Fjallanemar læra á kajak og fjallahjól

29.apr.2019

Dagana 8. – 12. apríl voru fjallanemar í námskeiðinu Hæfniferð A. Námskeiðið er fyrra af tveimur lokamatsnámskeiðum sem nemendur fara í gengum í lok vetrar. Að þessu sinni var farin sú leið að meta nemendur í þeim atriðum sem þeir hafa lært í vetur varðandi ferðamennsku, skipulagningu ferða og þess háttar, ásamt því að kenna þeim á kajak og fjallahjól í samstarfi við fyrirtæki í nágrenni skólans.

Fyrstu tveir dagar námskeiðsins voru helgaðir kajak og var það Óskar Arason hjá Iceguide sem sá um að kenna og útvega búnað fyrir nemendur. Fyrri daginn var farið í Þveitina, þar sem kennd voru grunnatriði í kajakróðri og hvernig bjarga á sjálfum sér og öðrum ef menn falla útbyrðis. Seinni daginn var farið í Hornafjörðinn. Farið var þegar útfall var í hámarki til að hægt væri að æfa róður í straumi. Farið var frá Leiðarhöfða, róið um fjörðinn með viðkomu á Suðurfjörum og svo komið í land við Óslandsbryggju.

Dagur þrjú og fjögur voru helgaðir fjallahjólum og var það Guðmundur Fannar Markússon hjá Iceland Bike Farm í Mörtungu II í Vestur-Skaftafellssýslu sem sá um að kenna námskeiðið og útvega búnað fyrir nemendur. Farið var að morgni frá FAS og keyrt að Mörtungu. Þegar þangað var komið hófst námskeiðið þar sem farið var yfir grunnatriði í notkun fjallahjóla og ýmsar tækniæfingar gerðar. Fjallahjólin sem hópurinn lærði á eru svokölluð „fulldempuð single track hjól“ sem henta sérlega vel til að hjóla m.a. á þröngum stígum eins og t.d. kindagötum.  Seinni daginn hjólaði hópurinn um 10 km leið þar sem farið var bæði upp og niður brekkur, ýmist eftir bílslóðum eða kindagötum. Gist var í kjallaranum í Mörtungu II eina nótt.

Seinasta dag námskeiðsins var hópurinn í FAS og var hann nýttur í verkefnavinnu þar sem nemendur unnu m.a. að því að skipuleggja Hæfniferð B en í henni er áhersla m.a. lögð á leiðsöguhæfni nemenda.

Þetta er í fyrsta sinn sem Fjallanám FAS heldur kajak- og fjallahjólanámskeið. Nemendur og kennarar voru mjög sáttir með hvernig til tókst og stefnt er að því að þetta verði fastur liður í fjallanáminu. Hægt er að sjá fleiri myndir úr ferðunum á fésbókarsíðu fjallanámsins.

[modula id=“9781″]

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...