Opnir dagar í FAS

03.mar.2020

Daníel Snær 3. sæti, Júlíus Aron 2. sæti og Karen Ása 1. sæti

Fyrstu þrjá daga þessarar viku eru opnir dagar í FAS. Þá er engin kennsla en nemendur vinna í hópum að ýmis konar verkefnum allt eftir áhugasviði. Opnir dagar eru hluti af námi í FAS og fá nemendur einingu fyrir vinnuna. Á opnum dögum er áherslan lögð á sköpun og allir hópar þurfa að skila einhverri afurð.

Að þessu sinni eru eftirfarandi hópar að störfum: árshátíðarhópur en hann hefur veg og vanda að því að undirbúa árshátíðina sem verður á fimmtudaginn. Matarhópur er að velta fyrir sér mat og prófa uppskriftir í eldhúsinu í Heppuskóla. Opinn hópur sýslar við ýmislegt eftir áhugasviði hvers og eins. Samfélagsmiðlahópur er að taka viðtöl og skrifa greinar. Síðast en ekki síst er starfandi útvarpshópur sem sendir út nokkra þætti í dag og á morgun. Hægt er að hlusta á útsendingar frá Útvarpi FAS hér – sent verður út til klukkan 16 í dag og á milli 8 og 12 á morgun miðvikudag.

Að ósk nemenda hefur um margra ára skeið verið einn sameiginlegur viðburður og er það Framhaldsskólamót í Hornafjarðarmanna og það mót var haldið í morgun. Það var sjálfur útbreiðslustjórinn fyrir mannann, Albert Eymundsson sem kom og stjórnaði spilinu. Í upphafi var spilað á níu borðum og þegar kom að úrslitaspilinu voru það Daníel Snær, Karen Ása og Júlíus Aron sem áttust við. Á endanum var það Karen Ása sem stóð uppi sem sigurvegari og hlýtur titilinn Framhaldsskólameistari í Hornafjarðarmanna árið 2020. Júlíus Aron varð í öðru sæti og Daníel Snær í því þriðja. Öll hlutu þau verðlaun fyrir árangur sinn. Á meðfylgjandi mynd má sjá þau þrjú sem spiluðu úrslitaspilið ásamt Alberti útbreiðslustjóra.

Hápunktur opinna daga verður svo á fimmtudagskvöld þegar árshátíð FAS verður haldin í Sindrabæ.

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...