Fjallaskíðaferð 1

25.feb.2019

Í síðustu viku lögðu nemendur í fjallamennskunáminu land undir fót og héldu á Tröllaskaga til að læra fjallaskíðamennsku. Fjallaskíðaáfanginn í náminu er kenndur í samstarfi við Menntaskólann á Tröllaskaga sem staðsettur er á Ólafsfirði.
Til stóð að hefja ferðina á mánudegi en vegna slæms ferðaveðurs var brottför frestað um einn dag.
Hópurinn fór því frá Höfn á þriðjudagsmorgun og var kominn á Ólafsfjörð eftir um níu klukkutíma ferðalag.
Miðvikudagurinn fór í að fara yfir og máta búnaðinn, læra grunnatriði um snjóflóð og síðast en ekki síst prófa að ganga á fjallaskíðum og renna sér smá. Farið var í stutta fjallaskíðaferð frá skólanum, innanbæjar á Ólafsfirði.
Á morgni fimmtudags var byrjað á að meta snjóflóðahættuspá og veðurspá fyrir daginn. Að því loknu hélt hópurinn í fjallaskíðaferð þar sem gengið var upp í fjall fyrir ofan bæinn og „út í sveit“ eins og heimamenn segja. Hópurinn renndi sér svo niður stutta brekku og tók æfingu í leit í snjóflóði með snjóflóðaýli og snjóflóðaleitarstöng. Að æfingunum loknum var gengið aftur í skólann. Þegar þangað var komið um klukkan tvö keyrði hópurinn yfir á skíðasvæðið á Siglufirði þar sem restinni af deginum var varið. Þeir sem ekki kunnu á skíði fengu kennslu í auðveldu brekkunum og hinir sem kunnu á skíði skíðuðu erfiðari brekkur af miklum krafti.
Á föstudegi var farið aftur á skíðasvæðið á Siglufirði. Lyftan var tekin upp og gengið út fyrir svæðið þar sem æfingar í mati á snjóflóðahættu voru gerðar, ásamt æfingum í utanbrautaskíðun.
Laugardagurinn var svo ferðadagur þar sem keyrt var frá Ólafsfirði á Höfn.
Næsta ferð hjá fjallamennskunemunum verður aftur á Tröllaskagann  í næstu viku (4.-9. mars) þar sem þau ljúka seinni hluta fjallaskíðanámskeiðsins. Nú er bara að vona að snjórinn haldist þrátt fyrir hlýtt veður næstu viku.

Myndirnar tóku kennarar námskeiðsins Tómas Einarsson og Sigurður Ragnarsson. Fleiri myndir úr ferðinni má sjá á fésbókarsíðu fjallanámsins

[modula id=“9770″]

Aðrar fréttir

Landvarðanám í FAS

Landvarðanám í FAS

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á nám í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir. FAS fékk hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þennan áfanga. Námið byggir...

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Þjálfarar yngri landsliða Íslands hafa tilkynnt fyrstu æfingahópa sína fyrir komandi verkefni. Meðal þeirra sem fengu kallið í æfingahóp U18 drengja er Hilmar Óli Jóhannsson, nemandi á afreksíþróttasviði Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Hilmar Óli er...

Jólamatur í FAS

Jólamatur í FAS

Nú stendur yfir síðasta heila kennsluvika haustannarinnar. Í FAS hefur skapast sú hefð að bjóða nemendum og starfsfólki í sameiginlega jólamáltíð í lok annar. Það var því margt um manninn á Nýtorgi í dag þar sem var boðið upp á hangikét og meðlæti. Margir...