Í morgunsárið mátti sjá kæna ketti á ferð á Höfn og eftir að hafa farið um bæinn lá leiðin í Nýheima. Þetta var stór hluti væntanlegra útskriftarnemenda í FAS sem eru að gera sér dagamun því í dag er síðasti kennsludagur annarinnar. Hópurinn hefur greinilega mikið dálæti á kókómjólk og hefur Klóa sem fyrirmynd því þau hafa í dag tileinkað sér klæðaburð hans. Og að sjálfsögðu drekka þau kókómjólk.
Undanfarin ár hefur skólinn boðið væntanlegum útskriftarnemum og kennurum í morgunverð á þessum degi. Hún Dísa okkar í kaffiteríunni var búin að töfra fram alls kyns gómsætar kræsingar sem voru gerð góð skil. Við þetta tilefni er líka skólasöngur FAS æfður en hann verður að sjálfsögðu sunginn við útskrift.
[modula id=“9780″]

Nemendur í verkefnaáfanga vorið 2019. Frá vinstri: Wiktoria Anna Darnowska, Óttar Már Einarsson, Kristján Vilhelm Gunnarsson, Ísar Svan Gautason, Guðrún Ása Aðalsteinsdóttir, Fjóla Hrafnkelsdóttir, Díana Sóldís Einarsdóttir, Brandur Ingi Stefánsson, Arnar Ingi Jónsson og Aleksandra Wieslawa Ksepko.
Nemendur sem eru komnir langt í námi þurfa að taka áfanga sem heitir Verkefnaáfangi og er þetta fyrir marga eitt af síðustu verkefnum sem þeir vinna í FAS. Þetta geta verið rannsóknarverkefni, megindleg eða eigindleg en einnig eru dæmi um hönnun eða jafnvel stuttmynd.
Í dag var komið að því að nemendur áfangans kynntu verkefni sín. Og eins og áður var verkefnavalið og vinnuaðferðirnar fjölbreytt. Þannig mátti sjá heimildaverkefni, rannsóknarverkefni og svo umfjöllun um stuttmynd en hún verður sýnd í fyrirlestrasal Nýheima annað kvöld, fimmtudaginn 9. maí og hefst sýningin klukkan 20 og er öllum sem vilja boðið á sýninguna.
Eins og svo oft áður tókust kynningarnar ljómandi vel og krakkarnir stóðu sig frábærlega. Víst er að nú er mörgum þeirra létt yfir því að kynningunum sé lokið.

Hugmyndavinna hjá nemendum.
Í dag var komið að síðasta uppbroti annarinnar í FAS. Til okkar mætti Katrín Oddsdóttir lögfræðingur sem er formaður Stjórnarskrárfélags Íslands. Hún fjallaði um nýja stjórnarskrá og þátttökulýðræði. Sérstaklega lagði hún áherslu á virkni hvers og eins í sínu nærsamfélagi.
Í kjölfarið á innleggi Katrínar var haldinn nemendafundur þar sem safnað var saman hugmyndum að því sem nemendur vilja sjá gerast í félagsstarfi skólans á næsta skólaári. Í lok fundar kusu nemendur sér stjórn fyrir næsta skólaár. Það eru þær Ingunn Ósk, Íris Mist og Vigdís María sem ætla að leiða nemendafélag FAS á næsta ári. Það verður gaman að fylgjast með störfum þeirra á næsta ári.

Loftslagsverkfall á Höfn.
Í hádeginu í dag, föstudag 3. maí safnaðist töluverður fjöldi fólks saman á tröppum ráðhússins á Höfn til að vekja athygli á stöðu loftslagsmála. Þessi viðburður var á vegum einstaklinga úr Ungmennaráði Hornafjarðar en undanfarið hefur ungt fólk haft frumkvæði að því mótmæla af þessu tagi víða um heim.
Upphaflega var miðað við að nemendur úr Heppuskóla og FAS mættu á viðburðinn en þátttakendur voru á öllum aldri sem er náttúrulega frábært. Margir báru kröfuspjöld með slagorðum.
Íris Mist úr FAS og varaformaður Ungmennaráðs opnaði mótmælin með ræðu og Tómas Nói úr Heppuskóla var með gjallarhorn og stjórnaði slagorðum. Þá flutti Kristín Hermannsdóttir ræðu fyrir hönd Umhverfissamtaka Austur-Skaftafellssýslu. Í máli hennar kom fram mikilvægi þess að vera meðvitaður um eigin neyslu og að allir beri ábyrgð á stöðu mála. Í lokin flutti Dagmar Lilja lagið „Isn’t she lovely“ með Stevie Wonder.
Þeir sem áttu frumkvæði að viðburðinum eru afar sáttir og það er ekki ólíklegt að það verði framhald á mótmælunum enda er þetta mál sem skiptir alla miklu til framtíðar.
Dagana 8. – 12. apríl voru fjallanemar í námskeiðinu Hæfniferð A. Námskeiðið er fyrra af tveimur lokamatsnámskeiðum sem nemendur fara í gengum í lok vetrar. Að þessu sinni var farin sú leið að meta nemendur í þeim atriðum sem þeir hafa lært í vetur varðandi ferðamennsku, skipulagningu ferða og þess háttar, ásamt því að kenna þeim á kajak og fjallahjól í samstarfi við fyrirtæki í nágrenni skólans.
Fyrstu tveir dagar námskeiðsins voru helgaðir kajak og var það Óskar Arason hjá Iceguide sem sá um að kenna og útvega búnað fyrir nemendur. Fyrri daginn var farið í Þveitina, þar sem kennd voru grunnatriði í kajakróðri og hvernig bjarga á sjálfum sér og öðrum ef menn falla útbyrðis. Seinni daginn var farið í Hornafjörðinn. Farið var þegar útfall var í hámarki til að hægt væri að æfa róður í straumi. Farið var frá Leiðarhöfða, róið um fjörðinn með viðkomu á Suðurfjörum og svo komið í land við Óslandsbryggju.
Dagur þrjú og fjögur voru helgaðir fjallahjólum og var það Guðmundur Fannar Markússon hjá Iceland Bike Farm í Mörtungu II í Vestur-Skaftafellssýslu sem sá um að kenna námskeiðið og útvega búnað fyrir nemendur. Farið var að morgni frá FAS og keyrt að Mörtungu. Þegar þangað var komið hófst námskeiðið þar sem farið var yfir grunnatriði í notkun fjallahjóla og ýmsar tækniæfingar gerðar. Fjallahjólin sem hópurinn lærði á eru svokölluð „fulldempuð single track hjól“ sem henta sérlega vel til að hjóla m.a. á þröngum stígum eins og t.d. kindagötum. Seinni daginn hjólaði hópurinn um 10 km leið þar sem farið var bæði upp og niður brekkur, ýmist eftir bílslóðum eða kindagötum. Gist var í kjallaranum í Mörtungu II eina nótt.
Seinasta dag námskeiðsins var hópurinn í FAS og var hann nýttur í verkefnavinnu þar sem nemendur unnu m.a. að því að skipuleggja Hæfniferð B en í henni er áhersla m.a. lögð á leiðsöguhæfni nemenda.
Þetta er í fyrsta sinn sem Fjallanám FAS heldur kajak- og fjallahjólanámskeið. Nemendur og kennarar voru mjög sáttir með hvernig til tókst og stefnt er að því að þetta verði fastur liður í fjallanáminu. Hægt er að sjá fleiri myndir úr ferðunum á fésbókarsíðu fjallanámsins.
[modula id=“9781″]
Dagana 18. – 23. mars voru nemendur í námsskeiðinu Fjallaferð 2 en það er seinni hluti áfangans fjallaferðir, þar sem áhersla er lögð á vetrarferðir og fjallgöngur að vetri til. Námskeiðið var kennt út frá Höfn. Fyrsta daginn hittist hópurinn í skólastofu í FAS og nýtti fyrri part dagsins til að fara yfir ýmis atriði. Eftir hádegið hélt hópurinn svo upp í Bergárdal þar sem gengið var um á snjóþrúgum, farið var yfir hvernig gott er að ferðast í bröttum snjóbrekkum og ísaxarbremsa æfð.
Dagur tvö fór að mestu leyti í að undirbúa búnað og mat fyrir tveggja nátta ferð sem halda átti í seinna í vikunni. Þegar því var lokið fór hópurinn nokkurs konar klöngurferð í Grjótárgil á Mýrum.
Að morgni þriðja dags lagði hópurinn upp í þriggja daga ferð. Keyrt var frá Höfn upp að byrjun „gömlu leiðarinnar“ upp á Skálafellsjökul. Þaðan gekk hópurinn svo á snjóþrúgum og skiptist á að draga púlkur/sleða með búnaði og vistum. Nóttinni var svo eytt í tjaldi nokkra metra inn á jöklinum í um 550 metra hæð. Töluverður skafrenningur og rok var um nóttina og undir morgun fór frostið í um -9°C.
Á fjórða degi tók hópurinn niður tjöldin og hélt um 2 km spöl upp á jökulinn. Þar var hæðin orðin um 700 metrar og þar gróf hópurinn sér nokkur snjóhús/skýli til að gista í. Undir kvöld þegar til stóð að fara að koma sér í svefnpokana í snjóhúsunum ákvað hópurinn að hætta við að gista þar sem spáð var aftaka veðri seinni part nætur. Hópurinn dreif sig því til baka og var kominn á Höfn um ellefu um kvöldið.
Fimmti og síðasti dagurinn fór því í að ganga frá búnaði í FAS og fara yfir lærdóm vikunnar.
Kennari Fjallaferðar 2 var Einar Rúnar Sigurðsson og tók hann flestar af meðfylgjandi myndum. Hægt er að skoða fleiri myndir á fésbókarsíðu fjallanámsins.
[modula id=“9779″]