Í dag kom til okkar góður gestur frá Amnesty International. Það var Hera Sigurðardóttir ungliða- og aðgerðastýra hjá samtökunum. Hún var hingað komin til að veita nemendum FAS viðurkenningu fyrir frábæran árangur í herferð gagnvart þolendum mannréttindabrota árið 2019. Í máli Heru kom fram að í herferðinni árið 2019 hafi safnast alls 86.886 undirskriftir undir bréf til stjórnvalda víða um heim sem brjóta mannréttindi. Amnesty stendur fyrir undirskriftakeppni meðal framhaldsskóla og er framhaldsskólum landsins skipt í flokka eftir nemendafjölda skólanna. Það var Kvennaskólinn í Reykjavík sem bar sigur úr býtum annað árið í röð í framhaldsskólakeppninni og hlýtur þar með titilinn Mannréttindaframhaldsskóli ársins en skólinn safnaði alls 1936 undirskriftum til stuðnings þolendum mannréttindabrota.
Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu safnaði hins vegar flestum undirskriftum miðað við nemendafjölda eða 673 undirskriftum og hlýtur því titilinn Mannréttindaframhaldsskóli ársins í þeim flokki. Af þessu tilefni FAS upp á morgunverð fyrir nemendur og starfsfólk FAS og Hera bauð öllum upp á köku frá Amnesty. Að auki færði hún skólanum viðurkenningarskjal og farandbikar. Það voru forsvarsmenn nemendafélagsins sem tóku á móti viðurkenningunni fyrir hönd FAS.
Í morgun var haldinn fundur með nemendum og starfsfólki FAS. Þar var öllum bent á tengilinn á heimasíðu FAS þar sem er að finna allar nýjustu upplýsingar sem varða veiruna. Við leggjum mikla áherslu á að allir skoði þá síðu reglulega sem og fréttasíðu skólans þar sem ávallt verður að finna nýjustu upplýsingar um áhrif veirunnar á skólastarfið.
Komi til þess að skólanum verði lokað mun skólastarf halda áfram í langflestum áföngum í gegnum fjarkennslu. Tveir starfsmenn ákváðu t.d. að fara varlega og kenndu að heiman í dag. Þó kennari sé ekki á staðnum er hægt að halda uppi kennslu í gegnum fjarfundabúnað. Nemendur sátu í skólastofunni og fylgdust með á skjá og gátu bæði hlustað á útskýringar og spurt spurninga.
Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni að óvenjulegt ástand er í þjóðfélaginu vegna COVID-19 veirunnar. Þess vegna hefur verið settur tengill á síðu FAS á síðu landlæknis þar sem öllum upplýsingum sem máli skipta er komið á framfæri. Við hvetjum alla til að skoða þá síðu reglulega til að vera sem best upplýstir.
Upplýsingar og ákvarðanir sem lúta að FAS sérstaklega verða birtar hér á fréttasíðu FAS. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að hætta við ferð nemenda og kennara í fjallamennsku til Skotlands. Einnig að sjálfsafgreiðslu í veitingasölunni hefur verið hætt og er nú skammtað á diska. Þetta er gert til að draga úr hættu á smiti. Í skoðun er hvort sýningar verði á Bláa hnettinum í lok þessa mánaðar eins og fyrirhugað var. Varðandi þrif í húsinu þá eru snertifletir þrifnir sérstaklega á hverjum degi og borð og stólar oftar en áður.
Á þessum tímum er mikilvægt að allir fari að leiðbeiningum landlæknis varðandi handþvott, hegðun og þrif. Á þann hátt getum við dregið úr líkum á smiti.
Á morgun, fimmtudag 12. mars klukkan 9:50 verður fundur á Nýtorgi með nemendum og starfsfólki um viðbrögð FAS við COVID-19 og ætlumst við til að allir mæti þar.

Daníel Snær 3. sæti, Júlíus Aron 2. sæti og Karen Ása 1. sæti
Fyrstu þrjá daga þessarar viku eru opnir dagar í FAS. Þá er engin kennsla en nemendur vinna í hópum að ýmis konar verkefnum allt eftir áhugasviði. Opnir dagar eru hluti af námi í FAS og fá nemendur einingu fyrir vinnuna. Á opnum dögum er áherslan lögð á sköpun og allir hópar þurfa að skila einhverri afurð.
Að þessu sinni eru eftirfarandi hópar að störfum: árshátíðarhópur en hann hefur veg og vanda að því að undirbúa árshátíðina sem verður á fimmtudaginn. Matarhópur er að velta fyrir sér mat og prófa uppskriftir í eldhúsinu í Heppuskóla. Opinn hópur sýslar við ýmislegt eftir áhugasviði hvers og eins. Samfélagsmiðlahópur er að taka viðtöl og skrifa greinar. Síðast en ekki síst er starfandi útvarpshópur sem sendir út nokkra þætti í dag og á morgun. Hægt er að hlusta á útsendingar frá Útvarpi FAS hér – sent verður út til klukkan 16 í dag og á milli 8 og 12 á morgun miðvikudag.
Að ósk nemenda hefur um margra ára skeið verið einn sameiginlegur viðburður og er það Framhaldsskólamót í Hornafjarðarmanna og það mót var haldið í morgun. Það var sjálfur útbreiðslustjórinn fyrir mannann, Albert Eymundsson sem kom og stjórnaði spilinu. Í upphafi var spilað á níu borðum og þegar kom að úrslitaspilinu voru það Daníel Snær, Karen Ása og Júlíus Aron sem áttust við. Á endanum var það Karen Ása sem stóð uppi sem sigurvegari og hlýtur titilinn Framhaldsskólameistari í Hornafjarðarmanna árið 2020. Júlíus Aron varð í öðru sæti og Daníel Snær í því þriðja. Öll hlutu þau verðlaun fyrir árangur sinn. Á meðfylgjandi mynd má sjá þau þrjú sem spiluðu úrslitaspilið ásamt Alberti útbreiðslustjóra.
Hápunktur opinna daga verður svo á fimmtudagskvöld þegar árshátíð FAS verður haldin í Sindrabæ.
Við höfum áður sagt frá leiklistarnámskeiði sem hófst eftir áramótin þar sem þátttakendur beita fyrst og fremst heyfilist en þar er list tjáð með líkamanum. Þetta námskeið er hluti af námi nemenda á lista- og menningarsviði FAS og er einnig styrkt af SASS (Samtök sunnlenskra sveitarfélaga).
Í síðustu viku stóðu þátttakendur í leiklistarnámskeiðinu fyrir viðburði í Gömlubúð þar sem gamlar sögur voru tjáðar með hreyfingu. Þeir sem mættu á sýninguna voru spurðir í upphafi hversu mikilvægar gamlar sagnir væru í þeirra hugum.
Um 30 manns mættu í Gömlubúð og tóku margir þeirra virkan þátt í viðburðinum. Sýningin var sett saman úr nokkrum senum þar sem hreyfilist, bæði hjá einstaklingum og eins í hópum, stuttir textar og tónlist voru í fyrirrúmi. Til aðstoðar nemendum voru þau Lind og Skrýmir en það var Tess Rivarola sem hafði veg og vanda að sýningunni. Myndirnar tók Tim Junge.
Þeir sem mættu á viðburðinn voru sammála um að einkar vel hefði tekist til. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og sýningin var konfekt fyrir augu og eyru. Vonandi eigum við eftir að sjá aðra viðburði í svipuðum anda.
[modula id=“9805″]
Í gær komu nemendur úr tíunda bekk grunnskólans í heimsókn í FAS en senn líður að því að nemendur sem ljúka grunnskóla í vor fari að huga að því hvað tekur við.
Eyjólfur skólameistari, nokkrir kennarar og fulltrúar úr nemendaráði tóku á móti hópnum og gestirnir fengu kynningu á námsframboði skólans og hvernig innritun í skólann er háttað. Einnig var sagt frá hvaða stuðningur og námsráðgjöf er í boði og hvernig félagslífið er uppbyggt. Í lok heimsóknarinnar gengu svo nemendur úr nemendaráði með gestunum um skólann og sýndu aðstöðuna. Um kvöldið var svo sambærileg kynning fyrir foreldra. Næstu daga býðst nemendum og foreldrum að mæta í viðtal til Hildar áfangastjóra og Fríðar námsráðgjafa um nám að loknum grunnskóla. Nemendur munu fá póst fljótlega þar að lútandi.
Við þökkum gestunum kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta hjá okkur í haust.