Sölvi Tryggva heimsækir FAS

28.feb.2019

Í dag kom til okkar góður gestur. Það var Sölvi Tryggvason sem einhver okkar þekkja úr sjónvarpinu. Hann hefur undanfarið talað opinskátt um vanlíðan sína á árum áður og hvaða leiðir hann fór til að bæta líðan sína, bæði líkamlega og andlega.
Í upphafi sagði Sölvi frá því hvernig hann fékk lyf hjá læknum til að bæta líðan sína og takast á við daglegt líf þar sem oft var mikið álag.
Það kom þó að því að honum fannst nóg komið af slíku og vildi finna sjálfur leiðir til að breyta og bæta líf sitt. Sú vegferð hefur staðið í mörg ár.
Þar segir hann að góð næring, hreyfing og svefn séu mikilvægustu atriðin til að halda jafnvægi. Lítil skref eru mikilvæg til að ná settu markmiði. Til dæmis bara það að tileinka sér rétta öndun eða þá að hreyfa sig reglulega og best virðist vera að blanda saman hreyfingu og útiveru. Þá skiptir mataræði afar miklu máli og mikilvægast er að hafa fæðuna sem minnst unna. Sölvi sagði að það væri allt of mikið um það fólk sé að láta ofan í sig eitthvað sem er ekki matur heldur bara „efni“. Þar á hann við að oft er mikið af aukaefnum í mat sem hafa þann tilgang að láta matinn líta betur út eða þá að hann skemmist síður. Slíkan mat ætti að forðast. Auðvitað er hægt að leyfa sér eitthvað óhollt af og til en það má ekki vera uppistaðan í fæðuvali einstaklinga.
Sölvi talaði einnig um mikilvægi félagslegra tengsla og þess að eiga góða vini. Ef tengsl eru ekki góð er líklegt að kvillar sem séu til staðar magnist hjá fólki sem er félagslega einangrað.
Í spjalli Sölva kom einnig fram að hver og einn þurfi að hafa stjórn á skjánotkun sinni hvort sem er í tölvu eða síma. Hann segir það vont að byrja daginn eða enda á því að skoða samfélagsmiðla, slíkt geti haft áhrif á heilann og líðanina yfir daginn. Það er mikilvægt að reyna að slaka á og benti Sölvi t.d. á forritin Headspace og Calm sem geta hjálpað fólki.
Í lokin gafst krökkunum tækifæri til að spyrja Sölva ýmissa spurninga og það var óspart nýtt.
Við þökkum Sölva kærlega fyrir gott og einlægt erindi sem að hefur þann boðskap að hver og einn þurfi að leita skynsamlegra leiða til að ná jafnvægi í sínu lífi.

Aðrar fréttir

Landvarðanám í FAS

Landvarðanám í FAS

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á nám í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir. FAS fékk hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þennan áfanga. Námið byggir...

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Þjálfarar yngri landsliða Íslands hafa tilkynnt fyrstu æfingahópa sína fyrir komandi verkefni. Meðal þeirra sem fengu kallið í æfingahóp U18 drengja er Hilmar Óli Jóhannsson, nemandi á afreksíþróttasviði Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Hilmar Óli er...

Jólamatur í FAS

Jólamatur í FAS

Nú stendur yfir síðasta heila kennsluvika haustannarinnar. Í FAS hefur skapast sú hefð að bjóða nemendum og starfsfólki í sameiginlega jólamáltíð í lok annar. Það var því margt um manninn á Nýtorgi í dag þar sem var boðið upp á hangikét og meðlæti. Margir...