Notkun staðsetningartækja og þverun straumvatna

Dagana 9. – 12. október, voru fjallamennskunemar í námskeiðinu Gönguferð 2. Námskeiðið er seinni hluti verklegrar kennslu í áfanganum Gönguferðir. Áherslan í þessari törn var á að læra á notkun GPS tækja, GPS forrita í síma, þverun straumvatna og halda áfram með þá hluti sem nemendurnir kynntust í Gönguferð 1 í lok ágúst.

Fyrsti dagur námskeiðsins fór í að kynnast staðsetningartækjum og skipuleggja tveggja daga gönguferð um Reyðarárdal og Össurárdal. Dagar tvö og þrjú fóru svo í að framkvæma gönguferðina. Fyrri daginn lék veðrið við hópinn, en um nóttina og seinni daginn fékk hópurinn slagveðursrigningu. Sumir sváfu illa í veðurofsanum um nóttina, en allir komu þó með bros á vör til byggða, þrátt fyrir að ekki væri þurr þráður á sumum.

Fjórði dagurinn fór svo í að læra þverun straumvatna. Byrjað var á stuttum fyrirlestri um straumvötn, en svo klæddi hópurinn sig svo upp í þurrgalla og björgunarvesti og skellti sér í æfingar í Laxá í Nesjum. Þar æfðu nemendur sig í að vaða ár með mismunandi aðferðum, synda í land ef vaðið reyndist of erfitt og síðast en ekki síst bjarga fólki á sundi, með notkun kastlínu.

Fyrirtækið Iceguide sá hópnum fyrir búnaði og er virkilega ánægjulegt að fyrirtæki í heimabyggð styðji við námið með svona öflugum hætti og færum við þeim kærar þakkir fyrir. Eins og á fyrra námskeiði sáu Ástvaldur Helgi Gylfason og Sigurður Ragnarsson um kennsluna.

[modula id=“9764″]

ADVENT – námskeið og ráðstefna í Skotlandi

Erasmus+ verkefnið ADVENT sem FAS er í forsvari fyrir snýr að því að efla nám og nýsköpun í afþreyingarferðaþjónustu.
Fyrsta námskeiðið af níu sem hönnuð verða var prufukeyrt í Fort William í Skotlandi 8. – 10. október síðastliðinn. Á námskeiðinu kynntust þátttakendur því hvernig markvisst er hægt að nýta útivist og þær áskoranir sem þar er hægt að finna til að bæta andlega og félagslega líðan. Þrír þátttakendur frá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum tóku þátt og átta frá samstarfsþjóðunum Finnlandi og Skotlandi.

Þátttakendur upplifðu hin margvíslegustu ævintýri á námskeiðinu auk þess að fá innsýn í fræði “Adventure Therapy”. M.a. var farið í sjósund, fjallgöngu, gist var í afskekktum fjallakofa og gengið yfir „vírabrú“.

Í kjölfar námskeiðsins fjölgaði í íslenska hópnum sem tók þátt í verkefnafundi og fjölmennri ráðstefnu um útivist og leiðir til að auka almenna vellíðan, “Adventure Therapy”.  Á ráðstefnunni var vefsíða verkefnisins  formlega opnuð.

Næstu námskeið ADVENT verð haldin í Finnlandi í nóvember og á Íslandi í janúar. Þar og á næstu mánuðum verða spennandi tækifæri fyrir aðila í afþreyingarferðaþjónustu til að prófa nýjar leiðir og sinna endurmenntun innan fyrirtækjanna.

[modula id=“9761″]

Framhaldsnámskeið í klettaklifri

Dagana 1.- 5. október fór fram námskeiðið Klettaklifur 2, sem er framhaldsnámskeið af námskeiðinu sem haldið var fyrir tveimur vikum.

Í þessari viku var áherslan á að kynnast sem flestum tegundum klettaklifurs. Á síðasta námskeiði kynntust krakkarnir sportklifri á Hnappavöllum, en auk þess lærðu þau núna svokallaða grjótglímu í steinunum við Vestrahorn og fengu kynningu á dótaklifri og fjölspannaklifri. Ekki lét hópurinn þar við sitja heldur eyddi nokkrum tíma í að síga og júmma (í myndaalbúminu er mynd af júmmi) eins og það er kallað ásamt því að nota bergtryggingar og læra grunnatriði í línuvinnu.

Veðrið reyndist hópnum erfitt þessa vikuna og ekki tókst að gista í tjaldi á Hnappavöllum eins og til stóð, en þess í stað var námskeiðið keyrt frá Höfn og farið kletta í nágrenninu. Staðirnir sem heimsóttir voru, voru; Vestrahorn, Hnappavellir, Geitafell, og Hellisholt. Enn og aftur þökkum við landeigendum fyrir að leyfa okkur að nota þessar klettaperlur hér í nágrenni við Höfn til kennslu.

Þess má svo til gamans geta að Hnappavellir og svæðið í og við Vestrahorn eru tvö af bestu klifursvæðum landsins. Kennarar á þessu námskeiði voru Árni Stefán Haldorsen og Sigurður Ragnarsson.

[modula id=“9763″]

Nýjungar byggðar á menningararfleifð

FAS fékk nýlega styrk frá Erasmus+ fyrir verkefni sem kallast Cultural heritage in the context of students’ careers eða Nemendur skapa verkefni byggð á menningararfleifð og er verkefnið er til tveggja ára. Ætlunin er að vinna verkefni um menningararfleifð þjóðarinnar og á það jafnframt að tengjast menningartengdri ferðaþjónustu. Unnið er í samvinnu við fjóra skóla í jafn mörgum löndum frá Ítalíu, Grikklandi, Eistlandi og Litháen. Þetta eru sömu skólar og FAS vann með í síðasta Erasmus+ verkefni.

Unnið er í smiðjum í hverju landi þar sem hver þjóð leggur áherslu á menningu sína. Nemendur heimsækja síðan hvert land og kynnast verkefnum hverrar smiðju og læra og taka þátt í viðfangsefnum hverrar þjóðar.

Markmiðið  með Nemendur skapa verkefni byggð á menningararfleið er að hvetja nemendur og kennara að vinna verkefni úr eigin menningu sem kynningu fyrir nemendur frá öðrum Evrópuríkjum og styrkja og skapa tengsl milli þjóða í Evrópu. Á þessum tveimur verkefnisárum verða framtíðarmöguleikar kynntir fyrir nemendum okkar með því að hjálpa þeim að búa til leiðsögn sem sameinar sérkenni, sögu og náttúru hvers lands. Nemendur skapa því menningarferðalag í hverri smiðju þar sem þjóðsögur, sögusagnir og náttúra hverrar þjóðar eru meginviðfangsefnin.
Umsjón með verkefninu fyrir hönd FAS hefur Stefán Sturla umsjónarmaður Lista- og menningarsviðs skólans.

Morgunstund á Nýtorgi

Kaffistund á Nýtorgi.

Í morgun var komið að annarri sameiginlegu samverustundinni á Nýtorgi. Að þessu sinni var það starfsfólk Menningarmiðstöðvarinnar og þeir sem tengjast í Nýheima en hafa ekki vinnuaðstöðu í húsinu sem buðu upp á kræsingar.
Líkt og áður var margt um manninn og heyra mátti glaðlegt skraf um leið og kræsingunum voru gerðar góð skil.
Við erum strax farin að hlakka til næstu samveru.

Kaffihúsakvöld Nemfas

Frá nýnemaballi.

Það má heldur betur segja að félagslífið í skólanum fari vel af stað á önninni. Strax í þriðju viku var bíókvöld í skólanum. Í síðustu viku var svo nýnemaball í Sindrabæ.
Nú er komið að fyrsta kaffihúsakvöldi annarinnar en það verður í kvöld, 27. september. Það eru bókaklúbbur, tónlistarklúbbur og spilaklúbbur sem standa að því í samstarfi við Málfundafélag skólans. Hægt verður að taka þátt í pub quiz og eru vinningar fyrir þá sem standa sig best.
Klúbbarnar lofa notalegri stemmingu þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Boðið verður upp á heitar vöfflur og fleira bakkelsi.
Kaffihúsakvöldið verður á Nýtorgi og hefst klukkan 20. Aðgangseyrir er 500 krónur. Við hvetjum alla nemendur til að mæta og eiga notalega kvöldstund í Nýheimum.