Þann 26. ágúst hélt hópur nemenda úr fjallamennskunáminu af stað í þeirra fyrstu ferð í áfanganum Gönguferðir. Námskeiðinu er skipt upp í tvo verklega hluta, en einnig er farið í bóklegt námsefni innan hvers hluta.
Fyrsti hluti námskeiðsins fór fram innandyra í FAS og farið var yfir ýmislegt gagnlegt, til dæmis um hvernig sé best að pakka, hvað þarf að hafa í huga við skipulagningu, hvernig mat sé gott að hafa með í slíkar ferðir og fleira sem skiptir máli.
Á öðrum degi var áætlað að nýta fyrri hluta dags til þess að fara yfir það helsta sem við kemur kortalestri, notkun áttavita og gerð logg bóka. Eftir það átti að leggja af stað í gönguferðina en vegna veðurs varð að fresta upphafi göngunnar þar til daginn eftir. Því var dagurinn nýttur í ýmsar æfingar tengdum kortalestri og notkun áttavita ásamt því að skrá í logg bókina leiðarkort fyrir fyrirhugaða ferð.
Miðvikudaginn 28. ágúst klukkan 08:00 mættu fimm hressir strákar sem höfðu beðið með eftirvæntingu eftir því að fara í fyrstu gönguferðina. Keyrt var frá FAS upp í Lón, þar sem gangan hófst. Fyrri daginn var gengið inn Endalausadal þar sem að vaða þurfti meðal annars yfir eina á og var áhersla lögð á kortalestur og notkun áttavita. Seinnipartinn var svo farið að leita eftir náttstað og var tjaldað á fallegum stað við vatnsföllin í Endalausadal. Kvöldinu var svo eytt í almennum tjaldbúða “fíling” þar sem setið var við eldamennsku og spjallað um daginn og veginn.
Að morgni fimmtudags vöknuðu sumir ansi blautir í tjaldinu en það kom ekki að sök og var gleðin við völd. Eftir nokkuð vætusama nótt var pakkað saman og enn og aftur gengdu kortið og áttavitinn aðalhlutverki. Gengið var út Endalausadal og niður í Laxárdal í Nesjum og komið var til byggða um miðjan dag.
Í heildina gekk ferðin mjög vel og höfðu nemendur gaman af, allir komu heilir heim þrátt fyrir smá bleytu.
Kennari námskeiðsins var Sólveig V. Sveinbjörnsdóttir.
[modula id=“9784″]