
Uppbrot um vísindadaga og Grænfánaverkefnið.
Eftir hádegi í dag var komið að öðru uppbroti annarinnar í FAS. Tilgangurinn var tvenns konar. Annars vegar að ræða við nemendur um vísindadaga sem verða 30. – 31. október. Nú er ætlunin að bregða undir sig betri fætinum og fara í ferðalag í Skaftártungu og vinna að ýmsum verkefnum þar. Gert er ráð fyrir að fara á miðvikudegi og gista eina nótt. Með því að vinna vel í tvo daga er hægt að vinna sér inn frí á föstudeginum og þá hægt að hafa langa helgi. Ef það eru einhverjir sem telja að þeir komist ekki í ferðina á vísindadögum er þeir beðnir um að senda póst á Eyjólf (eyjo@fas.is) fyrir lok næstu viku.
Þá var þátttaka skólans í Grænfánaverkefninu Skólar á grænni grein kynnt þar sem við veltum fyrir okkur hvað við getum gert til að verða meðvitaðri um umhverfið okkar og hvað við getum gert til að minnka vistspor okkar. Til að stýra þeirri vinnu verður stofnuð Umhverfisnefnd FAS þar sem bæði nemendur og starfsmenn eiga fulltrúa. Fyrsti fundur umhverfisnefndarinnar er fyrirhugaður í næstu viku. Fyrsta verkefnið á önninni er að hver skoði ferðavenjur og neyslumynstur sitt. Það verður nánar kynnt eftir fund nefndarinnar. Við hvetjum alla til að vera virkir og taka þátt því að gera okkar besta til að minnka vistsporið og þar með að bæta jörðina okkar.
Félagslífið í FAS fer ágætlega af stað á haustdögum. Líkt og undanfarin ár fer mikið fyrir klúbbastarfi. Núna eru sex klúbbar starfandi. Það eru formenn klúbba og forsetar skólans sem mynda nemendaráð skólans.
Í gær var komið að fyrsta opinberlega viðburðinum. Hann kallaðist Kráargátur sem flestir þekkja sem Pubquiz. Viðburðurinn fór fram í Ungmennahúsi en FAS hefur aðgang að því á þriðjudögum og fimmtudögum. Krakkarnir stefna að því að nýta þessa frábæru aðstöðu eins og kostur er í vetur.
Það var ágætlega mætt í gær og keppnin var jöfn og spennandi. Það fór þó svo að lokum að liðið hans Kristofers vann og þurfti innbyrðis viðureign til að sjá hver fengi verðlaunin. Og það var Kristofer sjálfur sem stóð uppi sem sigurvegari.
[modula id=“9785″]
Í dag fengum við í FAS til okkar góða gesti en þar var vísindafólk frá háskóla í Salzburg í Austurríki. Þar hefur verið hannað verkfæri sem kallast citizenMorph sem er forrit fyrir snjalltæki (snjallsíma og spjaldtölvur). Með því er hægt að skrá það sem vekur eftirtekt í náttúrunni og/eða breytingar sem verða s.s. grjóthrun og jarðsig. Tilgangurinn með forritinu er að safna upplýsingum um landslagsbreytingar frá almenningi en um leið gagnast upplýsingarnar vísindaheiminum. Þannig styður almenningur við náttúrurannsóknir og beinir sjónum vísindamanna að tilteknum atburðum. Samstarfsaðilar háskólans í Austurríki hér á Höfn eru Náttúrustofa Suðausturlands og Vatnajökulsþjóðgarður og mættu nokkrir á þeirra vegum í morgun.
Tilgangurinn með ferðinni til Íslands var að biðja samstarfsaðilana um að prófa forritið og af því var efnt til vinnustofu í FAS. Nemendur í jarðfræði voru fengnir til að taka þátt í vinnustofunni. Fyrst var sagt frá forritinu og hver tilgangurinn með því er. Því næst var farið yfir nokkur möguleg landform sem er að finna í náttúru svæðisins. Þegar þátttakendur höfðu sett forritið inn í símana sína var þeim skipt í smærri hópa sem fóru á nokkra staði á Höfn og í nágrenni til að prófa forritið. Í lokin hittust hóparnir aftur og báru saman bækur sínar.
Verkefnið gekk vel og nemendur FAS stóðu sig frábærlega. Og vísindafólkið fékk líka margar gagnlegar ábendingar til að betrumbæta forritið. Þegar forritið hefur verið endurbætt er ætlunin að það verði opið fyrir almenning sem getur nýtt það í útivist og gönguferðum. Áhugasamir geta nálgast smáforritið á eftirfarandi slóð: http://citizenmorph.sbg.ac.at/
Eftir vinnustofuna var ákveðið að nota forritið í vettvangsferðum í FAS á næstunni.
[modula id=“9786″]
Þann 26. ágúst hélt hópur nemenda úr fjallamennskunáminu af stað í þeirra fyrstu ferð í áfanganum Gönguferðir. Námskeiðinu er skipt upp í tvo verklega hluta, en einnig er farið í bóklegt námsefni innan hvers hluta.
Fyrsti hluti námskeiðsins fór fram innandyra í FAS og farið var yfir ýmislegt gagnlegt, til dæmis um hvernig sé best að pakka, hvað þarf að hafa í huga við skipulagningu, hvernig mat sé gott að hafa með í slíkar ferðir og fleira sem skiptir máli.
Á öðrum degi var áætlað að nýta fyrri hluta dags til þess að fara yfir það helsta sem við kemur kortalestri, notkun áttavita og gerð logg bóka. Eftir það átti að leggja af stað í gönguferðina en vegna veðurs varð að fresta upphafi göngunnar þar til daginn eftir. Því var dagurinn nýttur í ýmsar æfingar tengdum kortalestri og notkun áttavita ásamt því að skrá í logg bókina leiðarkort fyrir fyrirhugaða ferð.
Miðvikudaginn 28. ágúst klukkan 08:00 mættu fimm hressir strákar sem höfðu beðið með eftirvæntingu eftir því að fara í fyrstu gönguferðina. Keyrt var frá FAS upp í Lón, þar sem gangan hófst. Fyrri daginn var gengið inn Endalausadal þar sem að vaða þurfti meðal annars yfir eina á og var áhersla lögð á kortalestur og notkun áttavita. Seinnipartinn var svo farið að leita eftir náttstað og var tjaldað á fallegum stað við vatnsföllin í Endalausadal. Kvöldinu var svo eytt í almennum tjaldbúða “fíling” þar sem setið var við eldamennsku og spjallað um daginn og veginn.
Að morgni fimmtudags vöknuðu sumir ansi blautir í tjaldinu en það kom ekki að sök og var gleðin við völd. Eftir nokkuð vætusama nótt var pakkað saman og enn og aftur gengdu kortið og áttavitinn aðalhlutverki. Gengið var út Endalausadal og niður í Laxárdal í Nesjum og komið var til byggða um miðjan dag.
Í heildina gekk ferðin mjög vel og höfðu nemendur gaman af, allir komu heilir heim þrátt fyrir smá bleytu.
Kennari námskeiðsins var Sólveig V. Sveinbjörnsdóttir.
[modula id=“9784″]

Jón Garðar Bjarnason
Í dag var komið að fyrsta uppbroti vetrarins í FAS en þá koma til okkar gestir til að ræða mikilvæg mál. Að þessu sinni kom Jón Garðar Bjarnason lögregluvarðstjóri og ræddi við hópinn. Í byrjun sagði Jón Garðar frá fyrirhugaðri hópslysaæfingu sem verður haldin næstkomandi laugardag en nokkrir nemendur hafa ákveðið að taka þátt í æfingunni. Það er lögreglan á Suðurlandi, sveitarfélagið og ISAVIA sem standa fyrir æfingunni ásamt Almannavörnum sem vinnur að gerð hættumats og viðbragðsáætlana ef slys eða óhöpp verða. Slysaæfing sem þessi er afar mikilvæg til að viðbragðsaðilar stilli saman strengi og geti brugðist rétt við þegar raunverulegir atburðir eiga sér stað. Lögregla hefur ætíð yfirumsjón þegar slys eða óhöpp verða og hefur yfirstjórn á vettvangi. Það eru fjöldamargir sem koma að þegar stór atburður á sér stað og afar mikilvægt að allir viti hvað þeir eiga að gera. Því þarf reglulega að fara yfir verkferla og rifja upp hvernig á að bregðast við. Fjögur ár eru liðin frá því að hér var síðast haldin hópslysaæfing sem þessi.
Jón Garðar átti gott spjall við hópinn og kom víða við. Hann fór t.d. yfir hvað eigi að gera ef að við lendum í því að vera fyrst að koma á slysavettvang. Þá ræddi hann um hversu mikilvægt það er að vera sannur sjálfum sér og vera leiðtogi í eigin lífi fremur en að láta aðra stjórna sér. En vera þó jafnframt virkur samfélagsþegn og taka þátt í því sem maður hefur áhuga á.
Nemendur voru sérlega áhugasamir og fylgdust vel með. Við þökkum Jóni Garðari kærlega fyrir komuna og hans ágæta spjall.
Í dag var farið í árlega ferð á Skeiðarársand. Tilgangurinn var að vitja fimm gróðurreita sem eru á vegum FAS. Þessir reitir voru settir niður 2009 og er ætíð reynt að fara á sama árstíma til að skoða reitina svo samburður verði sem réttastur. Líkt og áður vorum það nemendur í áfanga sem heitir Inngangur að náttúruvísindum sem fóru í ferðina og sáu um mælingar undir handleiðslu Eyjólfs og Hjördísar í FAS og Kristínar á Náttúrustofu Suðausturlands.
Hver reitur er 25 fermetrar og það er ýmislegt sem þarf að skoða. Það þarf t.d. að áætla gróðurþekju í hverjum reit og einnig að leggja mat á annan gróður. Mesta vinnan er að telja og flokka trjáplöntur innan reitsins en þar er einkum að finna birki, loðvíði og gulvíði. Allar trjáplöntur sem eru hærri en 10 cm eru mældar sérstaklega, bæði hæð og ársvöxtur. Þá er horft eftir rekklum og leitað ummerkja eftir skordýr eða beit.
Auk reitanna fimm eru tvö tré mæld sérstaklega. Þau eru bæði vel yfir þrjá metra á hæð.
Ferðin í dag gekk ljómandi vel og lögðu allir sitt af mörkum til að mælingar gengju sem best. Næstu daga mun verða unnið áfram með upplýsingarnar úr ferðinni og þær notaðar til að bera saman við niðurstöður fyrri ára.
[modula id=“9783″]