagns og skemmtunar. Það átti að skrá þær bækur sem voru lesnar á til þess gerð eyðublöð. Tæplega 60 bækur voru skráðar í átakinu. Í kaffinu í dag var komið að því að draga út vinningshafa og voru veitt fjögur verðlaun; tvær bækur og tvö gjafarbréf hjá Bókabúðinni Eymundsson. Það má segja að kennarar FAS hafi aldeilis dottið í lukkupottinn því þrír kennarar voru dregnir út og það voru þau Aida, Lind og Siggi Palli. Þær Aida og Lind voru þó fjarri góðu gamni en fá að sjálfsögðu sín verðlaun. Kristján Vilhelm nemandi í FAS var einnig dreginn út. Bókaklúbbi FAS er hér með þakkað fyrir að standa fyrir þessu átaki sem vonandi verður fastur viðburður í Nýheimum.