Einn þeirra hópa sem hefur verið að störfum í opinni viku er „árshátíðarhópur“. Eins og nafnið bendir til sér sá hópur um að undirbúa árshátíðina. Að þessu sinni voru margir í árshátíðarhópi og því var hópnum skipt í fjóra minni hópa. Einn hópurinn sá um að gera stuttmynd sem verður frumsýnd á árshátíðinni. Annar hópur sá um að koma með tilnefningar fyrir hin ýmsu sæmdarheiti innan skólans. Þriðji hópurinn hefur unnið að skreytingum og myndavegg fyrir árshátíðina og fjórði hópurinn skrifaði annál frá síðustu árshátíð en það er nú jafnan ýmsilegt um að vera þó skólinn sé ekki stór.
Árshátíðin verður haldin á Hafinu fimmtudaginn 14. mars og það er nemendaráð sem hefur haft veg og vanda að því að skipuleggja þann atburð. Húsið opnar klukkan 19 og borðhald hefst 19:30. Í boði er lambakjöt og meðlæti og svo eftirréttur. Að borðhaldi loknu verður svo skemmtidagskrá og mun Biggi veislustjóri stýra henni. Jafnvel má gera ráð fyrir óvæntum uppákomum. Ballið byrjar svo klukkan 22:30 og það er Helgi Bjöss sem ætlar að sjá um að árshátíðargestir sýni tilþrif á dansgólfinu.
Að sjálfsögðu vonumst við til að sem flestir sem mæti og bendum áhugasömum á að hafa samband við nemendaráð til að fá miða. Þeir sem ætla að koma á borðhaldið þurfa að skrá sig í google.doc könnun fyrir föstudaginn 8. mars.
Fyrstu þrjá dagana í þessari viku eru haldnir opnir dagar í FAS. Fyrir flesta þýðir það að kennsla fellur niður og nemendur fást við önnur viðfangsefni. Má þar t.d. nefna undirbúning fyrir árshátíð sem verður 14. mars, nokkrir nemendur standa að útvarpssendingum og er hægt að hlusta á þessari slóð, einhverjir eru í listasmiðjum og vinna að sköpun. Það eru nemendur á vélstjórnarbraut sem nota opnu dagana að þessu sinni fyrir námskeið í heilbrigðisfræði en það er hluti af þeirra námi.
Í morgun var komið að sameiginlegum viðburði sem var Hornafjarðarmanni. Það var útbreiðslustjórinn sjálfur Albert Eymundsson sem kom og stjórnaði spilinu. Einhverjir voru að spila manna í fyrsta skipti en aðrir þekkja spilið vel.
Í upphafi voru tæplega 40 spilarar en eftir fyrstu umferð fækkaði þeim niður í 27. Í undanúrslitum var spilað á þremur borðum. Sigurvegarar úr þeirri viðureign tókust svo á í lokin. Það voru þeir Axel Elí, Oddleifur og Sigursteinn sem háðu það einvígi. Úrslit urðu þau að Axel Elí hafnaði í þriðja sæti, Oddleifur í öðru og Sigursteinn er nýkrýndur framhaldsskólameistari í Hornafjarðarmanna. Þrjú efstu sæti hlutu verðlaun. Við óskum sigurvegurunum til hamingju og þökkum öllum hinum fyrir þátttökuna.
[modula id=“9773″]
Í dag kom til okkar góður gestur. Það var Sölvi Tryggvason sem einhver okkar þekkja úr sjónvarpinu. Hann hefur undanfarið talað opinskátt um vanlíðan sína á árum áður og hvaða leiðir hann fór til að bæta líðan sína, bæði líkamlega og andlega.
Í upphafi sagði Sölvi frá því hvernig hann fékk lyf hjá læknum til að bæta líðan sína og takast á við daglegt líf þar sem oft var mikið álag.
Það kom þó að því að honum fannst nóg komið af slíku og vildi finna sjálfur leiðir til að breyta og bæta líf sitt. Sú vegferð hefur staðið í mörg ár.
Þar segir hann að góð næring, hreyfing og svefn séu mikilvægustu atriðin til að halda jafnvægi. Lítil skref eru mikilvæg til að ná settu markmiði. Til dæmis bara það að tileinka sér rétta öndun eða þá að hreyfa sig reglulega og best virðist vera að blanda saman hreyfingu og útiveru. Þá skiptir mataræði afar miklu máli og mikilvægast er að hafa fæðuna sem minnst unna. Sölvi sagði að það væri allt of mikið um það fólk sé að láta ofan í sig eitthvað sem er ekki matur heldur bara „efni“. Þar á hann við að oft er mikið af aukaefnum í mat sem hafa þann tilgang að láta matinn líta betur út eða þá að hann skemmist síður. Slíkan mat ætti að forðast. Auðvitað er hægt að leyfa sér eitthvað óhollt af og til en það má ekki vera uppistaðan í fæðuvali einstaklinga.
Sölvi talaði einnig um mikilvægi félagslegra tengsla og þess að eiga góða vini. Ef tengsl eru ekki góð er líklegt að kvillar sem séu til staðar magnist hjá fólki sem er félagslega einangrað.
Í spjalli Sölva kom einnig fram að hver og einn þurfi að hafa stjórn á skjánotkun sinni hvort sem er í tölvu eða síma. Hann segir það vont að byrja daginn eða enda á því að skoða samfélagsmiðla, slíkt geti haft áhrif á heilann og líðanina yfir daginn. Það er mikilvægt að reyna að slaka á og benti Sölvi t.d. á forritin Headspace og Calm sem geta hjálpað fólki.
Í lokin gafst krökkunum tækifæri til að spyrja Sölva ýmissa spurninga og það var óspart nýtt.
Við þökkum Sölva kærlega fyrir gott og einlægt erindi sem að hefur þann boðskap að hver og einn þurfi að leita skynsamlegra leiða til að ná jafnvægi í sínu lífi.
Í síðustu viku lögðu nemendur í fjallamennskunáminu land undir fót og héldu á Tröllaskaga til að læra fjallaskíðamennsku. Fjallaskíðaáfanginn í náminu er kenndur í samstarfi við Menntaskólann á Tröllaskaga sem staðsettur er á Ólafsfirði.
Til stóð að hefja ferðina á mánudegi en vegna slæms ferðaveðurs var brottför frestað um einn dag.
Hópurinn fór því frá Höfn á þriðjudagsmorgun og var kominn á Ólafsfjörð eftir um níu klukkutíma ferðalag.
Miðvikudagurinn fór í að fara yfir og máta búnaðinn, læra grunnatriði um snjóflóð og síðast en ekki síst prófa að ganga á fjallaskíðum og renna sér smá. Farið var í stutta fjallaskíðaferð frá skólanum, innanbæjar á Ólafsfirði.
Á morgni fimmtudags var byrjað á að meta snjóflóðahættuspá og veðurspá fyrir daginn. Að því loknu hélt hópurinn í fjallaskíðaferð þar sem gengið var upp í fjall fyrir ofan bæinn og „út í sveit“ eins og heimamenn segja. Hópurinn renndi sér svo niður stutta brekku og tók æfingu í leit í snjóflóði með snjóflóðaýli og snjóflóðaleitarstöng. Að æfingunum loknum var gengið aftur í skólann. Þegar þangað var komið um klukkan tvö keyrði hópurinn yfir á skíðasvæðið á Siglufirði þar sem restinni af deginum var varið. Þeir sem ekki kunnu á skíði fengu kennslu í auðveldu brekkunum og hinir sem kunnu á skíði skíðuðu erfiðari brekkur af miklum krafti.
Á föstudegi var farið aftur á skíðasvæðið á Siglufirði. Lyftan var tekin upp og gengið út fyrir svæðið þar sem æfingar í mati á snjóflóðahættu voru gerðar, ásamt æfingum í utanbrautaskíðun.
Laugardagurinn var svo ferðadagur þar sem keyrt var frá Ólafsfirði á Höfn.
Næsta ferð hjá fjallamennskunemunum verður aftur á Tröllaskagann í næstu viku (4.-9. mars) þar sem þau ljúka seinni hluta fjallaskíðanámskeiðsins. Nú er bara að vona að snjórinn haldist þrátt fyrir hlýtt veður næstu viku.
Myndirnar tóku kennarar námskeiðsins Tómas Einarsson og Sigurður Ragnarsson. Fleiri myndir úr ferðinni má sjá á fésbókarsíðu fjallanámsins
[modula id=“9770″]
Síðasta fimmtudag var haldið fyrsta „Kahoot“ kvöldið í FAS. Þá var haldin spurningakeppni á milli einstaklinga þar sem smáforritið Kahoot er notað til að svara spurningum. Það voru nokkrir spurningaflokkar eins og t.d. tónlist, kvikmyndir og staðreyndir um FAS. Í hverjum flokki voru síðan nokkar spurningar. Áður en keppnin hófst var pizza í boði fyrir þátttakendur og voru henni gerð góð skil.
Það er skemmst frá því að segja að þessi spurningakeppni tókst einstaklega vel og menn voru ánægðir með fyrirkomulagið. Það var líka góð mæting en yfir 20 nemendur mættu og tóku þátt í keppninni.
Verðlaun voru veitt fyrir fyrstu þrjú efstu sætin og það var fyrirtækið Þingvað sem var styrktaraðili keppninnar. Viðburðaklúbbur stefnir að annarri slíkri keppni á þessari önn.
Að lokum má geta þess að fótboltaklúbburinn ætlar mæta í FAS í kvöld og horfa á leik í meistardeildinni. Það eru stórliðin Atlético de Madrid og Juventus sem eigast við og hefst leikurinn klukkan 20.
[modula id=“9772″]
Lista- og menningarsvið FAS og Leikfélag Hornafjarðar hafa hafið æfingar á leikritinu „Fílamanninum“ eftir Bernard Pomerance.
Leikritið fjallar um síðustu sjö ár í ævi Joseph Merrick. Þegar við hefjum leik er búið að banna sýningar á honum bæði í Englandi og Brussel. Hins vegar hafði ungur skurðlæknir að nafni Frederick Treves séð hann og þar með vaknaði áhugi læknavísindanna á Merrick.
Joseph Merrick sem fæddist á Englandi árið 1862 og var haldinn sjúkdómi sem kallaður er Proteus heilkenni. Sjúkdómurinn gerði æsku hans mjög erfiða, hann hafnaði á vinnuhæli þar sem hann dvaldi þar til hann fékk starf í „Freak show“ vegna undarlegs útlits síns. Síðustu ár ævi sinnar dvaldi Merrick á Royal hospital London þar sem honum var búið heimili. Þar kom í ljós hans einstaka víðsýni og hve vel hann var lesinn. Hann varð því vinsæll af efri stéttum samfélagsins.
Verkið skiptir máli fyrir alla. Í því er verið að fjalla um stöðu manneskjunnar og hræðslu hennar við það óþekkta, hið ytra og áþreifanlega, annars vegar og hins vegar manneskjuna sjálfa, sálina og hvort hægt sé að greina þarna á milli. Þetta er mjög manneskjulegt verk sem fjallar um tilfinningar, skoðanir, ástina og um það hvernig við öxlum ábyrgð og ekki hvað síst hræðsluna við hið óþekkta.
Leikstjóri sýningarinnar er Stefán Sturla sem áður hefur sett upp sýningar á Hornafirði og er umsjónarmaður með uppbyggingu Lista- og menningarsviðs FAS.