Síðasta námskeið menntaverkefnis Erasmus+, ADVENT (Adventure Tourism in Vocational Education and Training) var prufukeyrt í síðustu viku janúar. Þetta síðasta námskeið fjallaði um hvernig segja má sögur með aðstoð snjalltækja og samfélagsmiðla.
Umsjónaraðili námskeiðsins var Sólveig Sveinbjörnsdóttir en auk hennar komu Stephan Mantler, Þorvarður Árnason og Guillaume M. Kollibay að framkvæmd þess. Fimm erlendir þátttakendur komu hingað til þátttöku og voru þeir eins og áður frá Skotlandi og Finnlandi.
Á námskeiðinu sem stóð í fjóra daga var m.a. farið í grunnatriði ljósmyndunar og möguleika snjallsímans til myndatöku. Í framhaldinu var farið út í okkar stórbrotnu náttúru og færnin reynd. Námskeiðinu lauk síðan með því að unnið var með leiðir til að nýta mismunandi samfélagsmiðla við að segja þá sögu sem hver og einn þátttakandi kaus.
Síðasti formlegi viðburður ADVENT verkefnisins er lokaráðstefna sem haldin verður í Nýheimum föstudaginn 5. júní n.k. Þar verður verkefnið gert upp með heimafólki og góðum gestum. Þá verður einnig rætt um tengingu ævintýraferðaþjónustu og byggðaþróunar og síðast en ekki síst verður fjallað um uppbyggingu náms í ævintýraferðaþjónustu í þátttökulöndunum, Finnlandi, Skotlandi og Íslandi.
Aðstandendur ADVENT verkefnisins hvetja áhugasama til að taka frá tíma og mæta til samtalsins í Nýheimum þann 5. júní n.k. Viðburðurinn verður auglýstur þegar nær dregur.
[modula id=“9804″]
Þessa vikuna eru fjórir nemendur úr FAS ásamt tveimur kennurum á Ítalíu og taka þar þátt í samskiptaverkefninu Cultural heritage in the context of students’ careers. Hópurinn fór til Keflavíkur á laugardag og flaug utan á sunnudag og gekk ferðalagið vel fyrir sig. Hóparnir frá öllum þátttökulöndunum hittust á mánudagsmorgun og fóru í langa gönguferð um Róm. Þeir skoðuðu meðal annars; Colosseum, Trevi brunninn, Spænsku tröppurnar og gengu niður með Tiber. Því næst var haldið til Lioni og þar hefur verið nóg um að vera. Á þriðjudaginn var skoðunarferð upp í fjöll þar sem nemendur skoðuðu kastalarústir og fóru yfir þó nokkuð áhugaverða hengibrú. Í gær var svo ferðinni heitið í heimsókn á búgarð þar sem Mozarella ostur er framleiddur úr buffalamjólk og einnig voru skoðaðar fornminjar við Paestum. Í dag taka nemendur þátt i pizzakeppni í skólanum og það verður áhugavert að sjá hvað verður boðið upp á þar. Hópurinn kemur til Íslands á laugardag og austur á Höfn á sunnudag.
[modula id=“9803″]
Við höfum áður á önninni sagt frá leiklistarnámskeiðinu Leikið með líkamanum sem nemendur á lista- og menningarsviði taka þátt í. Það var stór dagur hjá hópnum í gær en þá var boðið upp á vinnustofu fyrir grunnskólanemendur. Markmiðið með vinnustofunni var margþætt; í fyrsta lagi að þátttakendur læri að tjá list á nýjan máta, í öðru lagi að brúa bilið á milli mismunandi aldurshópa og í þriðja lagi að nemendur FAS miðli af reynslu sinni.
Það voru níu nemendur sem komu frá grunnskólanum. Í byrjun voru nokkrir leikir sem voru til þess ætlaðir að þátttakendur kynntust og til að skapa traust innan hópsins. Að því loknu sagði einn nemandi sögu um nykur. Allir viðstaddir þurftu að hafa augun lokuð á meðan sagan var sögð og það varð að vera algjört hljóð. En á sama tíma tjáðu nemendur söguna með líkamanum.
Í lok vinnustofunnar þurftu þátttakendur að lýsa upplifun sinni í nokkrum orðum á blað. Allir sem tóku þátt voru sammála um að þetta hefði verið mjög góð reynsla og þeir hafi í raun horfið inn í heim ævintýranna og skemmt sér konunglega þar. Nemendur FAS sem stóðu fyrir vinnustofunni voru líka mjög sáttir og sögðu að þetta hefði verið skemmtilegasti tíminn hingað til.
[modula id=“9801″]

Þessar eru mjög ánægðar með sameiginlegt kaffi.
Í dag var komið að fyrsta sameiginlega kaffinu í Nýheimum. Það voru nemendur sem buðu upp á veitingar í dag. Líkt og áður voru miklar kræsingar á borð bornar og voru þeim gerð góð skil.
Það má segja að nú sé komin hefð fyrir sameiginlegum stundum sem þessari og er alla jafnan vel mætt. Íbúum hússins finnst ljómandi gott að líta upp frá dagsins önn, setjast saman og spjalla yfir kaffi og kökum. Næsti hittingur er fyrirhugaður í mars.

Skólafundur í FAS.
Í FAS er lögð áhersla á að nemendur sýni sem mesta virkni. Það á við í öllu sem viðkemur skólanum, hvort sem það tengist námi eða öðru. Á hverri önn er haldinn skólafundur en þá hittast nemendur og starfsfólk til að ræða mikilvæg málefni hverju sinni. Og í dag var komið að skólafundi annarinnar.
Þrjú mál voru til umræðu; lýðræði, námsumhverfi og uppbrot. Fyrir fundinn var búið að skipta öllum í hópa. Hópstjóri stýrði umræðum og ritari tók niður punkta. Að loknum umræðum gerði einn úr hverjum hópi grein fyrir helstu niðurstöðum. Undir lýðræði ræddu þátttakendur hvernig þeir geti stuðlað að lýðræði og hvernig það birtist í skólanum. Í umræðum um námsumhverfi kom fram að það er margt sem nemendur eru sáttir við en vilja helst bæta aðstöðu á lesstofu og í setustofu. Þegar fyrirkomulag uppbrota var rætt nefndu margir að virk þátttaka hefði meiri áhrif heldur en að hlusta á fyrirlestur. En það fer þó auðvitað eftir umræðuefninu á uppbroti hverju sinni.
Umræður voru góðar og það var bent á margt sem betur mætti fara. En það er líka margt sem allir eru sáttir við. Það vakti athygli hversu sammála hóparnir voru í mörgum málum. Að kynningum loknum bauð skólinn öllum viðstöddum í málsverð sem Hafdís í veitingasölunni reiddi fram af sinni alkunnu snilld.
Fyrr á önninni sögðum við frá námskeiði hjá nemendum á lista- og menningarsviði FAS þar sem leiklist er tjáð með líkamanum, einnig kallað hreyfilist. Það er Teresa M. Rivarola eða Tess eins og hún kallar sig sem hefur veg og vanda að námskeiðinu og er námskeiðið styrkt af SASS.
Þriðjudaginn 4. febrúar ætlar hópurinn að vera með opinn tíma milli 14 og 16. Þá er nemendum í 6. og 7. bekk sérstaklega boðið að koma í Sindrabæ og spreyta sig á því að segja sögur með líkamanum. Nemendur FAS ætla að vera í hlutverki leiðbeinenda en Tess ætlar að vera hópnum til halds og trausts. Tess vill þó að foreldrar gefi samþykki fyrir þátttöku sinna barna.
Nemendur á lista- og menningarsviði ætla að vera með sýningu sem verður opin almenningi þriðjudaginn 25. febrúar. Staðsetning hefur þó ekki verið endanlega valin en að sjálfsögðu munum við segja frá því þegar hún liggur fyrir.
[modula id=“9802″]