Jöklamælingar FAS í þrjátíu ár

23.nóv.2020

Heinabergsjökull snemma árs 2017 (efri mynd) og sumarið 2020 (neðri mynd). Ef horft er á stöðu fremstu tungunnar mætti álíta að jökullinn hafi lítið hopað á síðustu árum en þarna hefur hún legið í marga áratugi. Þegar nánar er skoðað sést hins vegar að hún hefur þynnst og mjókkað töluvert og er nú umlukin vatni til beggja hliða. Yfirborðshæð jökultungunnar hefur lækkað um 10-15 m árin 2019 til 2020 og fremstu þrír og hálfur kílómetrarnir fljóta í lóninu. Eystri tungan (hægra megin við svörtu röndina) streymir fram í lónið og við það tapar jökullinn miklum massa. Ljósmyndir Náttúrustofa Suðausturlands/Snævarr Guðmundsson.

Í október 1990 birtist grein í Eystrahorni þar sem sagt er frá því að Framhaldsskólinn í Nesjum, eins og skólinn var kallaður þá, hafi verið beðinn um að sjá um mælingar á þremur skriðjöklum við Hornafjörð og á Mýrum.  Mælingarnar voru í tengslum við Orkustofnun og kom starfsmaður þaðan til að aðstoða við mælingarnar. Í greininni er látin í ljós sú ósk að þetta sé verkefni til framtíðar og mælingar fari fram að minnsta kosti einu sinni á ári. Í annarri grein í sama tölublaði er sagt frá fyrstu mælingaferðinni en þá fóru nemendur og kennarar skólans að Fláajökli og Heinabergsjökli. Ferðin var í senn „til fræðslu og til vísindaiðkunar“ eins og segir í greininni. Aðstæður við jöklana tvo voru mjög ólíkar því sem nú er. Þá var hægt að ganga að jökulsporði Fláajökuls og mæla beint með málbandi frá ákveðnum punkti í jökuljaðarinn. Fyrir framan Heinabergsjökul er lón og þar þarf að beita svokölluðum þríhyrningsmælingum til að reikna út stöðu jökulsins hverju sinni.

Nú, þrjátíu árum síðar, eru nemendur FAS enn að skoða breytingar á jöklum. Frá árinu 2016 hefur skólinn notið aðstoðar sérfræðings frá Náttúrustofu Suðausturlands. Nemendur í inngangsáfanga að náttúruvísindum fara á hverju hausti og mæla Heinabergsjökul og nemendur í jarðfræði fylgjast með vestanverðum Fláajökli. Í gegnum tíðina hefur sama þríhyrningsmæliaðferðin verið notuð til að mæla Heinabergsjökul þar sem mælt hefur verið í jökuljaðarinn út frá tveimur föstum mælilínum (154-155 og 156-157) á landi.

Það hafa orðið gríðarmiklar breytingar á jöklinum á þessum þremur áratugum. Norðan megin í Heinabergslóni hefur jökullinn verið að þynnast og hopa. Árið 2017 hafði jökullinn brotnað það mikið upp að ekki reyndist unnt að styðast við nyrðri mælilínuna. Árið 2019 var annarri mæliaferð beitt þannig að fjarlægðarkíkir er einnig notaður til að mæla vegalengdir í jökulsporðinn við sunnanvert Heinabergslón. Í síðustu ferð að Heinabergsjökli þann 21. október síðastliðinn voru einnig framkvæmdar þríhyrningsmælingar út frá mælilínu 156-157 en ekki er víst hversu lengi það verður hægt því jökulinn er allur að þynnast og minnka og líkur á því að hann verði horfinn úr mælilínunni í náinni framtíð haldi jökulinn áfram að hörfa.

Árið 2016 var aftur farið að mæla Fláajökul og er það hluti af námi nemenda sem læra jarðfræði. Þar er verið að nýta nýlegar gervihnattamyndir af jökulsporðinum vestan við Jökulfell. Notaður er fjarlægðakíkir og staðarákvörðunartæki (GPS) til að mæla vegalengdir frá ákveðnum punktum og síðan er nýjasta staða jökulsporðsins teiknuð inn á loftmynd. Þetta er nokkuð flókið en nemendur fá á móti að kynnast vinnubrögðum í vísindunum.

Það hefur verið mikil áhersla lögð á það í FAS að nemendur fylgist  með náttúrunni og þeim breytingum sem eiga sér þar stað. Á þessum 30 árum hafa á annað þúsund nemendur farið í jöklamælingaferð á vegum FAS. Líkt og í fyrstu ferðinni sem var farin fyrir 30 árum eru ferðirnir „til fræðslu og til vísindaiðkunar“ og margir fyrrum nemendur minnast slíkra ferða.

Á þessum þremur áratugum hafa safnast miklar upplýsingar um jöklamælingar sem og önnur vöktunarverkefni FAS. Þessar upplýsingar eru settar á https://nattura.fas.is/ en verið er að uppfæra þann vef.

Eyjólfur Guðmundsson, FAS
Hjördís Skírnisdóttir, FAS
Snævarr Guðmundsson,  Náttúrustofu Suðausturlands

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...