Jöklamælingar FAS í þrjátíu ár

Heinabergsjökull snemma árs 2017 (efri mynd) og sumarið 2020 (neðri mynd). Ef horft er á stöðu fremstu tungunnar mætti álíta að jökullinn hafi lítið hopað á síðustu árum en þarna hefur hún legið í marga áratugi. Þegar nánar er skoðað sést hins vegar að hún hefur þynnst og mjókkað töluvert og er nú umlukin vatni til beggja hliða. Yfirborðshæð jökultungunnar hefur lækkað um 10-15 m árin 2019 til 2020 og fremstu þrír og hálfur kílómetrarnir fljóta í lóninu. Eystri tungan (hægra megin við svörtu röndina) streymir fram í lónið og við það tapar jökullinn miklum massa. Ljósmyndir Náttúrustofa Suðausturlands/Snævarr Guðmundsson.

Í október 1990 birtist grein í Eystrahorni þar sem sagt er frá því að Framhaldsskólinn í Nesjum, eins og skólinn var kallaður þá, hafi verið beðinn um að sjá um mælingar á þremur skriðjöklum við Hornafjörð og á Mýrum.  Mælingarnar voru í tengslum við Orkustofnun og kom starfsmaður þaðan til að aðstoða við mælingarnar. Í greininni er látin í ljós sú ósk að þetta sé verkefni til framtíðar og mælingar fari fram að minnsta kosti einu sinni á ári. Í annarri grein í sama tölublaði er sagt frá fyrstu mælingaferðinni en þá fóru nemendur og kennarar skólans að Fláajökli og Heinabergsjökli. Ferðin var í senn „til fræðslu og til vísindaiðkunar“ eins og segir í greininni. Aðstæður við jöklana tvo voru mjög ólíkar því sem nú er. Þá var hægt að ganga að jökulsporði Fláajökuls og mæla beint með málbandi frá ákveðnum punkti í jökuljaðarinn. Fyrir framan Heinabergsjökul er lón og þar þarf að beita svokölluðum þríhyrningsmælingum til að reikna út stöðu jökulsins hverju sinni.

Nú, þrjátíu árum síðar, eru nemendur FAS enn að skoða breytingar á jöklum. Frá árinu 2016 hefur skólinn notið aðstoðar sérfræðings frá Náttúrustofu Suðausturlands. Nemendur í inngangsáfanga að náttúruvísindum fara á hverju hausti og mæla Heinabergsjökul og nemendur í jarðfræði fylgjast með vestanverðum Fláajökli. Í gegnum tíðina hefur sama þríhyrningsmæliaðferðin verið notuð til að mæla Heinabergsjökul þar sem mælt hefur verið í jökuljaðarinn út frá tveimur föstum mælilínum (154-155 og 156-157) á landi.

Það hafa orðið gríðarmiklar breytingar á jöklinum á þessum þremur áratugum. Norðan megin í Heinabergslóni hefur jökullinn verið að þynnast og hopa. Árið 2017 hafði jökullinn brotnað það mikið upp að ekki reyndist unnt að styðast við nyrðri mælilínuna. Árið 2019 var annarri mæliaferð beitt þannig að fjarlægðarkíkir er einnig notaður til að mæla vegalengdir í jökulsporðinn við sunnanvert Heinabergslón. Í síðustu ferð að Heinabergsjökli þann 21. október síðastliðinn voru einnig framkvæmdar þríhyrningsmælingar út frá mælilínu 156-157 en ekki er víst hversu lengi það verður hægt því jökulinn er allur að þynnast og minnka og líkur á því að hann verði horfinn úr mælilínunni í náinni framtíð haldi jökulinn áfram að hörfa.

Árið 2016 var aftur farið að mæla Fláajökul og er það hluti af námi nemenda sem læra jarðfræði. Þar er verið að nýta nýlegar gervihnattamyndir af jökulsporðinum vestan við Jökulfell. Notaður er fjarlægðakíkir og staðarákvörðunartæki (GPS) til að mæla vegalengdir frá ákveðnum punktum og síðan er nýjasta staða jökulsporðsins teiknuð inn á loftmynd. Þetta er nokkuð flókið en nemendur fá á móti að kynnast vinnubrögðum í vísindunum.

Það hefur verið mikil áhersla lögð á það í FAS að nemendur fylgist  með náttúrunni og þeim breytingum sem eiga sér þar stað. Á þessum 30 árum hafa á annað þúsund nemendur farið í jöklamælingaferð á vegum FAS. Líkt og í fyrstu ferðinni sem var farin fyrir 30 árum eru ferðirnir „til fræðslu og til vísindaiðkunar“ og margir fyrrum nemendur minnast slíkra ferða.

Á þessum þremur áratugum hafa safnast miklar upplýsingar um jöklamælingar sem og önnur vöktunarverkefni FAS. Þessar upplýsingar eru settar á https://nattura.fas.is/ en verið er að uppfæra þann vef.

Eyjólfur Guðmundsson, FAS
Hjördís Skírnisdóttir, FAS
Snævarr Guðmundsson,  Náttúrustofu Suðausturlands

Rafræn ráðstefna í FAS

Lokaráðstefna ADVENT var haldin sem netráðstefna 6. nóvember 2020. Ráðstefnan fór fram í gegnum Teams og var hún tekin upp með það að markmiði að birta upptökuna á heimasíðu verkefnisins.

Þátttakendur á ráðstefnunni voru frá samstarfslöndunum, Finnlandi, Skotlandi og Íslandi. Þegar fjöldi þátttakenda var mestur voru 28 tölvur tengdar og í sumum tilfellum voru fleiri en einn á bak við hverja tengingu.

Áhugaverð erindi voru flutt á ráðstefnunni og verkefnið og námskeiðin sem þróuð voru á verkefnatímanum voru kynnt. Umræður fóru fram í lok ráðstefnunnar og kom þar fram almenn ánægja með afrakstur verkefnisins og þau tengsl sem hafa myndast á milli skóla, rannsóknarstofnanna og ferðaþjónustufyrirtækja, jafnt innanlands sem og á milli landa.

Ýmsir tæknilegir örðugleikar settu mark sitt á ráðstefnuna og vantar t.d. nokkrar mínútur fremst og aftast á upptökuna. Beðist er velvirðingar á því en upptakan er nú aðgengileg á vefsíðu ADVENT; http://adventureedu.eu/is/news/41

ADVENT verkefninu lýkur í lok desember en erlenda samstarfið í FAS heldur áfram, kannski ekki af þeim krafti sem við hefðum helst viljað og er ástæðan COVID-19.

Í gangi eru samt fjögur önnur erlend verkefni; Promount – Aukin fagmennska í fjallamennskunámi sem er náms- og þjálfunarverkefni, DETOUR – Destinations: Wellbeing Tourism Oppertunities for Regions sem er verkefni tengt uppbyggingu í ferðaþjónustu, Menningartengda nemendaskiptaverkefnið Cultural Heretage in the Context of Students Carriers og nemendaskiptaverkefnið Geoheritage, culture and sustainable communities in rural areas in Finland, Iceland and Norway þar sem unnið í nærumhverfi þátttökulandanna.

FAS vinnur að því að efla erlend samskipti enn frekar og er skólinn nú með umsókn hjá Erasmus+ varðandi leiðir til einfaldara aðgengis að náms- og þjálfunarverkefnum fyrir bæði nemendur og starfsfólk skólans.

[modula id=“10895″]

 

ADVENT- Boð á rafræna ráðstefnu

FAS hefur síðastliðin þrjú ár leitt Erasmus+ námsverkefnið ADVENT, Adventure tourism  in Vocational Education and Training. Eftir þriggja ára áhugaverða vinnu við verkefnið og frestanna vegna COVID-19 er nú að koma að lokaráðstefnu verkefnisins. Upphaflega átti ráðstefnan að vera með því sniði að á hana kæmu gestir, bæði úr hópi finnsku og skosku samstarfsaðilanna og eins aðila úr nærsamfélaginu.

Vegna þeirra aðstæðna sem COVID-19 hefur skapað verður þessi ráðstefna rafræn og haldin í gegnum Teams fjarfundarkerfið föstudaginn 6. nóvember kl. 09:00 – 12:20.

Áhugaverðir fyrirlestrar verða fluttir á ráðstefnunni og greint verður frá tilgangi, uppbyggingu og afrakstri verkefnisins. Fundurinn fer fram í gegnum Teams og eru áhugasamir ráðstefnugestir hvattir til að skrá sig til leiks með því að senda póst á info@adventureedu.eu fyrir fimmtudaginn 5. nóvember og taka virkan þátt í umræðum.

Hér má sjá dagskrá ráðstefnunnar

Vísindadagar í FAS

Í gær og í dag hafa árlegir vísindadagar staðið yfir í FAS. Þá leggja nemendur hefðbundið nám til hliðar og fást við annað afmarkað efni. Viðfangsefni að þessu sinni eru farsóttir og hamfarir og áhrif slíkra viðburða á samfélagið. Þó var ákveðið að það ætti ekki að fjalla um COVID-19 enda heyrum við nóg um það alla daga.
Eins og undanfarið eru nemendur í bekkjum en gátu valið hvort þeir myndu vinna í hópum eða einir. Þegar búið var að velja viðfangsefni þurfti að afmarka efni, afla heimilda og ákveða hvernig á að kynna verkefnið. Verkefnin munu birtast á vef FAS þegar þau eru tilbúin.
Vísindadögum lauk formlega í dag með kaffisamsæti þar sem Hafdís töfraði fram alls kyns kræsingar sem voru gerð góð skil.
Aðstæður undanfarnar vikur hafa verið afar krefjandi en nemendur hafa staðið sig einstaklega vel. Það hefur því verið ákveðið að það verði ekki kennsla á morgun, föstudag, en í stað þess fái allir langa helgi. Þá geta allir hvílt sig aðeins og safnað kröftum fyrir síðustu vikurnar á önninni.

Listsköpun í Vöruhúsinu

Það má sannarlega segja að það hafi verði líflegt í Vöruhúsinu um nýliðna helgi en dagana 24. og 25. október var komið að fyrri hluta námskeiðs á lista- og menningarsviði þar sem fengist var við málun, teiknun, ljósmyndun og myndvinnslu. Þátttakendur í námskeiðinu eru bæði nemendur í FAS sem eru á lista- og menningarsviði en einnig aðrir áhugasamir í samfélaginu. Sautján nemendur sóttu námskeiðið um síðustu helgi.
Nemendur gátu valið á milli tveggja hópa. Annar hópurinn fékkst við ljósmyndun og myndvinnslu en hinn teiknaði og málaði uppstillingu. Báðir hóparnir voru mjög áhugasamir og unnu vel. Það var ekki að sjá að ólíkur aldur og bakgrunnur skipti máli og vinnugleðin var allsráðandi. Seinni hluti námskeiðsins verður helgina 31. október og 1. nóvember og þá er ætlunin að ljúka verkefnunum. Hægt er að skoða myndir frá námskeiðinu á instagramsíðu lista- og menningarsviðs.

Mælingar á Heinabergsjökli

Allt frá árinu 1990 hafa nemendur í FAS farið í ferðir til að mæla jökla og skoða áhrif þeirra á landið. Ýmist hefur verið farið að Fláajökli eða Heinabergsjökli í jöklamælingar og eru þessar ferðir hluti af námi í tilteknum áföngum. Mælingar á Heinabergsjökli eru þannig hluti af verkefnum í inngangsáfanga að náttúruvísindum og ætlast er til að allir staðnemendur fari í ferðina.
Eins og allir vita eru aðstæður allar öðruvísi en venjulega vegna COVID-19 og fyrir nokkru var nemendum í FAS skipt upp í bekki til að lágmarka blöndun á milli hópa en gefa um leið sem flestum tækifæri til að koma í skólann. Nemendur í inngangsáfanga að náttúruvísindum tilheyra þannig fjórum mismunandi bekkjum. Einungis einn bekkur fékk að fara í mælingaferðina að þessu sinni og kom það í hlut þeirra nemenda í fyrsta bekk sem eru í áfanganum.
Í gær var svo komið að því að fara í ferðina. Auk kennara frá FAS var Snævarr Guðmundsson frá Náttúrustofu Suðausturlands með í för en hann er sérfræðingur um jökla. Veður var með eindæmum gott, logn en nokkuð svalt enda komið frost. Ferðin hófst við brúna yfir Heinabergsvötn en sú brú er góður minnisvarði um þær miklu breytingar sem eiga sér stað í nánd við jökla. Þaðan var svo gengið yfir jökulruðninga að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Á leiðinni var oft staldrað við til að skoða það sem fyrir augu bar og einnig til að veita öðru í umhverfinu athygli.
Við lónið hafa orðið gríðarmiklar breytingar síðustu ár. Jökullinn hefur verið að brotna upp og þynnast sérstaklega norðan megin í lóninu. Undanfarin ár hefur því einungis verið hægt að mæla sunnan megin en þar sést líka greinilega að jökullinn er að þynnast. Mælingarnar núna voru tvenns konar. Annars vegar hefðbundin mæling sem er út frá ákveðinni mælilínu en með ákveðnum útreikningum er hægt að finna út hver vegalengdin er frá ákveðnum punkti á landi í jökusporðinn. Hins vegar var verið að nota fjarlægðarmæli til að mæla vegalengdir frá sama punkti á landi í nokkra staði á jökuljaðrinum. Þessar vegalengdir eru settar inn á GPS mynd og gefa þannig yfirlit af stöðu jökulsins. Eftir mælingarnar hélt hópurinn áfram en nú að bílastæðinu við Heinabergsjökul.
Eftir ferðina þurfa nemendur að vinna að skýrslu þar sem bæði er fjallað um mælingarnar og eins þau jarðfræðilegu fyrirbrigði sem fyrir augu bar. Ferðin í gær gekk í alla staði ljómandi vel og ekki síst vegna þess hve hópurinn var áhugasamur og skemmtilegur.