
Uppbrot um vísindadaga og Grænfánaverkefnið.
Eftir hádegi í dag var komið að öðru uppbroti annarinnar í FAS. Tilgangurinn var tvenns konar. Annars vegar að ræða við nemendur um vísindadaga sem verða 30. – 31. október. Nú er ætlunin að bregða undir sig betri fætinum og fara í ferðalag í Skaftártungu og vinna að ýmsum verkefnum þar. Gert er ráð fyrir að fara á miðvikudegi og gista eina nótt. Með því að vinna vel í tvo daga er hægt að vinna sér inn frí á föstudeginum og þá hægt að hafa langa helgi. Ef það eru einhverjir sem telja að þeir komist ekki í ferðina á vísindadögum er þeir beðnir um að senda póst á Eyjólf (eyjo@fas.is) fyrir lok næstu viku.
Þá var þátttaka skólans í Grænfánaverkefninu Skólar á grænni grein kynnt þar sem við veltum fyrir okkur hvað við getum gert til að verða meðvitaðri um umhverfið okkar og hvað við getum gert til að minnka vistspor okkar. Til að stýra þeirri vinnu verður stofnuð Umhverfisnefnd FAS þar sem bæði nemendur og starfsmenn eiga fulltrúa. Fyrsti fundur umhverfisnefndarinnar er fyrirhugaður í næstu viku. Fyrsta verkefnið á önninni er að hver skoði ferðavenjur og neyslumynstur sitt. Það verður nánar kynnt eftir fund nefndarinnar. Við hvetjum alla til að vera virkir og taka þátt því að gera okkar besta til að minnka vistsporið og þar með að bæta jörðina okkar.