Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) hefur til margra ára verið í öflugu samstarfi við skóla og stofnanir erlendis, m.a. í gegnum menntaáætlun ERASMUS+. Eitt af þeim Erasmus+ verkefnum sem nú eru í gangi í skólanum er verkefni sem ber yfirheitið DETOUR, en sú skammstöfun stendur fyrir enska heiti verkefnisins sem er, Destinations: Wellbeing Tourism Opportunities for Regions.
Verkefnið sem hefur fengið íslenska heitið Áfangastaðir: Heilsueflandi ferðaþjónusta, svæðisbundin tækifæri, felst í stefnumótandi samstarfi skóla og stofnanna í sex löndum með það að leiðarljósi að þróa starfsmenntun og þjálfun á sviði heilsueflandi ferðaþjónustu. Í verkefninu er leitast við að styðja ferðaþjónustufyrirtæki til að nýta tækifæri til uppbyggingar fjölbreyttrar heilsueflandi ferðaþjónustu. DETOUR verkefnið hlaut styrk til tveggja ára til að sinna þessu viðfangsefni og eru samstarfsaðilarnir skólar og stofnanir frá Skotlandi, Írlandi, Slóveníu og Azoreyjum og Danmörku auk Íslands.
Aukning á náttúruferðum, efld vitund um umhverfið og leit að aukinni líkamlegri og andlegri velferð hefur byggt upp vaxandi neytendamarkað innan ferðaþjónustunnar. Heilsueflandi ferðaþjónusta er ört stækkandi markaður á heimsvísu, en samkvæmt Global Wellness Institute (GWI) óx ferðamennska sem snýst um heilsu og vellíðan næstum 50% hraðar en heildarferðamennska á heimsvísu á árunum 2015 – 2017. GWI setti einnig fram þá spá að árið 2022 sæki yfir miljarður ferðamanna í heilsueflandi- og vellíðunar upplifun í ferðum sínum. Þessi spá var sett fram fyrir tíma Covid-19 en ekki er ólíklegt að þessi þróun haldi sér þegar ferðamennirnir fara aftur af stað. Þessi sömu samtök hafa skilgreint heilsueflandi ferðaþjónustu sem „Ferðalög sem leitast við að viðhalda eða efla persónulega velferð og líðan“
Til að geta tekið vel á móti þessum stækkandi ferðamannahópi verður í DETOUR verkefninu unnið að því að þróa bjargir og þjálfunarefni sem styrkt getur hæfnigrunn þeirra sem kjósa að starfa innan heilsueflandi ferðaþjónustu. DETOUR mun leggja kennurum, litlum- og meðalstórum ferðaþjónustufyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum sem vinna að þróun innan ferðaþjónustunnar, til þekkingu og færni til að nýta sér núverandi og komandi tækifæri á sviði heilsueflandi ferðamennsku til að efla nýsköpun í greininni, fjölbreytni á markaði og vöxt viðkomandi svæða.
Svæðið sem horft er til hér á landi er Suðurland og hefur verkefnið þegar verið kynnt fyrir nokkrum fyrirtækjum og hagsmunaaðilum í fjórðungnum þar sem leitað er eftir samstarfi við að auka sameiginlegan skilning á fyrirbærinu heilsueflandi ferðaþjónustu, leita eftir tengdum viðskiptatækifærum á þessu sviði og, eins og áður hefur verið greint frá, þróa þjálfunarefni sem nýst getur hlutaðeigandi. Afurðir verkefnisins verður hægt að nálgast rafrænt, eða því sem á ensku er kallað MOOC (Massive Open Online Course).
Slóðin inn á heimasíðu DETOUR er: https://www.detourproject.eu og fyrir frekari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við tengilið verkefnisins í FAS, Huldu Laxdal Hauksdóttur á netfanginu hulda@fas.is

Árið 2018 hófst Eramsus+ verkefnið Cultural heritage in the context of students’ careers þar sem fjallað er um menningu ungs fólks og þeirra upplifun á eigin landi. Þetta var fimm landa verkefni og auk Íslands tóku þátt; Eistland, Grikkland, Ítalía og Lettland. Líkt og í mörgum öðrum samstarfsverkefnum var gert ráð fyrir gagnkvæmum heimsóknum til þátttökulandanna. Verkefnið gekk samkvæmt áætlun þangað til að COVID-19 skall á. Rétt áður en landamæri fóru að lokast var farið í heimsókn til Ítalíu en það var í janúar 2020. Síðasta ferðin í verkefninu átti svo að vera í apríl 2020. Vegna COVID-19 reyndist það ekki mögulegt og þá var ákveðið að sjá hvort hægt yrði að fara í heimsóknir á haustönn 2020. Erasmus+ veitti frest til loka febrúar á þessu ári til að ljúka verkefninu.
Í janúar 2021 var orðið ljóst að ekki yrði hægt að fara til Lettlands en engu að síður þurfti að ljúka við verkefnið. Þessa vikuna hafa þátttakendur skipulagt starf sitt í gegnum netið. Fyrirhugaðir gestgjafar í síðustu heimsókninni sáu um að skipuleggja vikuna. Það hefur ýmislegt verið gert, t.d. hlustað á fyrirlestra, gagnvirkir leikir spilaðir og tekið þátt í fleiri en einni spurningakeppni. Síðast en ekki síst fengu þátttakendur að spreyta sig á lettneskri matargerðarlist.
Hér á Íslandi voru í þessari síðustu lotu fimm þátttakendur sem stóðu sig með stakri prýði og eru nú reynslunni ríkari þó verkefnið hafi endað öðruvísi en lagt var af stað með. Nánar er hægt að lesa um verkefnið hér
Á vorönn vinna nemendur á sviðslistasviði FAS tvær stuttmyndir. Verkefnið er frá hugmynd til sýningar og skiptist í fjórar vinnulotur sem eru:
1. hugmynd og handrit,
2. skipulag verkferla,
3. upptökur og
4. eftirvinnsla og sýningar.
Nú eru tólf nemendur skráðir í námið en kennarar eru Stefán Sturla og Skrýmir Árnason en auk þeirra koma fjórir einstaklingar og halda fyrirlestra um sitt sérsvið. Þeir eru Hlynur Pálmason kvikmyndaleikstjóri, Emil Morávek kvikmyndagerðamaður, Gunnar Auðunn Jóhannsson kvikmyndatökumaður og Tjörvi Óskarsson tónlistarmaður. Þeir þrír fyrstnefndu eru allir fyrrum nemendur FAS.
Nú eru nemendur að ljúka við fyrstu vinnulotuna og eru handrit fyrir þessar tvær myndir að verða tilbúin. Á næstu vikum munu nemendur hefja upptökur en áætlað er að frumsýna myndirnar í byrjun maí. Það verður að koma í ljós í vor hvernig staðið verður að sýningum myndanna. Nemendur hafa þar viðrað ýmsar nýjar og nýstárlegar lausnamiðaðar hugmyndir enda vinnur hópurinn mjög vel saman.
Við hér í FAS höfum lengi lagt á það áherslu að nemendur sýni sem mesta virkni. Það á við í öllu sem viðkemur skólanum, hvort sem það tengist námi eða öðru. Á hverri önn er haldinn skólafundur en þá hittast nemendur og starfsfólk til að ræða mikilvæg málefni hverju sinni. Og í gær var komið að skólafundi annarinnar.
Þrjú mál voru til umræðu; heilsa og samfélag, nám og samfélag og umhverfismál. Fyrir fundinn höfðu þátttakendur valið sér hóp eftir áhugasviði. Til að umræðan yrði markvissari og að allir fengju að koma sínu sjónarmiði á framfæri var stóru hópunum skipt í smærri einingar. Hópstjóri stýrði umræðum á hverjum stað og ritari tók niður punkta. Öllum hugmyndum var safnað saman og litið verður til þeirra við mótun skólastarfsins.
Að loknum fundi bauð skólinn upp á þorramat og þar voru í boði ýmsar kræsingar sem alla jafna eru ekki á borðum.
Áfanginn Afreksíþróttir hefur í nokkur ár verið hluti af námsframboði skólans. Margir nemenda okkar stunda reglulega íþróttir og eru jafnvel að æfa með liðum innan Sindra. Oft fer saman íþróttaiðkunin og áhugamál viðkomandi og með því að skrá sig í áfangann geta nemendur fengið einingar sem nýtast í náminu í FAS.
Í síðustu viku undirrituðu nokkrir nemendur í áfanganum samning við FAS. Það er kveðið á um að hver nemandi skuldbindi sig til að; framfylgja skólareglum, sinna námi sínu af kostgæfni, mæta á æfingar og vera fyrirmynd annarra hvað varðar heilsusamlegt líferni. Síðast en ekki síst þurfa þeir að skrá reglulega upplýsingar um æfingar, innihald þeirra og tímasetningar.
Þjálfari Sindra fylgist með þjálfun hvers nemanda og staðfestir að skráningar séu réttar. Íþróttakennari í FAS heldur utan um námið og ber ábyrgð á samstarfinu.
Samningurinn er mikilvægur áfangi fyrir bæði nemendur og skólann. Hann ætti að hjálpa nemendum að skipuleggja sig bæði hvað varðar nám í skólanum og eins viðkomandi íþróttagrein. Eins og flestir vita er regluleg ástundun og gott skipulag lykillinn að ná árangri.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ákveðið að veita FAS styrk til að skrifa heildstæða námskrá í ferðatengdum greinum með námslokum á þriðja hæfniþrepi. Forsaga málsins er sú að námsframboð í ferðatengdum greinum hefur þótt fremur ómarkvisst og afrakstur námsins ekki nægjanlega skýr. Atvinnulífið hefur ekki heldur metið nám í ferðatengdum greinum með fullnægjandi hætti hingað til. Ráðuneytið leitaði til framhaldsskóla um námskrárskrifin og það varð úr að FAS tæki verkefnið að sér.
Í bréfi frá ráðuneytinu kemur einnig fram að nú sé mikið atvinnuleysi í ferðaþjónustu vegna COVID-19 en vonir eru þó bundnar við að ferðaþjónusta verði aftur mikilvæg atvinnugrein á Íslandi. Ráðuneytið telur brýnt að nýta tímann nú til að skrifa heildstæða námsbrautarlýsingu fyrir atvinnugreinina. Möguleiki sé að framhaldsfræðslan geti meðal annars í samstarfi við fyrirtæki boðið upp á sveigjanlegt nám og styttri námslotur sem framhaldsskólar geti metið inn á brautina.
Ætlast er til að námskráin verði skrifuð á þessu ári og lögð er áhersla á að lýsingin sé unnin í samstarfi við aðra framhaldsskóla, framhaldsfræðsluna og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar.