Leitað að olíu í FAS

Enn á ný tekur FAS þátt í að leita að olíu en skólinn hefur tekið árlega þátt frá árinu 2003. Leikurinn er spilaður á netinu og snýst um að skoða jarðlög til að leita að olíu. Þessi leikur hefur verið lengi notaður til að fræða fólk um hvað olíuiðnaðurinn snýst. Einnig þurfa liðin að huga að því að ná olíunni upp á sem hagkvæmastan hátt.
Það eru tveir skólar sem taka þátt í leiknum í dag, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum og FAS. Hér í FAS eru tvö lið, eitt strákalið og eitt stelpulið. Það lið sem vinnur keppnina í dag fær að taka þátt í lokakeppninni sem fer fram í Cambridge 25. janúar næstkomandi. Eins og undanfarin ár er það Orkustofnun sem styrkir leikinn.
Við óskum liðum okkar góðs gengis og vonum að allt gangi sem best.

FAS keppir í Gettu betur í kvöld

Gettu betur lið FAS.

Skólastarf vorannar hefst gjarnan á undankeppni í Gettu betur og að sjálfsögðu er FAS þar með. Að þessu sinni taka 28 skólar þátt og verður fyrsta umferð í þessari viku.
Þegar lið voru dregin saman kom í ljós að andstæðingar FAS verða úr Kvennó. Lið FAS er skipað þeim Ingunni Ósk, Júlíusi Aroni og Oddleifi. Það er fyrrum Gettu betur keppandi, Aðalsteinn Gunnarsson sem hefur séð um að þjálfa liðið.
Viðureignin hefst klukkan 20:30 í kvöld og er hægt að hlusta á keppnina á Rás2. Það verður líka hægt að koma í fyrirlestrasal Nýheima og fylgjast með krökkunum keppa. Þeir sem ætla að gera það þurfa að vera komnir í FAS klukkan 20.
Að sjálfsögðu óskum við liði okkar góðs gengis í kvöld og hvetjum sem flesta til að mæta eða þá að stilla á Rás 2.

Skólastarf vorannarinnar hafið

Skólinn settur á vorönn.


Skólastarf vorannarinnar hófst formlega í morgun með skólasetningu. Þar var farið yfir það helsta sem er framundan á önninni. Í kjölfarið voru svo umsjónarfundir þar sem nemendur skoðuðu stundatöflur sínar. Það er alltaf eitthvað um að nemendur vilji breyta vali og best að gera það sem fyrst. Frestur til að breyta áfangaskráningum rennur út 9. janúar. Sama á við um fjarnemendur, þeir þurfa að vera búnir að skrá sig í síðasta lagi þann dag.
Það er okkur sérstök ánægja að segja frá því að Fríður Hilda Hafsteinsdóttir hefur hafið störf sem námsráðgjafi við skólann. Hún mun kynna starf sitt fyrir nemendum á næstu dögum.
Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá mánudaginn 7. janúar.

Jólafrí og upphaf vorannar

Nú eiga allar einkunnir að vera komnar í INNU. Skólastarfi haustannar lýkur formlega í dag og um leið hefst jólafrí. Það verða nú líklega flestir kátir með að geta tekið því aðeins rólegar eftir annir síðustu vikna.

Skólastarf vorannar hefst 4. janúar klukkan 10. Þá verður fyrst farið yfir skipulag annarinnar og í kjölfarið verða umsjónarfundir. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá mánudaginn 7. janúar.

Starfsfólk FAS sendir nemendum sínum sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og vonar að nýtt ár verði öllum gott og heillaríkt.

Lokamatsviðtöl í FAS

Nemendur undirbúa lokamatsviðtal. 

Í dag hófust lokamatsviðtöl í FAS en þau koma í stað prófa. Hver nemandi þarf að mæta í viðtal hjá kennara sínum þar sem hann gerir grein fyrir vinnu sinni og svarar spurningum úr efni áfangans. Auk þess að mæta í viðtal skila nemendur námsmöppu sem gefur gott yfirlit yfir vinnu annarinnar. Í mörgum áföngum eru líka einhver próf á önninni enda mikilvægt að nemendur læri að takast á við slík verkefni. Nemendur eru hvattir til að undirbúa sem vel fyrir lokamatið.
Lokamatsviðtölin standa fram í næstu viku og fer það svolítið eftir fjölda í hverjum áfanga hversu langan tíma þau taka.
Kennarar munu setja inn endanlega einkunnir í Innu þegar þær eru tilbúnar en allar einkunnir eiga þó að vera komnar inn í síðasta lagi 20. desember.

Aðventuverður í Nýheimum

Það var vel mætt á aðventuverð í Nýheimum í hádeginu. Að frumkvæði FAS var efnt til sameiginlegs málsverðar fyrir íbúa Nýheima og aðstandendur nemenda. Tilefnið var að fá fólk til að hittast og ræða um FAS og hlutverk skólans í samfélaginu og um leið að spjalla saman.
Hún Hafdís okkar í teríunni sá um matseldina og naut aðstoðar Lindu. Það er varla réttnefni að tala um máltíð því eftir gestunum beið dýrindis hlaðborð með alls kyns gómsætum réttum eins og Dísu er einni lagið. Það var líka tekið hraustlega til matarins.
NemFAS hvatti alla til að mæta í jólapeysum í dag og reynt var að leggja mat á fegurð þess klæðnaðar. Veitt voru verðlaun fyrir fallegustu og ljótustu jólapeysur dagsins.
Það var mjög ánægjulegt að sjá hversu margir sáu sér fært að mæta og það var samdóma álit að samveran, spjallið og ekki síst maturinn hefði verið frábær og þetta væri vonandi viðburður kominn til að vera.