Um miðjan ágúst var námskeið fyrir kennara í FAS. Viðfangsefni námskeiðsins var þema skólaársins sem er neysla og væntanleg þátttaka skólans í verkefni sem kallast Skólar á grænni grein (Eco-Schools), stundum líka kallað Grænfánaverkefnið. Það var Katrín Magnúsdóttir verkefnastjóri hjá Landvernd sem sá um námskeiðið.
Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni sem miðar að því að gera þátttakendur fróðari og meðvitaðri um sjálfbærni og umhverfisvernd. Þátttakendur í námskeiðinu skoðuðu mögulega útfærslu á verkefninu þannig að það myndi nást sem bestur árangur í FAS. Það er líka verðugt verkefni að gera alla meðvitaðari um neyslu sína. Það er fátt mikilvægara í dag en að fá fleiri til að draga úr neyslu og minnka sóun. Frekar þarf að huga að endurnýtingu og finna allar mögulegar leiðir til að minnka vistspor sitt. Og þar skipta öll litlu skrefin máli.
Skólar á grænni grein fylgja sjö skrefa ferli sem efla vitund nemenda og starfsmanna allra um umhverfismál. Ef skólinn nær markmiðum sínum fær hann að flagga grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Nú þurfum við í FAS að taka höndum saman og ná settu marki.