Í dag var komið að fyrsta uppbroti vetrarins í FAS en þá koma til okkar gestir til að ræða mikilvæg mál. Að þessu sinni kom Jón Garðar Bjarnason lögregluvarðstjóri og ræddi við hópinn. Í byrjun sagði Jón Garðar frá fyrirhugaðri hópslysaæfingu sem verður haldin næstkomandi laugardag en nokkrir nemendur hafa ákveðið að taka þátt í æfingunni. Það er lögreglan á Suðurlandi, sveitarfélagið og ISAVIA sem standa fyrir æfingunni ásamt Almannavörnum sem vinnur að gerð hættumats og viðbragðsáætlana ef slys eða óhöpp verða. Slysaæfing sem þessi er afar mikilvæg til að viðbragðsaðilar stilli saman strengi og geti brugðist rétt við þegar raunverulegir atburðir eiga sér stað. Lögregla hefur ætíð yfirumsjón þegar slys eða óhöpp verða og hefur yfirstjórn á vettvangi. Það eru fjöldamargir sem koma að þegar stór atburður á sér stað og afar mikilvægt að allir viti hvað þeir eiga að gera. Því þarf reglulega að fara yfir verkferla og rifja upp hvernig á að bregðast við. Fjögur ár eru liðin frá því að hér var síðast haldin hópslysaæfing sem þessi.
Jón Garðar átti gott spjall við hópinn og kom víða við. Hann fór t.d. yfir hvað eigi að gera ef að við lendum í því að vera fyrst að koma á slysavettvang. Þá ræddi hann um hversu mikilvægt það er að vera sannur sjálfum sér og vera leiðtogi í eigin lífi fremur en að láta aðra stjórna sér. En vera þó jafnframt virkur samfélagsþegn og taka þátt í því sem maður hefur áhuga á.
Nemendur voru sérlega áhugasamir og fylgdust vel með. Við þökkum Jóni Garðari kærlega fyrir komuna og hans ágæta spjall.
Jólafrí og upphaf vorannar
Í dag lýkur starfi haustannar formlega og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Þá er líka komið jólafrí í skólanum sem er örugglega kærkomið hjá flestum. Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 6. janúar klukkan 8:30 en þá eiga nemendur að mæta hjá...