Í þrjá áratugi hefur Félag þýzkukennara staðið fyrir nokkurs konar stöðuprófi sem kallast þýskuþraut og er þrautin í samvinnu við Þýska sendiráðið. Tilgangurinn er að vekja athygli á og auka veg þýskunnar. Nemendum sem hafa náð ákveðnu stigi í tungumálanáminu stendur til boða að taka þátt í þessari þraut. Í gegnum tíðina hafa þó nokkrir nemendur í FAS spreytt sig á þrautinni og mörgum hefur gengið ágætlega.
Þegar þrautin var lögð fyrir á þessari önn ákvað Ingunn Ósk Grétarsdóttir að vera með. Það var heldur betur góð ákvörðun því að hún gerði sér lítið fyrir og vann þrautina sem er náttúrulega frábært. Tvö efstu sætin í þrautinni fá í verðlaun fjögurra vikna dvöl í Þýskalandi. Fyrstu tvær vikurnar er dvalið hjá fjölskyldum og gengið í skóla þar sem að sjálfsögðu er verið að tala og læra þýsku. Hinar tvær vikurnar er ferðast vítt og breitt um Þýskaland þar sem þýsk menning og daglegt líf í landinu er í öndvegi.
Í fyrradag stóðu Félag þýzkukennara og sendiráðið fyrir uppskeruhátíð þýskunnar. Þar voru veittar viðurkenningar fyrir 20 efstu sætin í þýskuþrautinni og eins fyrir stuttmyndakeppni sem haldin er ár hvert. Að sjálfsögu mætti Ingunn Ósk þangað til að taka á móti viðurkenningu. Það var þó ekki eina erindið hennar til Reykjavíkur því í leiðinni tók hún grunnpróf á saxófón. Það verður því nóg um að vera hjá Ingunni Ósk næstu vikurnar og mánuðina. Hún fer í Þýskalandsreisuna um 20. júní og svo fær hún í september tækifæri til að æfa með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands eins og við höfum áður greint frá.
Við óskum Ingunni Ósk til hamingju með þennan frábæra árangur og vonum að allt gangi sem best í hennar verkefnum á næstunni.
Nánar er sagt frá uppskeruhátíðinni á fésbókarsíðu Þýska sendiráðsins.
[modula id=“9782″]