Listsköpun á gamla Sindrahúsinu

Við sögðum frá því í síðustu viku að skólinn hefði fengið leyfi til að nota gamla Sindrahúsið fyrir listsköpun. Einhverjum nemendum hafði dottið í hug að það gæti verið áhugavert að reyna að gera eitthvað nýtt og krefjandi á tímum takmörkunar á skólahaldi. Gengið var í það að útfæra hugmyndina þannig að öllum reglum um samneyti og sóttvörnum væri fylgt og var öllum nemendum boðið að koma og taka þátt. Þema verkefnisins er vorið.

Í síðustu og þessari viku hafa allmargir nemendur komið og lagt sitt af mörkum til að gæða þessar síðustu stundir hússins lífi en ætlunin er að rífa húsið eftir næstu mánaðarmót. Nú þegar er hægt að sjá afrakstur af vinnu nemenda á tveimur útveggjum en nemendur á lista- og menningarsviði hafa séð um að skapa listaverk innan veggja. Á morgun er síðasti dagurinn til að vinna að verkefnunum og hvetjum við þá nemendur sem vilja til að koma milli 14 og 16 og taka þátt.

Framgangur verksins hefur verið settur á instagramsíðu skólans. Þar munu verkin lifa þó húsið heyri brátt sögunni til.

FAS í undanúrslit í umhverfisverkefni Landverndar

Landvernd stendur fyrir alþjóðlegu verkefni á meðal skóla á Íslandi sem kallast Ungt umhverfisfréttafólk. Verkefnið kallast á ensku YRE en það stendur fyrir Young Reporters for the Environment.

Verkefninu er ætlað að valdefla ungt fólk og gefa þeim tækifæri til að hafa áhrif með því að kynna sér umhverfismál með gagnrýnum hætti og miðla upplýsingum til almennings. Nemendur geta einnig valið um að senda verkefni sín í landskeppni og bestu verkefnin taka síðan þátt í alþjóðlegri keppni.

Í FAS var ákveðið að nemendur í umhverfis- og auðlindafræði tækju þátt í verkefninu og var hafist handa fljótlega í byrjun annar. Það var orðið stutt í skilafrest þegar reglur um takmörkun á skólahaldi tóku gildi og hafði það áhrif á vinnuna. En með góðu skipulagi og þrautseigju náðu einhverjir hópar að skila inn verkefnum. Í síðustu viku barst svo ánægjulegur póstur frá Landvernd um að verkefni frá FAS hefði komist í undanúrslit í innanlandskeppninni. Þetta er instagram síða hjá hópi sem kalla sig „Hellisbúana“ og verkefnið fjallar um áhrif loftslagsbreytinga á íshella. Í póstinum frá Landvernd kemur fram að í þessari viku verður sendur póstur á nemendur sem hljóta verðlaun, en sætin (fyrsta, annað og þriðja) verða þó ekki tilkynnt fyrr en í streymi þann 6. maí.

Frábært hjá ykkur Hellisbúar og til hamingju með verkefnið ykkar! Hér má sjá stutta kynningu á hópnum og hér er slóðin á verkefnið í heild.

 

 

 

Skólinn opnar aftur 4. maí

Nú hillir undir að beytingar verði á skólastarfi og hægt verði að mæta í skólann á ný. Í gær birti Stjórnarráð Íslands auglýsingu um afléttingu takmarkana á skólastarfi frá og með 4. maí næstkomandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá verður nemendum í framhaldsskólum heimilt að að mæta í skólann en það verður að gæta þess að ekki verði fleiri en 50  í sama rými og að tveggja metra nándarreglan verði virt.

Í FAS höfum við ákveðið að kennsla færist aftur inn í skólann og það verði tímar í flestum greinum dagana 4. – 11. maí en þá er síðasti kennsludagur annarinnar. Kennarar í hverri grein munu útfæra fyrirkomulagið nánar í næstu viku og koma upplýsingum til nemenda sinna. Þá hefur verið ákveðið að staðnemendur mæti í lokamatsviðtöl í skólanum ef mögulegt er.

Við höfum fundið fyrir því að fyrirkomulag á skólastarfi síðustu vikna hefur reynt á marga. Því datt okkur í hug að gott gæti verið að hvíla námið um stund og drífa sig út og fást við eitthvað allt annað. Eins og margir vita á að rífa gamla Sindrahúsið við hliðina á Ráðhúsinu og núna standa einungis útveggir eftir. Við fengum leyfi til að nota húsið fyrir listsköpun áður en það hverfur endanlega sjónum. Ákveðið hefur verið að þema verkefnisins verði vorið og kennarar hafa útfært hvernig staðið skuli að vinnunni. Allir nemendur munu í dag fá póst þar að lútandi og við hvetjum alla að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni.

Skólastarf hafið eftir páskafrí

Í dag hófst kennsla aftur í FAS að loknu páskafríi. Eins og fyrir páska hittast nemendur og kennarar í gegnum Teams. Það var nokkuð gott hljóð í nemendum og margir ánægðir með skólinn sé byrjaður aftur.

Það hillir þó undir breytta tíma því í dag kynntu stjórnvöld breytingar um tilslakanir á samkomubanni. Frá og með 4. maí verður leyfilegt að opna framhaldsskóla með takmörkunum.  Það finnst okkur mikið gleðiefni og munum svo sannarlega gera allt sem við getum til að uppfylla skilyrði svo nemendur okkar komist í skólann. Við munum fljótlega segja frá því hvernig skipulagið verður hjá okkur í FAS.

Nú er komið páskafrí

Eftir þrjár vikur í takmörkuðu skólahaldi er komið að langþráðu páskafríi. Nemendur okkar hafa sýnt þessu óvenjulega ástandi skilning og þolinmæði og unnið vel í breyttum námsaðstæðum. Bæði nemendur og kennarar eru sammála um að það sé einstaklega krefjandi að sitja langtímum saman fyrir framan tölvuskjá og sinna allri vinnu þar. Það er því afar kærkomið að taka pásu frá náminu og hugsa um sjálfan sig.

Nú hafa stjórnvöld framlengt takmörkun á skólahaldi til 4. maí og það þýðir að við verðum að halda áfram á sömu braut eftir páska. Skólahald hefst aftur samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 14. apríl og þá hittumst við aftur í gegnum Teams.

Við skulum öll nota páskafríið til að hvíla okkur og safna kröftum fyrir það sem framundan er. Höfum í huga að sofa vel, borða hollan mat (líka páskaegg) og að hreyfing er mikilvæg. Við skulum líka muna „að hlýða Víði“ því á þann hátt getum við best varið okkur.

Gleðilega páska!

Nýtt og endurbætt nám í fjallamennsku í FAS

Nú hefur nám í fjallamennsku í FAS verið endurskipulagt og verður byrjað að kenna samkvæmt nýju skipulagi næsta haust. Með nýju skipulagi er verið að koma til móts við þá sem eru í vinnu en vilja bæta þekkingu sína og ná sér í starfsréttindi.
Líkt og áður er námið 60 einingar og samanstendur bæði af vettfangsferðum og fjarnámi. Hér er um sérhæft nám að ræða og er ætlað þeim sem vilja starfa við fjallamennksu og leiðsögn. Þeir sem ljúka náminu fá tiltekin réttindi innan fagfélags íslenskra fjallaleiðsögumanna AIMG. Þá fá nemendur viðurkennda þjálfun í fyrstu hjálp frá Landsbjörgu.
Fjallamennskunámið er sett saman úr 17 áföngum sem skiptast í nám á vettvangi og svo bóklegt nám. Á skólaárinu er farið í 11 ferðir og standa þær yfir í 4 – 7 daga. Sem dæmi um ferðir eru gönguferðir, klettaferðir, fjallaskíðaferðir, fjallahjólaferðir og jöklaferðir. Nemendur þurfa að mæta í ferðir og lotur en eru að öðru leyti í fjarnámi sem er hægt að sinna samhliða vinnu hvenær og hvar sem er.
Fagnámskeið AIMG er einnig opin fyrir fólk sem stenst forkröfur félagsins um þátttöku í námskeiðum. Þannig geta einstök námskeið hentað vel fyrir fólk sem nú þegar starfar við leiðsögn en vill bæta við sig þekkingu og reynslu. Allar ferðir byrja og enda á Höfn og hægt er að fá aðstöðu til gistingar í tenglsum við ferðir á heimavist á Höfn. Allir kennarar koma úr atvinnulífinu og margir þeirra starfa við fjallaleiðsögn.

Námið hefst 18. ágúst og lýkur 20. maí. Nemendur þurfa að vera orðnir 18 ára til að geta skráð sig í námið. Við hvetjum ykkur til að skoða nýju heimsíðuna fyrir fjallanámið og bendum á það er búið að opna fyrir skráningar.