Þriggja landa menntaverkefnið ADVENT (Adventure Tourism in Vocational Education and Training) heldur
áfram af fullum krafti og gaman er að geta nú greint frá fyrsta íslenska
námskeiðinu sem er þriðja í röðinni af þeim níu námskeiðum sem prufukeyrð verða
í verkefninu. Nú þegar hefur verið greint frá fyrstu tveimur námskeiðunum á vef
FAS. Íslenska námskeiðið var prufukeyrt dagana 21. – 25. janúar sl. og snérist
um jöklaferðamennsku. Námskeiðið fékk enska heitið Ice adventure – Planning and Skills sem útleggst sem Ævintýri á ís,
skipulag og færni á íslensku.
Hugmyndafræði ADVENT verkefnisins snýst að miklu leyti um
að þátttakendur á námskeiðum leggi þekkingu sína og reynslu saman og í gegnum
upplifun, æfingar og samræður þátttakendanna verði til námssamfélag sem nýtist
öllum jafnt til að auka þekkingu sína og færni. Þátttakendahópurinn
samanstendur sem sagt ekki af nemendum og kennurum heldur eru það svokallaðir
leiðandi þátttakendur sem stýra námskeiðinu en allir leggja í púkkið. Þeir
leiðandi þátttakendur sem héldu utan um þetta námskeið voru Einar Rúnar
Sigurðsson frá ferðaþjónustufyrirtækinu Öræfaferðum og Sigurður Ragnarsson og
Eyjólfur Guðmundsson frá FAS. Þessir aðilar ásamt fleira góðu jökla- og fjalla
fólki unnu að grunngerð námskeiðsins, en Einar, Siggi og Eyjólfur leiddu
framkvæmdina sjálfa.
Þátttakendur námskeiðsins voru auk leiðandi þátttakendanna
þriggja, ferðaþjónustuaðilar og nemendur frá þátttökulöndunum þremur, þrír frá
Skotlandi, tveir frá Finnlandi og einn frá Íslandi.
Námskeiðið stóð í fimm daga þar sem fyrsti og síðasti dagur
námskeiðsins fóru í ferðalög á milli Reykjavíkur og Hornafjarðar. Voru þessir
dagar vel nýttir m.a. með stoppum við Sólheimajökul og fleiri áhugaverða staði.
Lagt var upp úr því að skapa tækifæri fyrir samtöl allra þátttakenda og var þar
víða komið við og t.d. rætt um rannsóknir á jöklum og eðli þeirra, skipulag
jöklaferðamennsku og sögu hennar, öryggismál, sjálfbærni og margt fleira.
Hópurinn hélt til á Litla-Hofi í góðu yfirlæti og þaðan var
haldið á jökul. Farið var á Skaftafells- og Breiðamerkurjökul og þeir báðir
nýttir til að kynnast mismunandi skriðjöklum með jöklagöngum, íshellaskoðun,
næturgistingu og ísklifri. Einnig var komið við í FAS þar sem málin voru rædd.
Þátttakendur voru hæstánægðir með þessa prufukeyrslu og erum við sem að þessu
verkefni stöndum þakklát gestunum fyrir framlag þeirra til námskeiðsins.
Fjórða námskeiðið í ADVENT verkefninu verður haldið í
Skotlandi í mars þar sem námskeið um leiðsögn og túlkun á vettvangi og hvernig
veita má gæðaþjónustu til ferðamanna verður prufukeyrt. Námskeiðið heitir á
ensku Guiding and
Interpretation – Quality Service. Þátttaka í námskeiðum
ADVENT eru frábær leið til að byggja undir menntun innan
afþreyingarferðaþjónustu á svæðinu og kjörið tækifæri fyrir þátttakendur að
bæta við sig reynslu og þekkingu.
Eins og margir muna eflaust var haldin landskeppni í
olíuleit í upphafi annar en sigurliðið í þeirri keppni öðlaðist þátttökurétt á
lokakeppni í Cambridge. Það var liðið „Olíuleit með pabba“ sem sigraði landskeppnina
en liðið skipa þeir Björgvin Freyr Larsson, Júlíus Aron Larsson, Kristján
Vilhelm Gunnarsson og Oddleifur Eiríksson.
Lokakeppnin fór fram föstudaginn 25. janúar í Schlumberger Cambridge Research
(SCR) en það er fyrirtæki sem sérhæfir sig m.a. í tæknilausnum fyrir
olíuiðnað. SCR er með starfsemi í 85
löndum og hjá fyrirtækinu starfa um 100.000 manns af rúmlega 140 þjóðernum í
alls konar fyrirtækjum. Eitt fyrirtækjanna er
Next sem er
hugbúnaðarfyrirtæki og hannar m.a. olíuleitarleikinn. Auk þess að hýsa keppnina
vill SCR kynna starfsemina og um leið benda ungu fólki á möguleg störf í
framtíðinni.
Á lokakeppnina var einnig mætt liðið sem sigraði landskeppnina í Noregi auk
nokkurra norskra styrktaraðila. Orkustofnun hefur styrkt keppnina á
Íslandi um árabil og hefur með því framlagi gert íslenska sigurliðinu kleift að
taka þátt í lokakeppni síðustu ára. Orkustofnun eru hér með færðar bestu
þakkir.
Það er skemmst frá því að segja að strákarnir okkar komu agaðir og yfirvegaðir
til leiks og voru mjög einbeittir á meðan keppnin stóð yfir. Það fór líka svo
að þeir unnu með miklum yfirburðum og hlutu að launum verðlaunagrip og
sæmdarheitið „Evrópumeistarar í olíuleit“.
Eftir keppnina var fyrirtækið kynnt og sagt frá því helsta sem það vinnur að.
Það vakti athygli okkar að tæknin í olíuiðnaðinum er um margt lík og tækni í
vinnslu á jarðhita á Íslandi. Þá vinnur fyrirtækið markvisst að því að
vistsporið við vinnsluna verði sem minnst. Nú er t.d. reynt að dæla sem mestu
af CO2 niður í jörðina fremur en að sleppa því út í andrúmsloftið.
Eftir hádegismat var farin skoðunarferð um fyrirtækið og síðar um daginn
skoðuðum við Cambridge undir leiðsögn. Þetta er þekktur háskólabær og þar eru
31 „college“ skólar staðsettir og mjög eftirsótt að komast í nám þangað. Margir
skólanna hafa starfað öldum saman. Kvöldinu lauk svo á sameiginlegum málsverði
á steikhúsi í Cambridge.
Á laugardeginum var svo haldið til London þar sem deginum var eytt í það að
skoða mannlífið og fara á skemmtilega sögusýningu um London fyrr á tímum.
Hópurinn átti flug til Íslands á laugardagskvöldinu og kom heim til Hafnar
seinni partinn á sunnudag.
Það er ekki á hverjum degi sem skólinn getur státað sig af titlum og af því
tilefni var efnt til móttökuhátíðar í FAS. Þar fengu strákarnir
viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna og skólinn fékk verðlaunagripinn afhentan
og fer hann nú í glerskápinn góða á efri hæðinni. Þar mun hann standa til
samlætis þeim tveimur verðlaunagripum sem FAS hefur fengið áður fyrir olíuleit.
Í lokin má geta þess að strákarnir fjórir voru einstaklega
flottir ferðafélagar og stóðu sig alls staðar með miklum sóma en voru engu að
síður staðráðnir að eiga skemmtilega daga og njóta ferðarinnar. Það er gaman
þegar allt gengur svona vel.
Í dag var komið að fyrsta uppbroti annarinnar og fjallaði það um heilsu og vellíðan. Nokkur atriði voru á dagskrá. Fyrst kynnti Fríður Hilda starf sitt en hún hóf starf sem námsráðgjafi nú um áramótin. Því næst kom Ragnheiður skólahjúkrunarfræðingur og fjallaði um hvað hver og einn geti gert til að honum líði sem best og nái sem bestum árangri í leik og starfi. Þar skiptir miklu máli að huga vel að mataræði, hreyfingu og rækta tengsl við fjölskyldu og vini. Mestu máli skiptir þó að gæta þess að sofa nægilega. Ragnheiður fjallaði einnig um hvað sé hægt að gera til að bæta andlega líðan og hvernig þekkja megi einkenni ef leita þarf eftir stuðningi til að bæta heilsuna. Jafnframt hvatti hún alla til að reyna að minnka skjánotkun og setja sjálfum sér bæði markmið og mörk. Við hér í FAS eru afskaplega ánægð að hafa þær Ragnheiði og Hildi starfandi við skólann og að nemendur geti leitað til þeirra. Í lokin sýndi Zophonías innslag úr fréttum þar sem var verið að segja frá kvíða og vanlíðan nemenda í MS og ástæðum fyrir þeirri líðan. Í lok uppbrotsins ræddu nemendur saman í hópum hvað þeir geti gert til að bæta líðan.
Á árunum 2016 – 2018 tók FAS þátt í Erasmus+ verkefni ásamt skólum frá Grikklandi, Ítalíu, Eistlandi og Lettlandi. Það verkefni fjallaði um hvernig eigi að stofna og reka fyrirtæki. Þegar allir þátttakendur hittust á Íslandi var ákveðið að halda áfram að vinna saman en nú að menningartengdri ferðaþjónustu. Ný umsókn var skrifuð og er búið að samþykkja hana. Nýja verkefnið ber heitið CultHerStud sem við köllum á íslensku menningartengd ferðaþjónusta. Það eru sömu skólar sem taka þátt í verkefninu. Í hverju landi er haldin einnar viku smiðja þar sem nemendur hittast og vinna saman. Í hverja smiðju fara fjórir nemendur frá hverju þátttökulandi. Fyrsta smiðjan verður haldin í næstu viku í Tallin í Eistlandi. Frá FAS fara fjórir nemendur og tveir kennarar. Það verður spennandi að heyra meira af þessu verkefni og ferðunum. Smiðja íslenska hópsins verður hér á Höfn í september á þessu ári.
Við höfum áður sagt frá því hér á síðu FAS að skólinn er
þátttakandi í þriggja landa Erasmus+ verkefni sem kallað er ADVENT og er
skammstöfun fyrir hið eiginlega heiti þess sem á ensku er Adventure toursim
in vocational education and training. Verkefnið er menntaverkefni og auk
FAS taka þátt Ríki Vatnajökuls, Rannsóknarsetur Hí og skólar,
rannsóknarstofnanir og ferðaþjónustuklasar í Skotlandi og Finnlandi.
Nú þegar hafa tvö útivistar- og ævintýraferðamennskunámskeið fyrir aðila í ferðaþjónustu og nemendur á því sviði verið prufukeyrð, það fyrra í Skotlandi og hið seinna í Finnlandi. Nú er komið að þriðja námskeiðinu af níu og verður það haldið í Öræfunum og verður kennslustofan okkar stórkostlegi Vatnajökull og nágrenni hans. Ekki amalegt það!
Námskeiðið fjallar um jöklaferðir og íshella og ber á ensku
heitið Ice adventure – Planning and skills. Námskeiðið hefst mánudaginn
21. janúar og stendur í fimm daga. Fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar
fyrir þátttakendurna sem koma að utan og frá Reykjavík og til baka, en
þátttakendur héðan af svæðinu hefja námskeiðið á þriðjudeginum og taka því þátt
í þrjá daga. Dagarnir þrír verða notaðir til margvíslegrar kynningar og
þjálfunar í jöklamennsku.
Kennarar á námskeiðinu eru Einar Rúnar Sigurðsson, Sigurður
Ragnarsson og Eyjólfur Guðmundsson.
Næsta námskeið í ADVENT verkefninu verður haldið í Skotlandi í mars og þá stendur til að prufukeyra námskeið um leiðsögn og túlkun á vettvangi og hvernig veita má gæðaþjónustu til ferðamanna, námskeiðið heitir á ensku Guiding and Interpretation – Quality Service.
Þessir strákar hafa svo sannarlega ástæðu til að vera kampakátir á svipinn því þeir gerðu sér lítið fyrir og unnu keppnina í olíuleitinni sem fram fór í síðustu viku. Þeir eru því á leiðinni til þess að taka þátt í lokakeppni PetroChallenge sem verður haldin í Cambridge þann 25. janúar næstkomandi. Að sjálfsögðu munum við fylgjast með því hvernig okkar mönnum gengur þar. Eins og undanfarin ár er það Orkustofnun sem styrkir þátttöku Íslands í olíuleitinni.
Þessi vefur notar vafrakökur (cookies) til að tryggja sem besta upplifun þegar hann er skoðaður. Þessi borði hverfur þegar þú samþykkir notkun. Þú getur breytt stillingum á kökum hvenær sem er.