Mælingar á Heinabergsjökli

22.okt.2020

Allt frá árinu 1990 hafa nemendur í FAS farið í ferðir til að mæla jökla og skoða áhrif þeirra á landið. Ýmist hefur verið farið að Fláajökli eða Heinabergsjökli í jöklamælingar og eru þessar ferðir hluti af námi í tilteknum áföngum. Mælingar á Heinabergsjökli eru þannig hluti af verkefnum í inngangsáfanga að náttúruvísindum og ætlast er til að allir staðnemendur fari í ferðina.
Eins og allir vita eru aðstæður allar öðruvísi en venjulega vegna COVID-19 og fyrir nokkru var nemendum í FAS skipt upp í bekki til að lágmarka blöndun á milli hópa en gefa um leið sem flestum tækifæri til að koma í skólann. Nemendur í inngangsáfanga að náttúruvísindum tilheyra þannig fjórum mismunandi bekkjum. Einungis einn bekkur fékk að fara í mælingaferðina að þessu sinni og kom það í hlut þeirra nemenda í fyrsta bekk sem eru í áfanganum.
Í gær var svo komið að því að fara í ferðina. Auk kennara frá FAS var Snævarr Guðmundsson frá Náttúrustofu Suðausturlands með í för en hann er sérfræðingur um jökla. Veður var með eindæmum gott, logn en nokkuð svalt enda komið frost. Ferðin hófst við brúna yfir Heinabergsvötn en sú brú er góður minnisvarði um þær miklu breytingar sem eiga sér stað í nánd við jökla. Þaðan var svo gengið yfir jökulruðninga að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Á leiðinni var oft staldrað við til að skoða það sem fyrir augu bar og einnig til að veita öðru í umhverfinu athygli.
Við lónið hafa orðið gríðarmiklar breytingar síðustu ár. Jökullinn hefur verið að brotna upp og þynnast sérstaklega norðan megin í lóninu. Undanfarin ár hefur því einungis verið hægt að mæla sunnan megin en þar sést líka greinilega að jökullinn er að þynnast. Mælingarnar núna voru tvenns konar. Annars vegar hefðbundin mæling sem er út frá ákveðinni mælilínu en með ákveðnum útreikningum er hægt að finna út hver vegalengdin er frá ákveðnum punkti á landi í jökusporðinn. Hins vegar var verið að nota fjarlægðarmæli til að mæla vegalengdir frá sama punkti á landi í nokkra staði á jökuljaðrinum. Þessar vegalengdir eru settar inn á GPS mynd og gefa þannig yfirlit af stöðu jökulsins. Eftir mælingarnar hélt hópurinn áfram en nú að bílastæðinu við Heinabergsjökul.
Eftir ferðina þurfa nemendur að vinna að skýrslu þar sem bæði er fjallað um mælingarnar og eins þau jarðfræðilegu fyrirbrigði sem fyrir augu bar. Ferðin í gær gekk í alla staði ljómandi vel og ekki síst vegna þess hve hópurinn var áhugasamur og skemmtilegur.

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...