Skólafundur í FAS

Skólafundur í FAS.

Skólafundur í FAS.

Í FAS er lögð áhersla á að nemendur sýni sem mesta virkni. Það á við í öllu sem viðkemur skólanum, hvort sem það tengist námi eða öðru. Á hverri önn er haldinn skólafundur en þá hittast nemendur og starfsfólk til að ræða mikilvæg málefni hverju sinni. Og í dag var komið að skólafundi annarinnar.

Þrjú mál voru til umræðu; lýðræði, námsumhverfi og uppbrot.  Fyrir fundinn var búið að skipta öllum í hópa. Hópstjóri stýrði umræðum og ritari tók niður punkta. Að loknum umræðum gerði einn úr hverjum hópi grein fyrir helstu niðurstöðum. Undir lýðræði ræddu þátttakendur hvernig þeir geti stuðlað að lýðræði og hvernig það birtist í skólanum. Í umræðum um námsumhverfi kom fram að það er margt sem nemendur eru sáttir við en vilja helst bæta aðstöðu á lesstofu og í setustofu. Þegar fyrirkomulag uppbrota var rætt nefndu margir að virk þátttaka hefði meiri áhrif heldur en að hlusta á fyrirlestur. En það fer þó auðvitað eftir umræðuefninu á uppbroti hverju sinni.

Umræður voru góðar og það var bent á margt sem betur mætti fara. En það er líka margt sem allir eru sáttir við. Það vakti athygli hversu sammála hóparnir voru í mörgum málum. Að kynningum loknum bauð skólinn öllum viðstöddum í málsverð sem Hafdís í veitingasölunni reiddi fram af sinni alkunnu snilld.

Leikið með líkamanum

Fyrr á önninni sögðum við frá námskeiði hjá nemendum á lista- og menningarsviði FAS þar sem leiklist er tjáð með líkamanum, einnig kallað hreyfilist. Það er Teresa M. Rivarola eða Tess eins og hún kallar sig sem hefur veg og vanda að námskeiðinu og er námskeiðið styrkt af SASS.

Þriðjudaginn 4. febrúar ætlar hópurinn að vera með opinn tíma milli 14 og 16. Þá er nemendum í 6. og 7. bekk sérstaklega boðið að koma í Sindrabæ og spreyta sig á því að segja sögur með líkamanum. Nemendur FAS ætla að vera í hlutverki leiðbeinenda en Tess ætlar að vera hópnum til halds og trausts. Tess vill þó að foreldrar gefi samþykki fyrir þátttöku sinna barna.

Nemendur á lista- og menningarsviði ætla að vera með sýningu sem verður opin almenningi þriðjudaginn 25. febrúar. Staðsetning hefur þó ekki verið endanlega valin en að sjálfsögðu munum við segja frá því þegar hún liggur fyrir.

[modula id=“9802″]

Mikið um að vera í FAS

Advent námskeið í FAS.

Það er mikið um að vera í FAS þessa dagana. Auk hefðbundinnar kennslu er margt annað sem er verið að fást við.

Fyrst ber að nefna að í þessari viku fer fram síðasta námskeiðið í samstarfsverkefninu  ADVENT –  Adventure tourism in vocational education and training. Námskeiðið hófst í gær þegar erlendir gestir keyrðu til Hafnar með góðum stoppum inn á milli. Auk heimafólks sem sér um að leiða námskeiðið eru hér þrír þátttakendur frá Finnlandi og tveir frá Skotlandi. Námskeiðinu lýkur á fimmtudaginn.

Þá er nokkrir nemendur að undirbúa ferð til Lioni á Ítalíu og er það hluti af verkefni í Erasmus+ verkefninu Cultural heritage in the context of students’ careers. Hópurinn heldur til Keflavíkur á laugardag og flýgur utan snemma á sunnudagsmorgun. Vikunni verður eytt í nám og störf á Ítalíu.

Í upphafi annar sögðum við frá því að það hefði verði ákveðið að setja upp sýninguna Bláa hnöttinn eftir Andra Snæ Magnason. Þar er nú búið að skipa í hlutverk og æfingar hafnar á fullu.

Við munum segja nánar frá öllum þessum verkefnum á næstunni.

 

Aukin stoðþjónusta fyrir nemendur í FAS

Frá uppbroti í FAS.

Frá uppbroti í FAS.

Núna eftir áramótin bættist stoðþjónustuteymi FAS liðsauki þegar  Aðalheiður Mjöll, náms – og starfsráðgjafi hóf störf  á ný í FAS en hún starfaði hjá okkur síðast veturinn 2016-2017.

Aðalheiður mun leggja áherslu á áhuga- og styrkleikagreiningu á námshæfni, bjóða upp á námskeið tengd námstækni, styrkleikum og færni og sinna ráðgjöf um nám sem og persónulegri ráðgjöf. Auk þess veitir hún þjónustu vegna raunfærnimats. Aðalheiður tekur vel á móti öllum en hún er með skrifstofu á háskólaganginum í Nýheimum.  Hægt er að hafa samband við hana í gegnum tölvupóst og bóka tíma á netfangið adalheidurth@fas.is eða í gegnum instagram síðu FAS.

Aðrir í stoðþjónustuteymi FAS eru Fríður Hilda námsráðgjafi en hún aðstoðar nemendur m.a. við að skipuleggja námið og hún leggur áherslu á að sinna staðnemendum og nemendum á námssamningi. Hægt er að hafa samband við Fríði Hildi í gegnum netfangið fridur@fas.is eða koma við hjá henni á efri hæð hússins.

Þá er Ragnheiður skólahjúkrunarfræðingur hjá okkur í hlutastarfi og hennar starfssvið er heilsuefling með áherslu á svefn þessa önnina. Netfang Ragnheiðar er ragnheidurr@fas.is fyrir þá sem vilja nýta sér þjónustu hennar.

Það er von okkar að með öflugu stoðþjónustuteymi sé enn betur hægt að koma á móts við mismunandi þarfir nemenda.

Öðruvísi og krefjandi leiklist

Á leiklistaræfingu hjá Tess.

Á leiklistaræfingu hjá Tess.

Núna er skólastarf vorannar komið á fullt skrið og margt spennandi í gangi. Á lista- og menningarsviði er Teresa M. Rivarola eða Tess eins og hún kallar sig með námskeið í leiklist þar sem er lögð áhersla á að tjá sögur með líkamanum eða svokölluð hreyfilist. Nemendur byrja á því að velja sér sögu úr nærumhverfinu sem að auðvelt er að tengja eigin hugarheimi. Sögurnar mega vera af ýmsum toga, t.d. þjóðsögur, skáldsögur eða sögur sem að ömmur og afar hafa sagt. Nemendur greina sögurnar og finna leiðir til að túlka og án orða en nota þess í stað hreyfingar og hljóð, hughrifatónlist eða náttúruhljóð.

Þetta er svo sannarlega öðruvísi og spennandi verkefni en nemendur eru venjulega að fást við og ekki síður krefjandi því það þarf að nota hugmyndaflugið. Það verður gaman að sjá útkomuna en það er fyrirhugað að nemendur sýni afrakstur vinnunnar. Dagsetning liggur þó ekki enn fyrir.

FAS keppir við FG á fimmtudag

Gettu betur lið FAS; Ingunn Ósk, Björgvin Freyr og Oddleifur.

Uppfært: Vegna veðurs kemst tæknimaður frá RÚV ekki austur til okkar á Höfn. Þess vegna hefur keppninni sem vera átti í kvöld verið frestað til fimmtudagsins 16. janúar og hefst viðureignin klukkan 21:30.

Eins og við sögðum frá í síðustu viku sigraði lið FAS í Gettu betur lið Framhaldsskólans á Húsavík í Gettu betur. Fyrstu umferð lauk 8. janúar og strax að lokinni keppni var dregið í aðra umferð. Liðunum sem komust áfram úr fyrstu umferð var skipt í tvo styrkleikaflokka eftir stigafjölda. FAS dróst á móti FG sem er Fjölbrautaskólinn í Garðabæ.

Önnur umferð fer fram í þessari viku. FAS keppir annað kvöld, 14. janúar klukkan 21:00 og líkt og í síðustu viku verður lið FAS staðsett í fyrirlestrasal Nýheima. Þeir sem vilja koma og styðja keppendur þurfa að mæta tímanlega. Núna verður keppninni útvarpað á Rás 2 og einnig á RÚV núll þannig að þeir sem ekki komast í Nýheima geta fylgst með. Að sjálfsögðu sendum við liðinu bestu óskir um gott gengi.