Álftatalning í Lóni

Hópurinn við stórgrýtið.

Í dag fóru nemendur í umhverfis- og auðlindafræði í ferð upp í Lón. Aðaltilgangurinn var að telja álftir á Lónsfirði en einnig að skoða urðunarstað sveitarfélagsins. Með í för voru Björn Gísli frá Fuglaathugunarstöðinni og Kristín Hermannsdóttir frá Náttúrustofunni.  Veður var ljómandi gott og ákjósanlegt til útivistar.
Álftatalning hefur verið árlegur viðburður frá árinu 2010 og er þetta eitt af vöktunarverkefnum hjá FAS þar sem upplýsingum er safnað sem svo er hægt að vinna nánar úr. Reynt er að fara á svipuðum tíma á hverju ári til að niðurstöður verði sambærilegar frá ári til árs. Auk þess að telja fuglana skoðum við náttúruna og umhverfið. Þar leynist ýmislegt ef að er gáð. Þá röltir hópurinn frá útsýnisstaðnum vestan við Hvalnes langleiðina að Vík. Á leiðinni er horft eftir því sem vekur athygli. Síðustu ár hefur allt rusl verið tínt á leiðinni en það er að stærstum hluta plast.
Á leiðinni til baka var stoppað á urðunarstað sveitarfélagsins. Þar tók Bryndís Bjarnarson umhverfisfulltrúi sveitarfélagsins á móti hópnum. Við fengum fræðslu um hvernig urðunarstaðir þurfa að vera úr garði gerðir til að vera samþykktir af heilbrigðisyfirvöldum en þar er að mörgu að hyggja. Mestu máli skiptir þó að íbúar séu meðvitaðir um mikilvægi þess að minnka rusl og það er best gert með góðri flokkun.
Að þessu sinni voru taldar rúmlega 1700 álftir. Um síðustu helgi voru taldar þar um 1200 fuglar. Það segir okkur að fuglarnir séu á leiðinni til okkar og jafnframt að vorið sé í nánd.
Eftir ferðina vinna nemendur samantekt um álftina og ferðina í Lón. Líkt og með önnur vöktunarverkefni hjá FAS munu niðurstöður og myndir úr ferðinni birtast á https://nattura.fas.is/

[modula id=“9751″]

Lokahnykkur frumkvöðlaverkefnis

Hér skal bakað brauð.

Í síðustu viku dvöldu fjórir nemendur FAS í bænum Jelgava í Lettlandi við þátttöku í fjölþjóðlegu frumkvöðlaverkefni. Þetta var síðasta ferðin í verkefninu sem staðið hefur yfir síðan á haustönn 2016.  Áður höfðu nemendur frá FAS farið til Lioni á Ítalíu og Trikala í Grikklandi og s.l. haust kom stór hópur nemenda og kennara í heimsókn til Hafnar.
Í verkefninu stofna nemendur saman fyrirtæki, hanna vöru eða þjónustu, markaðssetja og selja á markaði sem haldinn var í Lettlandi s.l. laugardag.  Það er löng hefð fyrir nemendafyrirtækjum þar í landi og á markaðnum voru yfir 200 nemendafyrirtæki með sölubás.
Okkar fólk tók þátt í fjórum fyrirtækjum en alls voru sex fyrirtæki stofnuð innan verkefnisins.  Eitt fyrirtækið smíðaði símahátalara sem byggir á hljómburði en ekki rafeindatækni, annað setti upp vefsíðu sem sinnir atvinnumiðlun fyrir ungt fólk, eitt smíðaði skartgripaskrín sem hægt er að setja saman og taka sundur og einnig var fyrirtæki með þjóðlegt góðgæti til sölu. Í tveimur tilfellum voru vörurnar smíðaðar í FabLab smiðjunni í Vöruhúsinu.
Samstarfsskólarnir fimm eru þegar farnir að leggja drög að næsta verkefni. Að þessu sinni verður áhersla lögð á að skapa nýja list og menningu sem byggir á menningararfi þjóðanna, þ.e. Grikkja, Ítala, Letta, Eista og að sjálfsögðu Íslendinga.

[modula id=“9750″]

Ævintýraferðaþjónusta – áherslur og menntun

Frú Eliza Reid forsetafrú flytur opnunarávarp.

Það er mikið um að vera tengt ferðaþjónustu á Hornafirði þessa vikuna og í dag tengist það sérstaklega inn í Nýheima en nú stendur yfir ráðstefna sem ber heitið Adventure Tourism – Innovation and Education. Það eru tvö verkefni sem eru í gangi í Nýheimum sem standa fyrir ráðstefnunni í dag. Annars vegar er það verkefnið slow adventure in nothern territories sem snýst um að fá ferðamanninn til að fara hægt yfir og njóta augnabliksins. Þar hefur Rannsóknasetur háskólans  yfirumsjón og hins vegar verkefnið ADVENT sem stendur fyrir Adventure tourism in vocational education and training en þar er unnið að því með starfandi ferðaþjónustuaðilum að mennta fólk í greininni. Þar hefur FAS yfirumsjón ásamt Rannsóknasetri háskólans. Í báðum þessum verkefnum eru þátttakendur frá nokkrum löndum og það er því nokkuð alþjóðlegt yfirbragð á ráðstefnunni í dag. Bæði þessi verkefni tengjast og því var ákveðið að hafa sameiginlega ráðstefnu.
Sérstakur gestur á ráðstefnunni er frú Eliza Reid forsetafrú en hún er sérstakur sendiherra ferðaþjónustu og markmiða sjálfbærrar þróunar en markmiðið með því að hafa slíkan sendiherra er að talað sé fyrir framlagi ferðaþjónustu til sjálfbærrar þróunar og hvetja til þess að ferðaþjónusta og markmið sjálfbærrar þróunar verið innleidd að fullu í áætlanir þjóðlanda og svæða á heimsvísu.
Fyrir hádegi í dag verða stuttir fyrirlestrar en eftir hádegi kynningar á því sem þegar hefur verið gert í verkefnunum og svo hópavinna og umræður í lokin.
Það verður spennandi að fylgjast þróun og nýbreytni í ferðamálum á næstunni.

 

[modula id=“9748″]

Skólablað FAS

Einn hópanna í síðustu viku hafði það að markmiði sínu að búa til skólablað fyrir FAS. Þó það hafi ekki margir verið í hópnum var vinnan engu að síður árangursrík. Í dag var svo lokahnykkurinn settur á verkið með útgáfu blaðsins. Núna er útgáfan á netformi og þeir sem vilja lesa blaðið geta nálgast það hér
Ætlunin er að gefa blaðið út á prentformi og mun það gerast á næstu dögum.
Endilega lesið blaðið, það er margt áhugavert og sniðugt að sjá þar.

Kynning á háskólanámi

Það er heldur betur líf og fjör í Nýheimum núna. En þar gefst fólki tækifæri á að kynna sér það fjölbreytta námsframboð sem háskólar landsins hafa upp á að bjóða og spjalla við nemendur, náms- og starfsráðgjafa um allt sem viðkemur náminu.
Auk nemenda í FAS eru nemendur grunnskólans að skoða möguleika sem bjóðast í námi. Það er líka gaman að sjá fyrrum nemendur sem eru að velta fyrir sér möguleikum á framhaldsnámi.
Kynningin í Nýheimum stendur til 12 í dag.

[modula id=“9747″]

Ýmislegt frá opnum dögum

Núna um hádegisbil lauk opnum dögum í FAS. Hér eru nokkrar myndir sem gefa vísbendingu um það sem var gert.

[modula id=“9749″]