Kaffistund á Nýtorgi.
Í morgun var komið að annarri sameiginlegu samverustundinni á Nýtorgi. Að þessu sinni var það starfsfólk Menningarmiðstöðvarinnar og þeir sem tengjast í Nýheima en hafa ekki vinnuaðstöðu í húsinu sem buðu upp á kræsingar.
Líkt og áður var margt um manninn og heyra mátti glaðlegt skraf um leið og kræsingunum voru gerðar góð skil.
Við erum strax farin að hlakka til næstu samveru.
Frá nýnemaballi.
Það má heldur betur segja að félagslífið í skólanum fari vel af stað á önninni. Strax í þriðju viku var bíókvöld í skólanum. Í síðustu viku var svo nýnemaball í Sindrabæ.
Nú er komið að fyrsta kaffihúsakvöldi annarinnar en það verður í kvöld, 27. september. Það eru bókaklúbbur, tónlistarklúbbur og spilaklúbbur sem standa að því í samstarfi við Málfundafélag skólans. Hægt verður að taka þátt í pub quiz og eru vinningar fyrir þá sem standa sig best.
Klúbbarnar lofa notalegri stemmingu þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Boðið verður upp á heitar vöfflur og fleira bakkelsi.
Kaffihúsakvöldið verður á Nýtorgi og hefst klukkan 20. Aðgangseyrir er 500 krónur. Við hvetjum alla nemendur til að mæta og eiga notalega kvöldstund í Nýheimum.
God nabo hópurinn. (það voru ekki alveg allir þegar myndin var tekin)
Á síðasta skólaári var unnið að umsókn til Nordplus Junior áætlunarinnar með skóla í Faarevejle í Danmörku. Í vor var ljóst að umsóknin hefði hlotið samþykki og verkefnið myndi standa yfir skólaárið 2018 – 2019. Danski skólinn er svokallaður „efterskole“ en þá geta nemendur tekið eitt ár til viðbótar hefðbundinni skólaskyldu. Það er svolítið misjafnt hversu margir nemendur sækja um skólavist á hverju ári en í umsókninni var gert ráð fyrir að 25 nemendur væru í hvoru landi. Aðsókn í skólann ytra var með mesta móti í ár og nú eru 50 nemendur í hópnum sem kemur að samstarfsverkefninu.
Áherslur í verkefninu eru tvíþættar. Fyrir áramót verður unnið að verkefnum sem tengjast sögu Íslands og Danmerkur. Eftir áramót verður sjónum hins vegar beint að Sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem ástand sjávar verður sérstaklega skoðað. Gert er ráð fyrir að vinna bæði á dönsku og ensku.
Síðasta dag októbermánaðar heldur íslenski hópurinn til Danmerkur og mun dvelja ytra í viku. Þar mun hópurinn kynna Ísland og segja frá samskiptum Íslands og Danmerkur allt fram til þess tíma sem Ísland varð lýðveldi 1944. Fram að ferð undirbúa nemendur þessar kynningar. Að auki vinna báðir hópar að ýmsum verkefnum, farið verður á söfn og slóðir forfeðranna skoðaðar. Íslenski hópurinn mun búa hluta tímans í skólanum og hluta inni á heimilum félaga sinna.
Gert er ráð fyrir að danski hópurinn endurgjaldi heimsóknina í lok mars á næsta ári. Líkt og oft áður verður afrakstur verkefnisins settur á vefsíðu og ber hún heitið En god nabo er guld værd.
Eflaust muna margir eftir því að meistaraflokkur Sindra stóð sig frábærlega á síðasta leiktímabili og spilar í vetur í 1. deild og bíða margir spenntir eftir því að fylgjast með liðinu í vetur.
Í síðustu viku var gerður samningur á milli Körfuknattleiksdeildar Sindra og FAS sem kveður á um að heimaleikjum verði streymt á netið en þá verður hægt að fylgjast með þeim í beinni útsendingu. Samningurinn gildir til vors 2019. Einnig er ráðgert að taka viðtöl við leikmenn og aðra í tengslum við leikina. Sindri sér um að útvega þann búnað sem þarf til slíkra sýninga. Nemendur í kvikmyndagerð í FAS munu annast streymið og nemendur í fjölmiðlafræði og kvikmyndagerð taka viðtölin og annast eftirvinnslu.
Fyrsti heimaleikur Sindra verður 5. október og þá verður vonandi allt til reiðu svo hægt verði að sýna leikinn. Að sjálfsögðu óskum við meistaraflokki Sindra góðs gengis í vetur.
„Skeiðarársandsgengið 2018“
Mánudaginn 29. ágúst síðastliðinn fóru sautján nemendur í FAS sem stunda nám í áfanganum „Inngangur að náttúruvísindum“ í árlega rannsóknarferð á Skeiðarársand. Þar eru fimm 25 m2 gróðurreitir á vegum FAS og var ferðin núna tíunda sinnar tegundar. Veður var eindæma gott; logn, sól og hiti um 12 gráður.
Megintilgangurinn með ferðinni er að fylgjast með breytingum á sandinum en einnig að fá nemendur til að skoða náttúruna í kringum sig og FAS hefur alla tíð lagt á það áherslu að gera nemendur meðvitaða um umhverfi sitt. Í ferðinni fá allir nemendur hlutverk við athuganir og skráningu á náttúrunni.
Hæð valinna plantna í einum reitanna, samanburður á hæðinni árin 2009, 2014 og 2018. Þær hækka allar á milli ára, nema ein þeirra sem minnkar á milli áranna 2014 og 2018. Líkleg skýring á því að ein plantan lækkar gæti verið beit.
Oft hafa sést meiri breytingar á milli ára en núna. Reyndar var töluvert um nýjar plöntur í reitunum en þær eru enn svo litlar að þær voru ekki mældar sérstaklega. Til að komast í þann hóp að fylgst sé með plöntum árlega þurfa þær að hafa náð a.m.k. 10 cm hæð.
Mælingar á hæð einnar plöntu á Skeiðarársandi, árin 2009-2018. Hún hefur hækkað um 71 cm á 10 árum, eða 7,1 cm á ári.
Þegar farið er að milli reitanna má sjá mörg tré sem eru hærri en þau innan reita FAS. Núna var ákveðið að fylgjast sérstaklega með þremur stórum trjám, tvö þeirra eru ofan í jökulkeri og eitt ekki langt frá gömlu réttinni á sandinum. Stærsta tréð er annað tréð í jökulkerinu og mældist hæð þess 3,32 metrar. Það tré hefur þó brotnað að hluta og óvíst hvaða áhrif það mun hafa. Staka tréð fylgir fast á eftir en hæð þess er 3,24 m.
Reitur 1 hjá FAS.
Eftir ferðina vinna nemendur skýrslu. Vinnan felst m.a. í því að skoða tölulegar upplýsingar á milli ára og velta fyrir sér líklegum skýringum á breytingum. Það fer vel á því að enda á lokaorðum í samantekt frá einum hópnum:
„Okkur þótti þessi ferð vera mjög fræðandi og skemmtileg. Það kom okkur á óvart hversu mikið af trjám var úti á sandinum miðað við það sem við sjáum frá veginum og óhætt er að fullyrða að allir í hópnum hafi lært mikið á ferðinni. Við áunnum okkur ný vinnubrögð, lærðum að lesa í umhverfið og urðum meðvitaðri um gróðurinn í nágrenni okkar. Út frá hópavinnunni spunnust síðan líflegar umræður, og lærðum við því ekki síst mikið af hverri annarri“.
Líkt og fyrri ár verða niðurstöður ferðarinnar birtar á http://nattura.fas.is/
Eyjólfur Guðmundsson
Hjördís Skírnisdóttir
Kristín Hermannsdótti
Dagana 11. – 14. september fór fram námskeiðið Klettaklifur 1 í fjallamennskunáminu. Námskeiðið er fjögurra daga grunnnámskeið í klettaklifri, með áherslu á að kenna nemendum að stunda klifur af öryggi.
Námskeiðið hófst í FAS á kynningu á klettaklifri og helsta búnaði sem nota þarf við klifur. Að því loknu færði hópurinn sig yfir í íþróttahúsið þar sem restin af deginum var nýtt í að læra að klifra og læra að nota línu til að tryggja klifurfélagann.
Á degi tvö var svo haldið á Hnappavelli í Öræfum þar sem lagt var stund á klifur í þrjá daga, auk þess sem nemendurnir lærðu að síga. Gist var í tjöldum undir Hnappavallahömrum með góðfúslegu leyfi landeigenda og Klifurfélags Reykjavíkur sem hefur komið upp grunnaðstöðu fyrir klifrara á svæðinu.
Hnappavallahamrar er stærsta klettaklifursvæði landsins og hafa sjálfboðaliðar úr Klifurfélagi Reykjavíkur og Íslenska Alpaklúbbnum boltað ankeri og festur í bergið fyrir yfir 100 mismunandi leiðir. Það eru forréttindi fyrir okkur í FAS að hafa aðgang að svæði eins og Hnappavallahömrum í einungis um 100 km fjarlægð frá skólanum.
Veður var með besta móti í ferðinni, að mestu leyti sólskin og lítill vindur, sem verður að teljast nokkuð gott um miðjan september.
[modula id=“9762″]