Opnir dagar í FAS

03.mar.2020

Daníel Snær 3. sæti, Júlíus Aron 2. sæti og Karen Ása 1. sæti

Fyrstu þrjá daga þessarar viku eru opnir dagar í FAS. Þá er engin kennsla en nemendur vinna í hópum að ýmis konar verkefnum allt eftir áhugasviði. Opnir dagar eru hluti af námi í FAS og fá nemendur einingu fyrir vinnuna. Á opnum dögum er áherslan lögð á sköpun og allir hópar þurfa að skila einhverri afurð.

Að þessu sinni eru eftirfarandi hópar að störfum: árshátíðarhópur en hann hefur veg og vanda að því að undirbúa árshátíðina sem verður á fimmtudaginn. Matarhópur er að velta fyrir sér mat og prófa uppskriftir í eldhúsinu í Heppuskóla. Opinn hópur sýslar við ýmislegt eftir áhugasviði hvers og eins. Samfélagsmiðlahópur er að taka viðtöl og skrifa greinar. Síðast en ekki síst er starfandi útvarpshópur sem sendir út nokkra þætti í dag og á morgun. Hægt er að hlusta á útsendingar frá Útvarpi FAS hér – sent verður út til klukkan 16 í dag og á milli 8 og 12 á morgun miðvikudag.

Að ósk nemenda hefur um margra ára skeið verið einn sameiginlegur viðburður og er það Framhaldsskólamót í Hornafjarðarmanna og það mót var haldið í morgun. Það var sjálfur útbreiðslustjórinn fyrir mannann, Albert Eymundsson sem kom og stjórnaði spilinu. Í upphafi var spilað á níu borðum og þegar kom að úrslitaspilinu voru það Daníel Snær, Karen Ása og Júlíus Aron sem áttust við. Á endanum var það Karen Ása sem stóð uppi sem sigurvegari og hlýtur titilinn Framhaldsskólameistari í Hornafjarðarmanna árið 2020. Júlíus Aron varð í öðru sæti og Daníel Snær í því þriðja. Öll hlutu þau verðlaun fyrir árangur sinn. Á meðfylgjandi mynd má sjá þau þrjú sem spiluðu úrslitaspilið ásamt Alberti útbreiðslustjóra.

Hápunktur opinna daga verður svo á fimmtudagskvöld þegar árshátíð FAS verður haldin í Sindrabæ.

Aðrar fréttir

Til Svíþjóðar í boði Erasmus

Til Svíþjóðar í boði Erasmus

FAS hefur í nokkur ár verið með svokallaða Erasmus+ aðild sem er hugsuð sem einfaldari leið að styrkjamöguleikum á sviði náms og þjálfunar. Fjallamennskunám FAS hefur verið duglegt að nýta þennan möguleika til að nemendur fái tækifæri til að heimsækja önnur lönd og...

Staðan í fjallamennskunámi FAS

Staðan í fjallamennskunámi FAS

Nú er ljóst að námi í fjallamennsku í FAS í núverandi mynd er lokið og ekki verða innritaðir nemendur í námið á næstu haustönn. Sagan í tengslum við námið er orðin nokkuð löng og það hefur verið endurskrifað nokkrum sinnum með það fyrir augum að bæta námið og aðlaga...

FAS á Austfirsku Ólympíuleikunum

FAS á Austfirsku Ólympíuleikunum

Fyrir margt löngu var margs konar samstarf á milli framhaldsskólanna á Austulandi. Þar á meðal voru Austfirsku Ólympíuleikarnir þar sem nemendur skólanna hittust og áttu góðar stundir saman í alls konar leikjum. Þessi viðburður lagðist af fyrir mörgum árum en það...